Search
Close this search box.

Ár hjúkrunar

Deildu 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) tileinkar árið 2020 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Ákvörðunin er meðal annars tekin til heiðurs minningu breska hjúkrunarfræðingsins Florence Nightingale en þann 12. maí 2020 eru 200 ár liðin frá fæðingu hennar. Hún er þekkt fyrir að hafa stofnað fyrsta hjúkrunarskólann og rutt brautina fyrir nútímahjúkrun. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mun efna til viðburða sem þessu tengjast og hér á landi hafa Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Ljósmæðrafélag Íslands efnt til samstarfs til að vekja athygli á framtakinu.

Markmiðið með þessari ákvörðun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er að vekja athygli á störfum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og stuðla að því að störf þeirra séu metin að verðleikum.

Með aukinni áherslu á þverfaglega nálgun en ekki síður með því að heilbrigðisþjónustan færist meira í áttina að heilsugæslunni og til umræðu um forvarnir, lýðheilsu og almenna heilsueflingu eykst gildi hjúkrunar enn frekar. Þekking á hjúkrun er grundvallaratriði í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar á þessari öld.

Ein stærsta áskorun sem heilbrigðiskerfi þjóða standa frammi fyrir nú er mönnunarvandi, t.d. í hjúkrunarfræði. Kjör skipta meginmáli við lausn á þessu máli og ljóst er að nauðsynlegt er að bæta kjör hjúkrunarfræðinga ljósmæðra og annarra stétta heilbrigðisstarfsfólks. Þá á ég við kjör í víðu samhengi, þ.e. laun, vinnutími og starfsumhverfi og full viðurkenning á menntun og ábyrgð.

Í fyrra samþykkti ríkisstjórnin að setja á fót þrjá starfshópa sem hafa það hlutverk að finna leiðir til að bæta mönnun í heilbrigðisþjónustunni. Þar á meðal er starfshópur sem mun skoða leiðir til að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta og koma með tillögur sem miða að því að hjúkrunarfræðingar haldist í starfi. Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er því lýst að mönnun í heilbrigðiskerfinu sé aðkallandi verkefni og leita þurfi leiða til að fjölga starfsfólki í mörgum heilbrigðisstéttum og snúa við atgervisflótta. Hlutverk ríkisins í því samhengi sé að stuðla að því að fyrir hendi séu hvatar sem stuðli að fullnægjandi mönnun. Stjórnvöld eru meðvituð um hve brýnt er að takast á við mönnunarvandann og finna lausnir og að því er unnið.

Árið 2020 er vel til þess fallið að beina sjónum að mikilvægi hjúkrunar í heilbrigðisþjónustunni, lyfta faginu í umræðunni og ekki síst að leiða hugann að þeim fjölmörgu hjúkrunarfræðingum sem hafa með sínu framlagi átt sinn þátt í því að byggja upp heilbrigðisþjónustu á Íslandi um margra áratuga skeið.

Til hamingju hjúkrunarfræðingar og ljósmæður! Ég hlakka til að vinna með ykkur áfram að hugsjóninni um enn betri þjónustu.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search