Search
Close this search box.

Áramótaávarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra

Deildu 

Kæru landsmenn

Núna eru fjórar klukkustundir eftir af árinu 2020 og eflaust bíða margir spenntir eftir því að fagna nýju ári og kveðja þetta ár. Ár sem hefur reynst réttnefnt hamfaraár; þegar á okkur dundu heimsfaraldur, efnahagskreppa, jarðhræringar, snjóflóð og skriðuföll.

En 2020 var líka ár hugvits og afreka. Fyrir nokkrum dögum hófst bólusetning við kórónuveiru hér á landi – nokkuð sem flestir hefðu talið fjarlægan möguleika í upphafi árs. Hröð þróun bóluefnis er afrek mannsandans – afrek vísindanna – sem sýnir hvers við erum megnug þegar viljinn er fyrir hendi og fólk tekur höndum saman.

Við hér á Íslandi höfum náð markverðum árangri í baráttunni við kórónuveiruna, árangri sem hefur vakið athygli víða um heim. Sá árangur náðist fyrst og fremst vegna þess öfluga fólks sem staðið hefur í framlínunni, innan heilbrigðiskerfisins og annars staðar. Hann náðist líka meðal annars með því að tryggja öllum gjaldfrjálsa sýnatöku þar sem fólk gat mætt samdægurs og fengið niðurstöður samdægurs. Þetta þykir okkur núna í árslok sjálfsagt en er alls ekki sjálfsagt annars staðar og er lykilatriði í árangri okkar, ásamt öflugri smitrakningu og markvissri beitingu á sóttkví og einangrun. Við máttum vissulega búa við samkomutakmarkanir mestan hluta árs en vegna þessara öflugu aðferða var aldrei gripið til jafn harkalegra aðgerða og gert var í mjög mörgum, ef ekki flestum nágrannalanda okkar.

Samfélag okkar hefur tekist á við faraldurinn með þau gildi að leiðarljósi að treysta ráðleggingum vísindamanna og að við bærum öll skynsemi og gæfu til að fara að þeirra ráðum með almannahagsmuni að leiðarljósi.

En baráttunni er ekki lokið og við munum þurfa að beita sömu aðferðum fram eftir næsta ári. Með bólusetningunni verða skrefin þó smám saman léttari; smám saman munum við sjá lokamarkið færast nær og allt mun senn færast í eðlilegra horf.

Kæru landsmenn

Faraldurinn hefur tekið sinn toll. Fólk veiktist illa, margir glíma enn við eftirköst veirunnar og 29 létust á árinu úr þessum sjúkdómi. Hugur okkar er hjá ástvinum þeirra.

Hin efnahagslegu áhrif eru líka ómæld og alvarleg. Atvinnuleysi er um þessar mundir um tólf prósent og margir hafa orðið fyrir miklu tjóni og tekjumissi.

Stærsta verkefni stjórnmálanna og stjórnkerfisins hefur verið að styðja við almenning og atvinnulíf í landinu en þessi tvö markmið eru órjúfanleg heild þar sem atvinnuleysið er stærsta bölið sem nú ógnar íslensku samfélagi. Við höfum beitt ríkissjóði til að styðja við fólk og fyrirtæki. Halli ríkissjóðs hefur aldrei verið meiri í lýðveldissögunni – og tekur langt fram úr halla eftirhrunsáranna – vegna þess að við tókum við þá pólitísku ákvörðun að fara ekki eingöngu í sértækar stuðningsaðgerður heldur einnig að verja alla samfélagslega innviði; að beita ekki niðurskurði heldur verja velferðina og afkomuna og tryggja að Ísland verði áfram samfélag jöfnuðar.

Sú stefna hvílir á þeirri bjargföstu trú okkar að við munum vaxa út úr þessari kreppu og hagkerfið sem mun koma út úr kófinu geti orðið sterkara en áður – ef við höldum áfram að styðja við aukna verðmætasköpun og fjölbreytni í öllum atvinnugreinum. Þessi kraftur ríkisfjármálanna hefur notið stuðnings peningastefnunnar en aldrei í lýðveldissögunni hafa vextir verið jafn lágir. Það er gríðarlega stórt lífskjaramál sem mun einnig styðja okkur út úr kófinu.

