PO
EN

Aukin fræðsla um heilabilun

Deildu 

Skiln­ing­ur á aðstæðum og líðan fólks með heila­bil­un er mik­il­væg for­senda þess að komið sé fram við það af þeirri virðingu sem því ber og að það fái viðeig­andi þjón­ustu í öll­um aðstæðum. Með það mark­mið í huga ákvað ég á dög­un­um að veita Alzheimer­sam­tök­un­um 15 millj­óna króna styrk til að hrinda í fram­kvæmd tveim­ur fræðslu­verk­efn­um sem snúa að þjón­ustu við aldraða og fólki með heila­bil­un.

Fræðslu­verk­efni Alzheimer­sam­tak­anna varða ann­ars veg­ar svo­kölluð styðjandi sam­fé­lög og hins veg­ar jafn­ingja­fræðslu á hjúkr­un­ar­heim­il­um. Til að stuðla að styðjandi sam­fé­lög­um fyr­ir fólk með heila­bil­un munu Alzheimer­sam­tök­in standa fyr­ir gerð fræðslu­efn­is fyr­ir sveit­ar­fé­lög og ýmsa þá sem veita al­menn­ingi þjón­ustu, s.s. af­greiðslu­fólk í versl­un­um, ör­ygg­is­verði, lög­reglu, fólk sem sinn­ir al­menn­ings­sam­göng­um o.fl. þar sem fjallað er um heila­bil­un og ýms­ar birt­ing­ar­mynd­ir heila­bil­un­ar­sjúk­dóma og far­sæl viðbrögð þjón­ustuaðila í sam­skipt­um við fólk með ein­kenni heila­bil­un­ar. Fræðslu­efnið verður meðal ann­ars aðgengi­legt í gegn­um vef­gátt­ina Heilsu­veru.

Verk­efni Alzheimer­sam­tak­anna sem varðar jafn­inga­fræðslu á hjúkr­un­ar­heim­il­um snýst um að koma á fót teymi sem heim­sæk­ir hjúkr­un­ar­heim­ili, veit­ir fræðslu og styrk­ir getu starfs­fólks til að veita fólki með heila­bil­un umönn­un. Mik­il­væg­ur liður í verk­efn­inu og megin­áhersla í störf­um teym­is­ins verður að aðstoða starfs­fólk á hverj­um stað við að koma á fót jafn­ingja­fræðslu um umönn­un fólks með heila­bil­un. Gert er ráð fyr­ir að jafn­ingja­fræðsla hefj­ist á öll­um hjúkr­un­ar­heim­il­um lands­ins á ár­un­um 2020-2021 und­ir stjórn Alzheimer­sam­tak­anna.

Við sama tæki­færi veitti ég Lands­sam­tök­um eldri borg­ara þriggja millj­óna króna styrk til gerðar fræðslu­efn­is í for­varna­skyni gegn ein­mana­leika og fé­lags­legri ein­angr­un eldra fólks. Vitað er að fé­lags­leg ein­angr­un er einn af áhættuþátt­um heila­bil­un­ar. Meðal ann­ars þess vegna skipt­ir miklu máli að eldra fólk haldi virkni og fé­lags­leg­um tengsl­um og fái til þess mark­viss­an stuðning ef þess er þörf. Fræðslu­efnið mun snúa að þessu og bein­ast jafnt að ein­stak­ling­um og stjórn­sýsl­unni. Gert er ráð fyr­ir að verk­efn­inu ljúki fyr­ir lok árs 2020 og að fræðslu­efnið verði einnig aðgengi­legt á vef­gátt­inni Heilsu­veru.

Fyrr­nefnd verk­efni falla að aðgerðaáætl­un í mál­efn­um fólks með heila­bil­un sem verið er að leggja á loka­hönd í heil­brigðisráðuneyt­inu og er unn­in út frá drög­um að áætl­un um þjón­ustu við ein­stak­linga með heila­bil­un sem Jón Snæ­dal vann fyr­ir ráðuneytið. Þá hafa fag­menn og aðstand­end­ur lagt fram ábend­ing­ar um hvernig þjón­ust­unni verður best fyr­ir komið, auk þess sem litið hef­ur verið til reynslu annarra Norður­landa af upp­bygg­ingu þjón­ustu við þenn­an hóp. Þjón­ust­an þarf að vera óslit­in allt frá grein­ingu sjúk­dóms­ins og það er dýr­mætt að fá ábend­ing­ar frá þeim sem reynt hafa á eig­in skinni hvar tæki­færi eru til úr­bóta.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search