Search
Close this search box.

Aukið fjármagn til verndar náttúru landsins

Deildu 

Ósnortin náttúra er auðlind sem fer hratt þverrandi á heimsvísu. Friðlýst svæði á Íslandi spanna allt frá fossum og hellum til heilu þjóðgarðanna og ná yfir margt af því merkasta og dýrmætasta í náttúru landsins. Svæðin hafa hlotið vernd í þeim tilgangi að tryggja að komandi kynslóðir fái notið þeirra, rétt eins og við.

Aukin vernd og bætt aðgengi

Eðli málsins samkvæmt hafa friðlýst svæði mikið aðdráttarafl. Þess vegna er mikilvægt að tryggja að friðlýstu svæðin hafi sterka innviði sem stuðla að vernd þeirra og auðvelda fólki aðgengi að perlum íslenskrar náttúru, án þess að hún hljóti skaða af. Í þeim tilgangi var fjármagn sett í Landsáætlun um uppbyggingu innviða í upphafi þessa kjörtímabils en í krafti áætlunarinnar er nú á hverju ári varið um milljarði til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum á ferðamannastöðum á landinu.

Dyrhólaey, Þingvellir, Gjáin, Rauðufossar og Jökulsárlón

Til viðbótar þessum milljarði veitti Alþingi með sérstöku fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar tæpum 400 milljónum króna árið 2020 til verndunar náttúru og bættrar aðstöðu á friðlýstum svæðum. Fjármagninu hefur einkum verið varið í stígagerð, t.d. í Dyrhólaey, á Þingvöllum, í Gjánni í Þjórsárdal og við Rauðufossa að Fjallabaki. Rauðufossar eru dæmi um viðkvæmt svæði þar sem heimsóknir jukust mikið á skömmum tíma og því var brýnt að bregðast við. Handverkið og frágangurinn á stígagerðinni er til fyrirmyndar en ég skoðaði svæðið í haust. Í fjárfestingaátakinu var líka ráðist í lagningu bílastæðis við Eystri-Fellsfjöru við Jökulsárlón og lauk verkinu nú fyrir áramót.  

Uppbygging á nýfriðlýstum svæðum

Á síðasta ári voru átta svæði friðlýst á landinu. Ég hef lagt ríka áherslu á að fjármagn og landvarsla fylgi nýjum friðlýsingum. Um 140 m.kr. af fjárheimildum 2020 munu nú renna til uppbyggingar innviða á þessum svæðum. Á Geysissvæðinu verða til að mynda reistir timburpallar og lagðir malarstígar. Í Kerlingarfjöllum hefur verið unnið mikið og gott starf til verndar náttúrunni en þar verður gripið til frekari aðgerða til verndar einstökum hverasvæðum. Þá verða innviðir einnig efldir í Búrfellsgjá, við Goðafoss og í Þjórsárdal.

Friðlýsingar halda áfram

Undirbúningur að friðlýsingu allmargra svæða stendur nú yfir. Friðlýst svæði eru einir helstu seglarnir okkar þegar kemur að heimsóknum ferðamanna. Þannig fylgir nýjum friðlýsingum aukin vernd náttúrunnar á sama tíma og sköpuð eru frekari efnahagsleg tækifæri í afþreyingu, gistingu og veitingaþjónustu í nágrenni svæðanna. Ég hef metnað til að búa vel að þessum svæðum en stór skref hafa verið stigin á þessu kjörtímabili í þá átt, bæði með aukinni landvörslu og uppbyggingu innviða sem skýla náttúrunni. Höldum áfram á þessari braut.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search