Search
Close this search box.

Árangur í loftslagsmálum er forsenda samkeppnishæfni

Deildu 

Þessi áratugur er sá áratugur sem mun ráða miklu um það hvort Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Í vikunni sem leið var umræða í þinginu um samkeppnishæfni landbúnaðar. Ég nefndi m.a. í þeirri umræðu þá skoðun mína að það þurfi að líta á árangur í loftslagsmálum sem lið í samkeppnishæfni landbúnaðar. Sú skoðun er byggð á þeim vísbendingum að neytendur geri sívaxandi kröfu til þess að matvæli séu framleidd á umhverfisvænan hátt.

Bændur njóti árangurs í loftslagsmálum

Niðurstöður úr verkefninu „Loftslagsvænn landbúnaður“ benda til þess að mjög mikill breytileiki sé milli búa í losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda. Þannig hafa sumir bændur náð miklum árangri í því að draga úr losun, með nákvæmnislandbúnaði og endurheimt votlendis. Einnig hafa margir aukið bindingu, með landgræðslu og skógrækt. Jafnvel slíkum árangri að nettólosun er neikvæð, að binding eigi sér stað fyrir hvert kílógramm afurða sem þeir framleiða. En eins og stuðningskerfi landbúnaðarins eru byggð upp í dag njóta þeir þess að litlu eða engu leiti í afkomu. Til þess að ná frekari árangri verður að breyta þessu. Kerfið þarf að umbuna þeim bændum sem hafa náð árangri. 

Rekjum afurðir til uppruna

Matvælaöryggi á Íslandi er mikið og má þar líta t.d. til mikils árangurs í að tempra notkun á sýklalyfjum í landbúnaði. Eftirlitskerfin bjóða upp á mikinn rekjanleika og ég tel að þau kerfi þurfi að þróa með þeim hætti að upplýsingar um kolefnisspor vöru fylgi frá haga í hillu. Með því að sækja fram á tveimur ásum, í loftslagsmálum með þekkingu að vopni og í að bæta rekjanleika og merkingar munu íslenskar búvörur geta náð auknum virðisauka í samkeppni við aðrar vörur. 

Lífrænn landbúnaður

Í umræðunum í þinginu í vikunni var líka komið inn á lífrænan landbúnað. Í stjórnarsáttmála er kveðið á um að móta eigi heildstæða, tímasetta aðgerðaráætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu. Áhugi á lífrænni framleiðslu hefur farið vaxandi um heim allan og í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við er kveðið á um það í landbúnaðarstefnum að efla lífræna framleiðslu. Evrópusambandið stefnir að því að 25% landbúnaðarlands verði orðið vottað lífrænt fyrir árið 2030. 

Þessi verkefni eru brýn. Við munum þurfa að glíma við hindranir en ef við erum lausnamiðuð og samstillt sjáum við tækifærin sem við blasa. Árangur í loftslagsvænum landbúnaði mun bæta samkeppnisstöðu bænda til lengri tíma og það er því mikils að vinna hvernig sem á málið er litið. Þannig munu allar ákvarðanir í matvælaráðuneytinu litast af markmiðum Íslands í loftslagsmálum.  

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search