Kæru félagar til hamingju með alþjóðlegan baráttudag launafólks. Í ár eru eitt hundrað ár frá því að launafólk hélt í sína fyrstu skipulögðu kröfugöngu á Íslandi á 1. maí.
Það var ekki síst þess vegna sem ég leitaði til sögu Alþýðusambandsins eftir innblæstri og fann þar rúmlega hundrað ára gamalt kvæði Hafið þið heyrt það? sem ort var í tilefni af stofnun og starfsemi Verkamannafélagsins Hlífar í mars 1907.
Fyrsta erindið hljóðar svo:
Þið hafið máske heyrt þá sögu sagða til og frá – er sérstaklega hryggir kaupmenn alla, –
að verkafólkið hérna sé að „stilla’ upp“ stefnuskrá:
að styrkja’ og vernda rétt sinn – er þeir kalla.
Að hugsa sér þá óskammfeilni, er í þessu felst –
hún einhvern tíma’ í þessu lífi’ eða hinumegin gelzt
Þau í Hafnarfirði hafa alltaf verið á undan sinni samtíð og sönnuðu það sannarlega með stofnun Hlífar því í því voru frá upphafi bæði karlar og konur.
Þegar við horfum til baka til síðustu 100 ára verkalýðsfélaga er ljóst að þau hafa gegnt mikilvægu hlutverki við mótun samfélags okkar. Stéttarfélög hafa barist fyrir réttindum verkafólks, talað fyrir sanngjörnum launum og krafist betri vinnuskilyrða. Þær hafa haft í för með sér verulegar breytingar á vinnustaðnum og víðar og bætt líf milljóna starfsmanna um allan heim.
Hjarta okkar Vinstri grænna slær í takt með verkalýðshreyfingunni og hugmyndafræði verkalýðshreyfingarinnar er í öllum megin atriðum samhljóða því sem við, sem stjórnmálahreyfing berjumst fyrir.
Yfirskrift dagsins að þessu sinni er RÉTTLÆTI – JÖFNUÐUR – VELFERÐ og það er sannarlega það sem við í VG höfum haft sem leiðarljósi í öllum okkar störfum.
Misskipting auðs og krafa um jöfnuð, réttlæti og trygga velferð er enn þarft stef, ekki aðeins á þessum degi heldur alltaf.
Annað erindi í kvæðinu lýsir viðhorfum og viðbrögðum kaupmanna við stofnun Hlífar – hljómar sem kunnuglegt stef – líka í dag:
Ég kalla það ei undarlegt þó kaupmenn hefðu reiðst
og kveðið þetta „húmbúg“ alveg niður.
En þeir hafa enn, sem endranær, af æðri hvötum leiðst,
því einkunn þeirra flestra’ er mildi’ og friður.
Þó skerpi þeir sig dálítið við skuldugt verka-þý,
Mér skilst það bara mannlegt, – eða getið þið neitað því?
Kæru félagar.
Mig langar að vitna í ríkisstjórnarsáttmálann þar sem segir:
„Auður íslensks samfélags byggist á því að við skiptum öll máli og því er mikilvægt að við fáum öll tækifæri til þess að taka þátt. Einstaklingurinn er hjartað í kerfinu, hvort sem um er að ræða börn, fatlað fólk, öryrkja eða þá sem hingað flytja til að taka þátt í íslensku samfélagi. Öflugt velferðarkerfi er undirstaða jöfnuðar og tryggir að við getum öll blómstrað.“
Yfirskrift dagsins rýmar líka vel við allt það sem við höfum verið að vinna að í mínu ráðuneyti. Eitt besta dæmið er að við erum að vinna að umbótum á örorkulífeyriskerfinu með það að markmiði að gera það einfaldara, gagnsærra og sanngjarnara. Í tengslum við þá vinnu höfum við líka ráðist í ýmis verkefni til að vinna að því að gera vinnumarkaðinn aðgengilegri fyrir okkur öll. Það gerum við bæði með því að vinna að jákvæðu viðhorfi til fjölbreytileikans, skapa tækifæri bæði í námi og starfi fyrir fólk með mismikla starfsgetu.
—
Mig langar að minna okkur á mikilvæg baráttumál verkalýðshreyfingarinnar sem orðið hafa að veruleika vegna þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur tekið þau upp á arma sína. Á undanförnum fimm árum mætti til dæmis nefna:
- réttlátara þrepaskipt skattkerfi,
- styttri vinnuviku,
- hærri barnabætur sem nýtast fleirum,
- eflingu húsnæðismála, meðal annars í gegnum almenna íbúðakerfið,
- lengra fæðingarorlof,
- hærri húsaleigubætur,
- yfirstandandi breytingar á örorkulífeyriskerfinu,
- yfirstandandi breytingar á atvinnuleyfum útlendinga,
- yfirstandandi breytingar á þjónustu við eldra fólks,
- minni kostnaðarþátttaka í heilbrigðiskerfinu,
- aukin móttaka flóttafólks og samningar við sveitarfélög þar að lútandi,
- aukin réttindi trans og intersex fólks og stuðningur við samtök hinsegin fólks,
- ný lög um þungunarrof,
- og margt, margt fleira.
