Search
Close this search box.

Aukið vald Alþingis í varnarmálum

Deildu 

Ég mælti fyrir frumvarpi mínu um breytingar á varnarmálalögum fyrr í dag, en að því standa auk mín sjö aðrir þingmenn Vinstri grænna. Frumvarpið snýr að því að auka hlut Alþingis þegar kemur að ákvörðunum um varnarmál, en þar er kveðið á um að allar bókanir og viðbætur við varnarsamninginn skuli bera undir Alþingi til samþykktar. Hið sama gildi um alla uppbyggingu og eðlilegt viðhald á vegum hers hér á landi.

Von mín stendur til þess að allir þingmenn geti stutt þessa sjálfsögðu breytingu, óháð skoðun á veru herliðs hér á landi eða aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Okkur verður tíðrætt um mikilvægi lýðræðislegrar umræðu og þess að vegur Alþingis sé aukinn. Þetta mál gerir einmitt það, því það lyftir upp í umræðuna málum sem hingað til hafa komið á borð þings sem orðinn hlutur. Alþingi hefur ekki greitt atkvæði um viðveru eða uppbyggingu hers hér á landi síðan varnarsamningurinn var samþykktur 1951.

Sjálfur tel ég að hér eigi enginn her að vera og að Ísland eigi ekki að vera aðili að hernaðarbandalagi. Á þingi er einnig að finna fólk með algjörlega öndverða skoðun; að hér eigi að vera herlið og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu sé nauðsynleg. Hið síðarnefnda er m.a.s. hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins. Þessi skoðanamunur hefur hins vegar ekkert með breytingartillögu mína að gera; öll hljótum við nefnilega að vilja auka lýðræðislega umræðu um þessi mál.

Umræður um varnarmál hafa á síðustu árum fyrst og fremst snúist um orðna hluti, þ.e. uppbyggingaráform hafa ekki komið til umræðu fyrr en eftir að þau hafa verið samþykkt. Þannig er það árvisst að þegar Bandaríkjaþing samþykkir fjárlög virðast margir á Íslandi fyrst átta sig á því að um framkvæmdir og uppbyggingu hafi verið samið á varnarsvæðinu.

Fyrir þessu er m.a. sú ástæða að ekki þarf samþykki Alþingis fyrir slíkri uppbyggingu, heldur fer ráðherra málaflokksins með umboð til samninga fyrir Íslands hönd. Breytingar á eðli varnarsamningsins fá því ekki þá pólitísku umræðu fyrir fram sem eðlilegt hlýtur að teljast, algjörlega óháð því hver gegnir embætti utanríkisráðherra hverju sinni.

Málið er nú gengið til utanríkismálanefndar og fær þar sína eðlilegu þingmeðferð. Í ljósi yfirlýsts vilja fjölda þingmanna til þess að auka veg Alþingis og styrkja lýðræðislega umræðu, ber ég mikla von til þess að breytingin verði samþykkt.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search