Það er mikið áfall fyrir hverja manneskju að missa vinnuna. Þess vegna skiptir öllu að við látum engan bilbug á okkur finna, höldum áfram á sömu braut og endurreisum samfélagið af krafti og tryggjum að öll þau sem vilja og geta unnið fái til þess tækifæri. Við megum engan tíma að missa svo að næsta ár verði ár viðspyrnu. Það hefur verið búið þannig í haginn að við ættum að geta spyrnt fast við þegar faraldurinn lætur undan og kveðið niður draug atvinnuleysisins. Og þó að árið 2020 sem við kveðjum nú senn, hafi um margt verið erfitt og krefjandi þá er það einmitt slík reynsla sem kennir okkur mest.

Inni í hverri ferð er önnur ferð, segir ömmusystir aðalpersónu Dýralífs, nýrrar skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur sem kom út nú fyrir jólin. Og inni í ferðinni okkar á þessu ári er önnur ferð, ferð sem hefur sýnt okkur úr hverju íslenskt samfélag er gert. Sú ferð hefur ekki verið síður lærdómsrík en ferð okkar í gegnum faraldur og aðrar hamfarir. Hvert og eitt okkar hefur þurft að fara þá sameiginlegu ferð en líka okkar eigin ferð. Hvert og eitt okkar þurfti að venjast nýjum veruleika, fjarlægð frá ástvinum og gjörbreyttu hversdagslífi. Faraldurinn lagðist misþungt á fólk eftir aðstæðum. Ungt fólk fékk ekki að njóta eðlilegs félagslífs, sama má segja um þau sem búa á hjúkrunarheimilum og fólk á öllum aldri sem glímir við undirliggjandi sjúkdóma.

En í sömu bók, Dýralífi, segir líka að besti tími ársins til að skilja ljósið sé þegar minnst er af því. Ágjöf þessa árs sýndi okkur styrk okkar samfélagslegu innviða: Björgunarsveitir og almannavarnir þurftu ítrekað að bregðast við nýjum erfiðum aðstæðum. Heilbrigðiskerfið allt þurfti að taka á honum stóra sínum og stóðst það álagspróf með sóma, reyndist öflugt og snöggt í viðbrögðum. Skólar og íþróttafélög þurftu að umbylta starfi sínu oft á árinu og þetta ár var ekki auðvelt, hvorki fyrir skólafólk né íslenska æsku. Atvinnulífið allt þurfti að láta hjólin snúast með öðrum hætti en áður. Í ljós kom að ýmislegt er hægt að gera í erfiðum aðstæðum og sem samfélag höfum við sýnt seiglu, sveigjanleika og styrk. Þann lærdóm tökum við með okkur inn í framtíðina.

Kæru landsmenn.

Öll höfum við viljað kappkosta að smitast ekki af þessari veiru, hún er hættuleg og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér eins og við vitum. En eftir því sem liðið hefur á faraldurinn þá finnst mér æ meira bera á þeirri hugsun að hvert og eitt okkar vilji tryggja að við smitum ekki aðra. Að við berum ekki eingöngu ábyrgð á okkur sjálfum, lífi okkar og heilsu heldur líka gagnvart öllum samferðarmönnum okkar.

Sú hugsun og sú ábyrgðartilfinning þarf að ráða för í átökum okkar við aðra vá, engu minni en þá sem af veirunni stafar. Loftslagsváin hefur ekki horfið, þó að baráttan við hana hafi fallið í skuggann af faraldrinum undanfarna mánuði. Ísland mun takast á við það verkefni af auknum þunga. Undir lok þessa árs kynntum við ný markmið Íslands í loftslagsmálum þar sem við stefnum nú að því að auka samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda úr 40 prósentum í 55 prósent í samfloti með Noregi og Evrópusambandinu. Þá stefnum við að því að ná ákveðnum áfanga í kolefnishlutleysi í kringum 2030 og munum auka áherslu á loftslagstengd verkefni í þróunarsamvinnu okkar.

Markmiðin eru raunhæf og fjármögnuð – gjörðir fylgja orðum. Það eru þessi atriði sem skipta mestu máli í baráttunni við loftslagsvána. Ísland mun skila sínu í þessu stærsta sameiginlega verkefni okkar tíma og við getum lagt mikilvæg lóð á vogarskálarnar í baráttunni, lóð sem vega mun þyngra en stærð okkar segir til um. Ég hef væntingar til þess að það ríki góð samstaða í samfélaginu um þessi markmið því allt þetta kjörtímabil höfum við fengið jákvæðar undirtektir við áherslum okkar, frá almenningi, aðilum vinnumarkaðarins, vísindasamfélaginu og fleirum. Blaðinu hefur nú verið snúið við í loftslagsmálum á Íslandi en enn er mikið verkefni fyrir höndum.

