Skilningur á aðstæðum og líðan fólks með heilabilun er mikilvæg forsenda þess að komið sé fram við það af þeirri virðingu sem því ber og að það fái viðeigandi þjónustu í öllum aðstæðum. Með það markmið í huga ákvað ég á dögunum að veita Alzheimersamtökunum 15 milljóna króna styrk til að hrinda í framkvæmd tveimur fræðsluverkefnum sem snúa að þjónustu við aldraða og fólki með heilabilun.
Fræðsluverkefni Alzheimersamtakanna varða annars vegar svokölluð styðjandi samfélög og hins vegar jafningjafræðslu á hjúkrunarheimilum. Til að stuðla að styðjandi samfélögum fyrir fólk með heilabilun munu Alzheimersamtökin standa fyrir gerð fræðsluefnis fyrir sveitarfélög og ýmsa þá sem veita almenningi þjónustu, s.s. afgreiðslufólk í verslunum, öryggisverði, lögreglu, fólk sem sinnir almenningssamgöngum o.fl. þar sem fjallað er um heilabilun og ýmsar birtingarmyndir heilabilunarsjúkdóma og farsæl viðbrögð þjónustuaðila í samskiptum við fólk með einkenni heilabilunar. Fræðsluefnið verður meðal annars aðgengilegt í gegnum vefgáttina Heilsuveru.
Verkefni Alzheimersamtakanna sem varðar jafningafræðslu á hjúkrunarheimilum snýst um að koma á fót teymi sem heimsækir hjúkrunarheimili, veitir fræðslu og styrkir getu starfsfólks til að veita fólki með heilabilun umönnun. Mikilvægur liður í verkefninu og megináhersla í störfum teymisins verður að aðstoða starfsfólk á hverjum stað við að koma á fót jafningjafræðslu um umönnun fólks með heilabilun. Gert er ráð fyrir að jafningjafræðsla hefjist á öllum hjúkrunarheimilum landsins á árunum 2020-2021 undir stjórn Alzheimersamtakanna.
Við sama tækifæri veitti ég Landssamtökum eldri borgara þriggja milljóna króna styrk til gerðar fræðsluefnis í forvarnaskyni gegn einmanaleika og félagslegri einangrun eldra fólks. Vitað er að félagsleg einangrun er einn af áhættuþáttum heilabilunar. Meðal annars þess vegna skiptir miklu máli að eldra fólk haldi virkni og félagslegum tengslum og fái til þess markvissan stuðning ef þess er þörf. Fræðsluefnið mun snúa að þessu og beinast jafnt að einstaklingum og stjórnsýslunni. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrir lok árs 2020 og að fræðsluefnið verði einnig aðgengilegt á vefgáttinni Heilsuveru.
Fyrrnefnd verkefni falla að aðgerðaáætlun í málefnum fólks með heilabilun sem verið er að leggja á lokahönd í heilbrigðisráðuneytinu og er unnin út frá drögum að áætlun um þjónustu við einstaklinga með heilabilun sem Jón Snædal vann fyrir ráðuneytið. Þá hafa fagmenn og aðstandendur lagt fram ábendingar um hvernig þjónustunni verður best fyrir komið, auk þess sem litið hefur verið til reynslu annarra Norðurlanda af uppbyggingu þjónustu við þennan hóp. Þjónustan þarf að vera óslitin allt frá greiningu sjúkdómsins og það er dýrmætt að fá ábendingar frá þeim sem reynt hafa á eigin skinni hvar tækifæri eru til úrbóta.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.