Nú sem stendur eru sveitarfélög víða um land að reyna að samræma skipulag sorpmeðferðar án teljandi aðkomu ríkisins. Sorpa hefur náð langbestum árangri en byggðasamlagið hefur ekki getað haldið áfram að taka við úrgangi utan síns þjónustusvæðis af eðlilegum orsökum.
Víða er pottur brotinn
Sorpmeðferð er ekki nægilega umhverfisvæn hér á landi og endurnýting ekki fullnægjandi. Miklu skiptir að svo sé og ekki hvað síst þegar horft er til ímyndar Íslands og stöðu loftslagsmála. Meðferð úrgangs er ýmist ófullnægjandi eða í biðstöðu víða um land. Meðal annars er úrgangi ekið langar leiðir, nýir urðunarstaðir fást ekki og brátt stefnir í að evrópskar reglugerðir heimili ekki urðun lífræns úrgangs.AUGLÝSING
Staðan felur í sér áskorun um að fara í saumana á þessum málaflokki og koma upp samræmdu skipulagi og heildrænum lausnum. Það gerist ekki án aðkomu ríkisins. Með nýju jarðgerðar- og metanstöð Sorpu er stigið stórt framfaraskref. Sams konar en minni stöðvar gætu verið ein helsta úrbót í sorpmálum utan svæðis Sorpu.
Endurskipulagningar er þörf
Ég hef hvatt til þess að ríkisstjórnin komi á fót verkefnahópi skipuðum fulltrúum ríkis og allra sveitarfélaga (t.d. landsamtaka/sambanda), og sérfræðinga. Verkefni hans í þéttu samráði við sveitarfélögin gætu verið þessi:
- Samræmt skylduflokkunarkerfi fyrir allt landið
- Skipting landsins í samlagsumdæmi með fullnægjandi aðstöðu til flokkunar
- Flutningskerfi úrgangs innan hvers umdæmis og lágmörkun aksturs
- Endurvinnsla og endurnýting innanlands þar sem hentar
- Flutningur til útlanda frá tilteknum höfnum
- Jarðgerð og metanframleiðsla í hverju umdæmi eða sem næst því
- Brennsla úrgangs aðeins þar sem allra ítrasta þörf krefur
- Urðun óvirks og óflokkanlegs úrgangs (eingöngu)
Í stað jarðgerðar og hluta endurvinnslu (t.d. á ýmiss konar plasti) gæti komið kerfi strandsiglinga þar sem úrgangi er safnað saman á landsvísu í ´serstakt gmaáflutningaskip með vistvænan vélbúnað. Úrgangurinn væri fluttur á svokallað „kalt“ landsvæði og brennt í einni hátæknistöð sem skilar verulegri raf- og varmaorku umfram orku sem fer í í koma brunanum af stað. Slíkt verkefni hefur verið forunnið af Sorporku. Alla kosti þarf að kanna og reikna bæði raunkostnað, kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, vistspor og hagræðingu sem af samræmdu kerfi hlýst.
Kostnaður við alla þessa iðju er og verður töluverður og í mörgum tilvikum umfram tekjur. Þess vegna þarf að koma til samkomulag ríkis og sveitarfélaga hvernig fjármálum skuli hagað í þágu umhverfis og íbúa landsins. Vel má vera að hækkun þjónustugjalda þurfi að hluta til þess að málaflokknum sé borgið, auk ríkisframlags. Koma verður meðferð úrgangs á landsvísu í fullnægjandi horf á 2-3 árum. Það er verkefni sem þolir litla bið.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.