Síðustu misseri höfum við ákveðið að fjárfesta meira í grunnrannsóknum og nýsköpun. Í þessum faraldri höfum við séð ótal hugvitsamlegar lausnir, meðal annars hjá íslenskum fyrirtækjum sem hafa náð miklum árangri. Fjárfesting í þekkingu mun reynast farsæl þegar kemur að því að fjölga stoðunum undir íslensku atvinnu – og efnahagslífi og hún mun líka skila sér í nýjum grænum lausnum sem geta flýtt fyrir þeirri nauðsynlegu grænu umbreytingu sem þarf að verða í samfélagi okkar. Hún mun fjölga störfum, auka lífsgæði og verðmætasköpun.

Góðir landsmenn

Framundan er ár viðspyrnu. Við munum hjálpa fólki og fjölskyldum af stað aftur, koma efnahagslífinu á flug og vinna að því mikilvæga markmiði sem við höfum sett okkur, að vaxa út úr kreppunni og að það verði öflugra og betra samfélag sem kemur út úr kófinu. Árið 2021 verður gott ár; ár gróanda og vaxtar, ár þar sem við byggjum á lærdómum ársins sem er að líða.

Árið 2020 var mikill prófsteinn á stjórnmálin. Ég tel það heilbrigðismerki á íslenskum stjórnmálum að íslenskir stjórnmálamenn ákváðu að láta faraldurinn ekki snúast um sig heldur nálguðust þetta verkefni sem björgunarstarf. Að einhverju leyti endurspeglar þetta ár hið sérstaka hlutskipti stjórnmálanna og það er mjög mikilvægt að við sem erum í forsvari í stjórnmálum þjóðarinnar vöndum okkur. Við erfiðar efnahagsaðstæður, gjaldþrot og atvinnuleysi er hætta á því að stjórnmálin verði öfgakennd og harkaleg og við slíkar aðstæður getur samstaða þjóðarinnar rofnað. Sú skylda hvílir á okkur öllum sem nú sitjum á Alþingi og í ríkisstjórn að gæta að því eftir fremsta megni að sundra ekki þjóðinni á þessum örlagatímum og til að svo megi verða þurfum við öll að muna að stjórnmálin snúast um gildi og hugsjónir en fyrst og fremst snúast þau um að vinna fyrir almenning í landinu og vera trú því verkefni sem okkur er falið að vinna. Vonandi berum við gæfu á komandi ári til að rísa undir þeirri ábyrgð sem á okkur hvílir.

Í janúar á þessu ári féllu snjóflóð á byggðina á Flateyri og í sjóinn í Súgandafirði. Ótrúleg mannbjörg varð á Flateyri þegar ungri stúlku var bjargað úr snjóflóðinu. Það var sláandi að heimsækja bæinn þar sem margir glímdu við erfiðar minningar úr snjóflóðunum 25 árum fyrr. Og ummerki flóðsins voru hrikaleg. Í lok árs féllu svo umfangsmestu skriður sem fallið hafa öldum saman á Seyðisfjörð. Það má kalla kraftaverk að ekkert manntjón hafi orðið en tjónið af skriðuföllunum er gríðarlegt. Þegar hefur verið ákveðið að flýta framkvæmdum við ofanflóðavarnir en þessir atburðir sýna mikilvægi þess að hraða slíkri innviðauppbyggingu.

„Það varð ekkert manntjón og þess vegna er framtíðin áfram hér, þess vegna byggjum við núna bara upp,“ sagði íbúi á Seyðisfirði við mig þegar við heimsóttum staðinn skömmu fyrir jól. Þessi orð sátu í mér. Þrátt fyrir erfitt ár þá hefur birtan verið yfirsterkari myrkrinu – jafnvel á dimmustu stundunum. Við kveðjum þetta ár, kannski ekki með mikilli eftirsjá, en göngum inn í framtíðina bjartsýn – og með vissuna um að við stöndum styrkum fótum í okkar öfluga og góða samfélagi.

Kæru landsmenn. Ég óska okkur öllum ljóss og friðar á nýju ári.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search