Search
Close this search box.

Árangursríkur fundur

Deildu 

Glasgow-fundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál er lokið. Þrátt fyrir að ég hefði viljað sjá meiri metnað og stærri skref stigin með meiri hraða, þá er niðurstaða fundarins bæði söguleg og árangursrík og mikilvægt skref á réttri leið.

Í fyrsta lagi staðfestu aðildarríkin 197 að nú bæri að stefna að því að halda meðalhlýnun jarðar innan við 1,5°C. Þetta er söguleg pólitísk viðurkenning á loftslagsvísindunum. Með þessari ákvörðun minnka líkur á að eyríki í Kyrrahafi sökkvi í sæ og dregur úr röskun á vistkerfum, samfélögum og efnahag heimsins. En til þess þarf þó metnaðarfyllri skuldbindingar ríkja heims, því miðað við núverandi loforð stefnir í 2,4°C meðalhlýnun. Heimaverkefni aðildarríkjanna er því að bæta úr því í samræmi við 1,5 gráðu markmiðið fyrir lok næsta árs.

Í öðru lagi þá er í fyrsta skipti í ákvörðun loftslagsfundar SÞ ávarpað að draga þurfi úr notkun á kolum og niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Þetta atriði var mikið þrætuepli á fundinum en það tókst samt að lenda því að lokum. Þar sem loftslagsvandinn er að stærstum hluta vegna brennslu jarðefnaeldsneytis (kola, olíu og gass), þá markar þessi ákvörðun mikilvæg tímamót.

Í þriðja lagi leggur ákvörðun fundarins sérstaka áherslu á mikilvægi þess að vernda og endurheimta náttúru og vistkerfi. Losun frá landi og landnýtingu er enda næststærsti losunarþátturinn á heimsvísu og því gríðarlega mikilvægt að pólitísk viðurkenning næst á mikilvægi náttúruverndar fyrir loftslagsaðgerðir. Auk þessa skrifuðu yfir 130 ríki með nærri 90% af skógarþekju jarðar undir yfirlýsingu um að stöðva skógar- og landeyðingu fyrir árið 2030.

Í fjórða lagi þá er greinilegt að áhugi fjárfesta, þar með talið lífeyrissjóða, og fyrirtækja hefur aukist gríðarlega og búast má við stórauknum fjárfestingum í nýrri loftslagsvænni tækni og endurheimt vistkerfa á komandi árum.

Aldrei er mikilvægara en núna að ríki heims hrindi frekari aðgerðum í framkvæmd í loftslagsmálum. Ísland mun ekki láta sitt eftir liggja.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og varaformaður VG.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search