Kæru gestir
Ég vil þakka fyrir þetta tækifæri til að fá að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum og aðstandenda þeirra. Þessi minningardagur er alþjóðlegur og er liður í vitundarvakningu um umferðarslys og leiðir til að fækka þeim eins og kostur er.
Á Íslandi hafa fjórir látist það sem af er árinu og eru það töluvert færri en s.l. ár sem betur fer en þá létust 15 í umferðinni. Enn eru þó of margir sem slasast alvarlega og þar er tíðnin svipuð milli ára. Alþjóða heilbrigðisstofnunin segir að afleiðingar umferðarslysa séu eitt mesta heilbrigðisvandamálið og sá tollur sem þau taka er ólýsanlegur og óbærilegur. Ríflega milljón manns látast í umferðarslysum og margar milljónir slasast og örkumlast.
Á degi sem þessum eru það ekki síst eftirlifendur þeirra sem látist hafa í umferðarslysum sem við hugsum til en líka þeirra sem farnir eru og alls þess sem þau misstu af vegna þess að þau eru ekki lengur á meðal okkar. Það getur líklega enginn, sem ekki hefur upplifað, sett sig í spor þeirra sem hafa þurft að takast á við sorgina og eftirsjána sem fylgir því að missa einhvern í umferðarslysi. Hvert slys er einu slysi of mikið og hvort heldur það er ungt fólk í blóma lífsins eða eldra fólk þá standa eftir aðstandendur sem eiga um sárt að binda.
En hvað getum við gert til að fækka umferðarslysum? Margskonar áróður og fræðsla skiptir máli en ekki síður öruggari bílar og gott vegakerfi . Þar þurfa stjórnvöld að standa sig enn betur og flýta vegabótum þar sem umferðin er hvað mest og flestu slysin eiga sér stað. En við greinum líka orsakir slysanna eftir því sem unnt er og reynum að draga af þeim lærdóm.
Þeir sem voru ekki með beltin spennt, þeir sem voru ölvaðir eða undir áhrifum fíkniefna, þeir sem keyrðu útaf hvaða áhrif hafði allt þetta á þær aðstæður þar sem fólk lést? Með því að spyrja þessara spurninga geta yfirvöld reynt að gera sitt til að draga úr áhrifum og minnka slysahættuna.