Search
Close this search box.

Ávarp forsætisráðherra 2019

Deildu 

Góðir landsmenn

Eins og mörg ykkar fylgdist ég með þáttum Hrafnhildar Gunnarsdóttur, Svona fólki, í Ríkissjónvarpinu í haust. Það var magnað að líta um öxl með Hrafnhildi og rifja upp sögu fordóma og útilokunar sem er nær okkur í tíma en þægilegt er að hugsa um. Sjá Samtökin 78 í árdaga með aðsetur í kjallaraherbergi, nánast í felum fyrir samfélagi sem viðurkenndi ekki rétt fólks til að vera það sjálft og elska á eigin forsendum. Og hrífandi að sjá fólk sem barðist fyrir réttindum sínum fara upp úr kjallaranum og út á götur með fána á lofti.

Í þessum þáttum var rakin saga erfiðleika og hindrana, en líka sigra. Öðruvísi Íslandssaga um hvernig einsleitt samfélag lærði hægt og bítandi að fagna fjölbreytileikanum. Eflaust fannst sumum á sínum tíma þessi barátta ekki skipta aðra máli en þau sem koma fram í þáttunum og eins fannst eflaust einhverjum léttvægt þegar Ísland varð meðal fyrstu ríkja heims og á undan flestum stórveldum til að endurskilgreina hjónabandið. En öll mannréttindi reynast þegar betur er að gáð ekki varða einn eða fáa hópa heldur samfélagið allt. Einmitt þess vegna var ánægjulegt að sjá í ár tiltölulega breiðu samstöðu á Alþingi um lög um kynrænt sjálfræði, eitt skref fram á við í að tryggja réttindi okkar allra til að vera við sjálf. Við erum ein þjóð þótt ólík séum innbyrðis og öll eigum við að eiga okkar stað í samfélaginu.

Góðir landsmenn.

Framan af einkenndist árið sem nú er á enda af spennu og ólgu á vinnumarkaði. Það var því ánægjulegt að í aprílbyrjun voru lífskjarasamningarnir undirritaðir á almennum vinnumarkaði en með undirritun sinni komu fulltrúar verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda sér saman um nýja nálgun í kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði. Hófstilltar launahækkanir ásamt tryggingu fyrir því að launafólki öðlist réttláta hlutdeild í mögulegum hagvexti var grunnstef hinna nýju kjarasamninga. Vonir stóðu til að vaxtastig tæki mið af samningunum og þá var sett fram skýr krafa um að félagslegur stöðugleiki yrði tryggður. Frá undirritun lífskjarasamninga hafa stýrivextir Seðlabankans lækkað og eru nú sögulega lágir.

Samhliða undirritun samninga gáfu stjórnvöld út skýra og efnismikla yfirlýsingu um margháttaðar umbótaaðgerðir til að efla velsæld og félagslegt réttlæti. Nú fyrir áramót samþykkti Alþingi ýmis frumvörp sem þjóna þessum markmiðum. Þeirra á meðal nýtt þriggja þrepa skattkerfi sem er réttlátara en fyrra kerfi og skilar mestum skattalækkunum til hinna tekjulægstu; hækkun barnabóta, uppbyggingu almennra íbúða og lengingu fæðingarorlofsins í heilt ár. Allt eru þetta framfaramál sem stuðla að aukinni velsæld fólksins í landinu.

Áherslan á velsæld og félagslegan stöðugleika er ein meginundirstaða þess að hér megi ná sterkri hagstjórn. Einungis þegar stefna í vinnumarkaðsmálum, opinberum fjármálum og peningamálum vinnur saman er hægt að draga úr þeim miklu sveiflum sem íslensk efnahagsmál hafa einkennst af á lýðveldistímanum. Skarpar niðursveiflur hafa iðulega fylgt lokum hagvaxtarskeiða á Íslandi, niðursveiflur sem hafa komið illa niður á almenningi og atvinnulífi. En það er trú mín að með lífskjarasamningunum og aðgerðum stjórnvalda verði slíkri niðursveiflu afstýrt og í staðinn taki við nýtt tímabil velsældar sem skili sér með sem jöfnustum hætti til alls samfélagsins. 

Góðir landsmenn.

Samfélag okkar hefur tekið gagngerum breytingum á undanförnum árum og áratugum sem eiga vart sinn líka í sögu þjóðarinnar.  Samfélag okkar ertæknivætt og við erum í sífelldum tengslum við umheiminn í eftir gagnvegum tækninnar. Um þessar mundir koma hingað árlega um tvær milljónir erlendra ferðalanga. 14% íbúa á Íslandi eru innflytjendur. Breytingar hafa alltaf í för með sér áskoranir en almennt hefur íslenskt samfélag á skömmum tíma orðið fjölbreyttara og víðsýnna en áður og um leið eigum við gömul og góð gildi sem skipta okkur máli. Sumum finnst klisja að tala um land, þjóð og tungu en ástæða þess að þessi þrenning varð margtuggin í munni fólks er að hún skiptir okkur máli.

