Íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir ákveðnum áskorunum um þessar mundir og um leið erum við vel í stakk búin til að takast á við þær. Forsendur nýrrar tillögu um fjármálaáætlun gera ráð fyrir kólnun í hagkerfinu og einmitt þess vegna er aukin áhersla á opinbera fjárfestingu til að tryggja atvinnustig og vega upp á móti slaka í hagkerfinu. Vissulega þarf að endurmeta áætlanir nú þegar áföll hafa orðið í flugrekstri en gleymum því ekki að við erum í góðri stöðu.
Innleidd hefur verið aukin langtímahugsun við stjórn ríkisfjármála. Hún sést vel þegar staða ríkissjóðs er skoðuð; skuldir ríkissjóðs hafa verið lækkaðar með markvissum hætti, ríkissjóður hefur verið rekinn með verulegum afgangi, þjóðhagslegur sparnaður hefur aukist, forðum hefur verið safnað og lánakjör ríkisins aldrei verið betri.
Stjórnvöld hafa unnið að því að efla samráð aðila vinnumarkaðarins, ríkis og sveitarfélaga og koma því í fastara form. Þá hefur ríkisstjórnin unnið að breytingum á ramma peningastefnunnar og umgjörð stjórntækja Seðlabanka Íslands. Sú vinna tekur mið af því að byggja á íslenskri krónu með notkun þjóðhagsvarúðartækja og fylgja ráðgjöf innlendra sem erlendra sérfræðinga á því sviði.
Hefðbundin hagstjórn byggist á samspili þriggja ofangreindra þátta; ríkisfjármála, vinnumarkaðar og peningastefnu. Markmiðið er þó ekki einungis að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Lykilatriði er að hagstjórnin styðji við félagslegan stöðugleika, að aukin ríkisútgjöld styðji við aukna velsæld og unnið sé að samfélagslegum umbótum samhliða umbótum á sviði efnahagsmála. Þriðja markmiðið er síðan að takast á við þá áskorun sem alltaf er að verða brýnni; hún er að allar þær ákvarðanir sem við tökum í efnahags- og atvinnumálum stuðli að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og markmiðið um kolefnishlutlaust samfélag eigi síðar en árið 2040 náist.
Það er hins vegar svo að þessi markmið fara saman. Við viljum fjölga stoðunum undir íslenskt efnahagslíf til að draga úr áhrifum af sveiflum einstakra atvinnuvega og draga úr því hversu háð hagkerfið er nýtingu náttúruauðlinda. Lykillinn að hvorutveggja er að veðja á og auka verulega stuðning við nýsköpun og rannsóknir; þannig tryggjum við tækifærin til þess að stoðunum muni sannarlega fjölga.
Þar með er ekki sagt að við höldum ekki áfram að nýta náttúruauðlindir okkar. Staðreyndin er nefnilega sú að þær atvinnugreinar sem reiða sig á náttúruauðlindir hafa um leið sinnt rannsóknum, þróun og nýsköpun með þeim hætti að verðmætasköpun hefur aukist stórkostlega ásamt því að markverður árangur hefur náðst í draga úr orkunotkun og um leið losun gróðurhúsalofttegunda.
Gott dæmi um þetta er sjávarútvegurinn sem skapar tæpan fimmtung okkar útflutningstekna. Verðmætaaukning í greininni hefur m.a. byggst á þróun á vinnsluaðferðum og sjálfvirkni sem hefur gert það kleift að auka mjög verðmæti úr veiddum afla. Á sama tíma hefur framþróun í sjávarútvegi einnig leitt til þess að á tuttugu ára tímabili hefur losun koltvísýrings vegna sjávarútvegs og matvælaframleiðslu dregist saman um 48%.
Innan allra atvinnugreina sem nýta auðlindir þjóðarinnar er unnið að áætlunum hvernig draga má úr losun og auka bindingu, hvort sem litið er til landbúnaðar, stóriðju eða ferðaþjónustu. Dæmin sýna að slíkur árangur getur farið saman við aukna verðmætasköpun og ekki er ósennilegt að eftirspurnin eftir afurðum sem framleiddar eru með kolefnishlutlausum hætti eigi eftir að aukast.
En það er líka mikilvægt að skapa aukin verðmæti úr þeim auðlindum sem aldrei þrýtur. Þar á ég að sjálfsögðu við hugvitið og þann ótrúlega árangur sem íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa náð í því að skapa verðmæti þar sem menn sáu áður ekki tækifæri. Fjölda nýrra fyrirtækja hefur verið komið á fót á síðustu tveimur áratugum, mörg með áherslu á nýsköpun og upplýsinga- og samskiptatækni og hefur útflutningsverðmæti þessara fyrirtækja nánast tvöfaldast á einungis fimm árum.
Afl þekkingarinnar er að skapa nýjan veruleika og ný verðmæti þar sem fólk sá ekki áður tækifærin. Og þekkingin er ekki einungis á sviði hinnar hefðbundnu tækni heldur einnig hinna skapandi greina og lista. Menntun, rannsóknir og nýsköpun er það sem mun tryggja velgengni íslensks efnahagslífs og samfélags inn í framtíðina, menntun sem mun gera hverjum og einum kleift að skapa sín eigin tækifæri og búa til ný verðmæti úr engu nema hugviti.
Þess vegna hafa stjórnvöld sett aukið fé í menntun og rannsóknir og þess vegna ætlum við að nýta arðinn af orkuauðlindinni meðal annars til að fjárfesta í nýsköpun. Það er vegna þess að þetta er sú auðlind sem mestu mun skipta til að íslenskt efnahagslíf hvíli á fjölbreyttari stoðum til framtíðar. Og þetta er sú auðlind sem mun hjálpa okkur að þróa efnahagslífið þannig að við getum tekist á við stærstu áskoranir samtímans.
Katrín Jakobsdóttir