Search
Close this search box.

Aukin göngudeildarþjónusta

Deildu 

Í  heilbrigðisstefnu til ársins 2030 kemur fram það markmið að árið 2030 verði byggingaframkvæmdum við Landspítala við Hringbraut og Sjúkrahúsið á Akureyri lokið og að þar verði góð aðstaða til að veita bráða og valkvæða heilbrigðisþjónustu og öfluga þjónustu á dag- og göngudeildum.

Efling göngudeildarþjónustu á Landspítala hófst á fyrri hluta embættistíðar minnar sem heilbrigðisráðherra, þegar undirbúningur að opnun göngudeilda á Eiríksstöðum hófst í október 2018. Þá var húsnæði við Skaftahlíð tekið á leigu undir starfsemi Landspítala og húsnæði á Eiríksstöðum, sem hefur hýst skrifstofur Landspítala, breytt til þess að þar væri mögulegt að hefja göngudeildarstarfsemi. Skrifstofur Landspítala voru fluttar í Skaftahlíð á síðasta ári, samhliða framkvæmdum við Eiríksstaði.

Húsnæðið á Eiríksstöðum hefur nú tekið gagngerum breytingum. Sem dæmi má nefna að lyftu hefur verið bætt í húsið, sett hefur verið upp loftræsikerfi sem uppfyllir sjúkrahúskröfur, sérhæfð rými útbúin, s.s. skurðstofur, röntgenstofur og skimunaraðstaða fyrir brjóstakrabbameini, auk viðhalds og breytinga á húsinu í heild sinni. Framkvæmdum lýkur bráðlega og starfsemi mun hefjast í hluta hússins á næstu vikum og í síðustu viku tók Landspítali á ný við húsnæðinu að Eiríksgötu 5

Eiríksstaðir munu hýsa fjölbreytta klíníska starfsemi á vegum Landspítala og þegar hún hefst eflist þjónusta og göngudeildarstarfsemi spítalans með margvíslegum hætti.


Í hinu breytta húsnæði á Eiríksstöðum verður göngudeildarþjónusta fyrir gigtarsjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, erfðaráðgjöf, augnsjúkdóma, skimun og greiningu krabbameins og sérstök brjóstamiðstöð. Á Eiríksstöðum verður jafnframt heildstæð göngudeildarþjónusta við konur með krabbamein í brjósti, allt frá skimun til eftirlits eftir meðferð.

Göngudeildarhúsið Eiríksstaðir er ómissandi hluti endurnýjunar húsnæðis við Landspítala sem nú stendur yfir og felst meðal annars í nýbyggingu meðferðarkjarna við Hringbraut. Við viljum geta boðið okkar góða heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum spítalans fyrsta flokks aðstæður sem uppfylla kröfur nútímans um gæði og öryggi. Endurbætur og breytingar á húsnæði og nýbyggingar eru þar veigamikill þáttur. Heilbrigðisþjónustan tekur breytingum dag frá degi í samræmi við auknar þarfir fyrir sveigjanleika og fjölbreytni. Heilbrigðisstefnan okkar gerir ráð fyrir sífellt öflugri Landspítala og ný þjónusta á Eiríksstöðum er skref í þá átt.

Efling göngudeildarþjónustu við þjóðarsjúkrahúsið okkar felur í sér eflingu hins opinbera heilbrigðiskerfis. Það er stóra markmið ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að styrkja og efla hið opinbera heilbrigðiskerfi og hver áfangi á þeirri vegferð er fagnaðarefni.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search