Kæru félagar,
Þegar skoðaðar eru aðstæður og kjör alþýðufólks yfir nær heila öld, frá bernskuskeiði verkalýðshreyfingarinnar fram á okkar daga, er ljóst að margt hefur breyst og flest ef ekki allt til hins betra. Nægir þar að nefna sterka stöðu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og afl hennar til að semja um mannsæmandi laun og bætt kjör, svo sem veikindarétt, orlof, lífeyrisréttindi, réttinn til fæðingar- og foreldraorlofs, bættan aðbúnað og hollustuhætti, starfs- og endurmenntun, fullorðinsfræðslu og loks árangurinn af áratuga baráttu hreyfingarinnar í húnsæðismálum.
Í gegnum tíðina hefur verkalýðshreyfingin verið í fararbroddi í mikilvægustu félagslegu hreyfingum okkar tíma. Allt frá baráttunni fyrir borgaralegum réttindum upp úr 1960 til baráttunnar fyrir réttindum hinsegin fólks á undanförnum árum hefur verkalýðshreyfingin verið drifkraftur jákvæðra breytinga. Hún hefur skapað vettvang fyrir launafólk til að berjast fyrir félagslegu réttlæti og jafnrétti og verið leiðandi í baráttunni gegn hvers kyns mismunun og ójöfnuði.
Það er engin tilviljun að verkalýðshreyfingin á Íslandi varð til í kringum aldamótin 1900 en ekki 30 árum fyrr eða síðar. Ástæðan er sú að um þetta leyti urðu meiri breytingar á samfélaginu en nokkru sinni fyrr. Þær áttu sér aðdraganda, því að lungann af 19. öldinni var atvinnulíf og samfélag að búa sig undir stóra stökkið um og upp úr aldamótunum 1900. Einkenni þessarar umbyltinga var áherslubreyting frá sveit til sjávar, fólksflutningar úr sveitum til bæja og fjölgun launafólks í þéttbýli.
Verslun efldist, bæði innanlands og við útlönd. Peningastofnanir urðu til, sparnaður jókst og peningaviðskipti jukust smátt og smátt. Þéttbýlisstaðir uxu upp. Fyrir utan embættismenn, bjuggu þar nú hinar nýju stéttir sem höfðu orðið til á síðari hluta 19. aldar, verkalýður, handverks- og menntafólk og eignafólk.
Þegar við horfum til framtíðar er ljóst að hlutverk verkalýðshreyfingarinnar þarf að halda áfram að þróast. Með aukinni sjálfvirkni og gervigreind er vinnumarkaðurinn að taka verulegum breytingum. Þó að nýrri tækni fylgi sannarlega margir kostir, þá þarf samt að vera vakandi yfir áhrifum hennar á framtíð ólíkra starfa, vinnu og hlutverk starfsfólks í hagkerfinu. Þetta kallar líka á endurmat á því hvernig við öflun tekna til að reka velferðarkerfi samfélagsins. Það er ekki síst verkefni okkar að finna leið að sanngjörnum umskiptum.
Í þessu samhengi skiptir máli að það verði ekki aðeins verkalýðshreyfingin heldur líka stjórnvöld, sem gegni veigamiklu hlutverki við að tryggja að réttindi launafólks séu tryggð við þessar breytingar. Eftir því sem nýjar atvinnugreinar koma fram og þeim gömlu fækkar, eða þær breytast, er nauðsynlegt að tryggja að verkafólk verði ekki skilið eftir. Auka þarf sí- og endurmenntun og annars konar stuðning við starfsfólk til að þróa sig í starfi eða flytja sig til á vinnumarkaði.
Heimurinn stendur líka frammi fyrir verulegum áskorunum eins og loftslagsbreytingum og tekjuójöfnuði og þurfum við að vinna náið með aðilum vinnumarkaðarins til að takast á við þær áskoranir og tryggja réttlát umskipti.
Næstu erindi úr Hafið þið heyrt það?
Eitt er þó, sem gengur yfir marga fleiri’ en mig,
og mest ég tel að fram úr hófi keyri,
að kvenfólkið það skuli vera’ að hlaupa svona’ á sig
og setja upp kaup úr tólf og hálfum eyri!
Ég vil ekki segja’ að það sé vitfirringu næst,
en voði er á ferðum þegar fólk er svona æst.
Og alþýðan – hvað hún getur nú annars verið heimsk,
Að ætla sjálf að fara’ að hugsa’ og ráða.
Og hvað hún er á mannkosti og góðverk þeirra gleymsk,
Sem gert oss hafa mest til vegs og dáða.
Hvað kemur til að fólkið er að klekja’ upp svona „Hlíf“,
Fyrst kaupmennirnir hugsa mest um velferð þess og líf?
Það er því ljóst – þegar við lítum aftur þessi 100 ár að verkalýðshreyfingin hefur haft afgerandi áhrif þegar kemur að því að tryggja velferð í samfélaginu. Verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir réttindum verkafólks, barist fyrir félagslegu réttlæti og leitt til jákvæðra breytinga á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu. Þegar við horfum til næstu 100 ára mun hlutverk verkalýðshreyfingarinnar halda áfram að vera jafn brýnt og áður til að berjast fyrir réttlæti, jöfnuði og velferð.
Og við Vinstri græn ætlum sannarlega að standa þar í fararbroddi líka!
Kæru félagar – höldum áfram okkar góðu störfum fyrir RÉTTLÆTI – JÖFNUÐI – OG VELFERÐ.