Embætti landlæknis réðst í gerð hlutaúttektar á bráðamóttökunni í desember 2018 vegna ábendingar um að mikið álag á móttökunni ógnaði öryggi sjúklinga. Embættið beindi í kjölfar úttektar sinnar allmörgum ábendingum til Landspítalans um leiðir til að bregðast við og sömuleiðis til heilbrigðisráðuneytisins. Heilbrigðisráðuneytið hefur lagt allt kapp á að hrinda í framkvæmd aðgerðunum sem embætti landlæknis lagði til í hlutaúttektinni fyrir ári.
Í síðustu viku afhenti Embætti landslæknis mér minnisblað varðandi stöðuna á bráðamóttöku Landspítala. Í minnisblaðinu segir að þrátt fyrir fjölda aðgerða sem gripið hafi verið til af hálfu heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans á síðasta ári hafi staðan á bráðamóttökunni ekki batnað. Embætti landlæknis beinir meðal annars þeirri tillögu að heilbrigðisráðuneytinu að leysa þurfi úr brýnasta vanda bráðamóttöku með tafarlausu samráði og aðgerðum. Við því hefur verið brugðist og í lok síðustu viku var tekin sameiginleg ákvörðun í ráðuneyti mínu, hjá Embætti landlæknis og Landspítala um stofnun sérstaks átakshóps um lausnir á vanda bráðamóttökunnar. Ætlunin er að fram fari víðtækt samráð við starfsfólk Landspítala og aðra aðila eins og þörf krefur.
Í hópnum eiga sæti tveir fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og tveir frá Landspítalanum. Vilborg Hauksdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri og til skamms tíma settur ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu mun leiða starf hópsins en einnig verður frá ráðuneytinu sérfræðingur á sviði gagnagreiningar. Frá Landspítalanum verða í hópnum Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra og Jón Magnús Kristjánsson, forstöðumaður bráðaþjónustu Landspítala.
Átakshópnum til fulltingis verða tveir erlendir ráðgjafar með sérþekkingu á sviði bráðaþjónustu og flæði sjúklinga innan sjúkrahúsa. Þetta eru Johan Permert, skurðlæknir og prófessor við Karolinska-sjúkrahúsið í Stokkhólmi og Markus Castegren, sérfræðingur á sviði svæfinga- og gjörgæslulækninga við sömu stofnun en hann starfar einnig við sjúkrahúsið í Eskilstuna. Gert er ráð fyrir að Landspítalinn setji á fót vinnuhópa til að sinna skilgreindum verkefnum fyrir átakshópinn eftir þörfum.