Search
Close this search box.

Aukið lýðræði á vinnustað – grein eftir Kolbein Óttarsson Proppé og Ragnar Þór Ingólfsson

Deildu 

Lýðræði á heima á vinnustöðum eins og í samfélaginu öllu en umræða um slíkt hefur ekki verið hávær hér á landi. Lýðræði á vinnustað, öðru nafni atvinnulýðræði, felur í raun í sér allar ráðstafanir sem gerðar eru til að auka áhrif starfsmanna á ákvarðanir sem varða vinnustað þeirra, allt frá stefnumótun til ákvarðana sem tengjast daglegum störfum. Atvinnulýðræði hlýtur að vera eðlilegur þáttur í atvinnulífinu, enda er það sanngjarnt að bæði fjármagnið og vinnuaflið fái viðurkenningu fyrir sitt framlag til verðmætasköpunar fyrirtækja.

Nú liggur fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar um atvinnulýðræði sem þingmenn VG hafa lagt fram. VR og Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) gerði kröfu um aukið lýðræði á vinnustað í síðustu kjarasamningum og einnig hefur verið ályktað um aukið atvinnulýðræði á þingi LÍV. VR og LÍV lýsa hér með yfir stuðningi við þingsályktunartillöguna og vegna mikilvægis málsins höfum við tekið höndum saman, formaður VR og fyrsti flutningsmaður tillögunnar, til að vekja athygli á þessu mikilvæga máli.

Af hverju atvinnulýðræði?

Atvinnulýðræði hefur margar birtingarmyndir, allt frá því sem við þekkjum hér í formi trúnaðarmanna í fyrirtækjum til stjórnarsetu fulltrúa starfsmanna sem finna má víða í nágrannalöndum okkar. Trúnaðarmannakerfið er mjög sterkt á Íslandi og hefur skilað launafólki gríðarlegum ávinningi. Hins vegar þarf að styrkja það kerfi með auknu lýðræði á vinnustað og stuðla þannig að öflugri lýðræðisþróun á Íslandi.

Vinnuframlag einstaklinga er ekki bara vara sem gengur kaupum og sölum. Starfsmenn leggja fram þekkingu sína og kunnáttu sem er fyrirtækjum dýrmætt og eflir samkeppnishæfni þeirra. Það er eðlileg krafa starfsmanna að hlustað sé á raddir þeirra og að þeir geti lagt sitt af mörkum þegar kemur að ákvarðanatöku innan fyrirtækisins.

Reynsla nágrannaríkjanna af auknu atvinnulýðræði sýnir að það skilar sér víða í betra upplýsingaflæði, betra samstarfi, meira trausti og minni átökum. Aukið atvinnulýðræði felur í sér eftirlit með ákvörðunum stjórnar og þar af leiðandi minni áhættusækni. Niðurstöður rannsókna gefa vísbendingar um að fyrirtæki sem starfa í anda atvinnulýðræðis fjárfesti almennt meira, sinni rannsóknum og þróun betur, sinni starfsmannamálum betur sem og samfélagslegri ábyrgð.

Þróun vinnumarkaðar

VR og LÍV stefna markvisst að því að hafa áhrif á þróun vinnumarkaðarins til framtíðar og koma í veg fyrir að stórar breytingar á vinnumarkaði geti skert hagsmuni félagsmanna. Ljóst er að örar breytingar eru fram undan, en til þess að stuðla að framþróun þarf að eiga sér stað lýðræðislegt samtal um það hvernig hlutirnir eiga að vera. Það er eðlilegt að starfsfólk taki þátt í því að móta yfirvofandi breytingar á vinnumarkaði, það er ekki aðeins stjórnenda í fyrirtækjum að ákveða í hverju þær skuli felast.

Aukin tækni, nýting gervigreindar og sjálfvirknivæðing sem leiðir til aukinnar hagkvæmni og hagræðingar fyrir fyrirtæki á einnig að leiða til aukinnar farsældar fyrir starfsfólkið. Lýðræði á vinnustað er góð leið til þess að tryggja það að starfsfólk geti haft áhrif á þetta mikilvæga mál sem og önnur. Tillaga VG gerir einmitt ráð fyrir því að samtök launafólks hafi áhrif á hvernig atvinnulýðræði verði best komið á með setu í starfshópi sem á að vinna tillögur.

Í mörgum löndum í kringum okkur, á Norðurlöndunum og á meginlandi Evrópu, hefur atvinnulýðræði verið virkt í lengri tíma. Hér á landi gefa hvorki lög né kjarasamningar starfsfólki almennt rétt til beinna áhrifa á sínum vinnustöðum. VR og LÍV fagna því þingsályktunartillögu um atvinnulýðræði og hvetja til víðtækrar umræðu um hvernig auka megi lýðræði í atvinnulífinu, öllum til hagsbóta, með góðri samvinnu löggjafans og samtaka launafólks.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search