Við þurfum að vera meðvituð um að varðveita og efla þann samfélagslega kraft sem sprettur upp úr því að deila örlögum og eiga saman samfélag, óháð uppruna, bakgrunni og öðrum þáttum. Sá kraftur kemur í ljós þegar við tökumst á við erfiðleika á borð við óveðrið sem gekk yfir landið nú í desember. Ellefu þúsund manns og 7500 heimili og fyrirtæki voru án rafmagns þegar verst lét. Hross og skepnur féllu, foktjón varð verulegt og við misstum ungan mann norður í Sölvadal – slíkt tjón verður aldrei bætt. Veðurofsinn hefur sýnt og sannað að tryggja þarf innviði um land allt betur en nú er og hafa stjórnvöld þegar hafið vinnu við að skipuleggja þær umbætur.

Mikilvægt er að varðveita og virkja þann kraft sem býr í samfélagi okkar og birtist til dæmis í þeim þúsundum sjálfboðaliða sem starfa í 94 björgunarsveitum um land allt, fólk sem er alltaf tilbúið að standa vaktina og bregðast við; leita og bjarga og hjálpa. Þessi kraftur birtist í frammistöðu allra þeirra sem sinntu erfiðum verkefnum fyrir hönd sinna stofnana og fyrirtækja, sjálfboðaliða sem tóku á móti fólki í fjöldahjálparstöðvum og fólks um allt Norðurland sem vitjaði nágranna sinna og myndaði þannig öryggisnet fyrir heil samfélög. Fyrir svona samfélag erum við þakklát og við eigum að fagna því að eiga slík verðmæti sem eru ekki sjálfgefin. Viljann til að standa saman og hjálpa náunganum og láta sig varða annað fólk en ekki aðeins sjálfan sig. Í þeim vilja er mikill auður.

Kæru landsmenn.

Um allan heim hefur krafan um aðgerðir gegn loftslagsvánni orðið háværari í ár. Neyð hefur skapast víða um heim vegna veðurfarsöfga; það eru hitabylgjur, þurrkar, flóð og gróðureldar. Súrnun sjávar af völdum loftslagsbreytinga hefur neikvæð áhrif á vistkerfi hafsins. Þetta eru alvarleg mál sem ógna tilveru okkar og möguleikum komandi kynslóða. En við getum tekist á við þetta og hér á Íslandi bæði getum við og eigum að leggja okkar lóð á vogarskálar.

Nú þarf að láta verkin tala og það erum við að gera. Við erum að fjárfesta í orkuskiptum og kolefnisbindingu, í almenningssamgöngum og rafvæðingu hafna, við erum að leggja aukna áherslu á rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum og grænar ívilnanir og grænir skattar munu hraða þessari þróun í rétta átt.

Í umhverfis- og loftslagsmálum hefur íslenskt atvinnulíf lagst á árar með stjórnvöldum og sýnt mikinn metnað á árinu, með eigin markmiðum um kolefnishlutleysi. Og síðan er það fólkið í landinu, ekki síst unga fólkið, sem vill snúa af braut vaxandi mengunar og kolefnisframleiðslu. Það er unga fólkið sem hefur brýnt stjórnmálamenn til dáða og við eigum að hlusta á skýrar raddir þess.

Til að leysa slík verkefni er ekkert mikilvægara en von, bjartsýni og dugnaður til að árangur náist. Þar getur Ísland skipt máli með því að láta rödd sína heyrast um allan heim og það höfum við gert á þessu ári í samvinnu við aðrar þjóðir sem hafa lagt fram aðgerðaáætlanir í sínum málum. Við munum halda áfram á þeirri braut á nýju ári.

Góðir landsmenn.

Ungt fólk þjáist í sífellt auknum mæli af kvíða og depurð samkvæmt nýlegum rannsóknum. Þegar ég ræði við þau um áskoranir samtímans nefna þau iðulega samfélagsmiðla og þann heim sem þar er að finna. Þau horfa á mig eins og ég sé alin upp í torfkofa þegar ég segi þeim að á unglingsárum mínum hafi internetið eiginlega eingöngu verið þekkt af afspurn. Enginn tölvupóstur, engir samfélagsmiðlar og engir farsímar. Þau flissa þegar ég segi þeim að heimasíminn hafi hringt eftir fyrsta skólaballið, pabbi hafi svarað og sagt unga manninum í símanum að tala hærra og skýrar. Og þetta var einungis fyrir rúmum aldarfjórðungi. Ekkert af mínu framhaldsskólalífi rataði á internetið, engar myndir af skólaböllum eða veikburða tilraunum okkar til að virðast fullorðin og töff. Unga fólkið okkar er hins vegar í beinni útsendingu þar sem samanburður við aðra er leiðarljósið.

Þetta er breyttur heimur og við sem erum eldri höfum vart haft undan við að bregðast við enda sjálf álíka fíkin í símana okkar, samfélagsmiðla og að lesa smellbeitufréttir á netinu. Og tæknin breytir því hvernig við tölum saman, hvar við leitum frétta, hvernig við myndum okkur skoðanir og hvernig við skynjum annað fólk.

Þó að aðgengi að upplýsingum sé mikið, eru þær misáreiðanlegar og til eru flókin algrím sem stýra okkur á netinu og halda fólki stundum í eigin samfélagskima sem það heldur að sé samfélagið allt. Einmitt þess vegna dofnar stöðugt skilningurinn á þeim sem kunna að hugsa öðruvísi. Þannig getur tæknin sundrað í stað þess að tengja og það er óneitanlega ögrun fyrir öll samfélög.

En þrátt fyrir allt þetta þá sýnir tæknin hvað mannkynið getur og ef vel er á haldið getur hún hjálpað okkur að byggja betri heim. Á komandi ári munum við kynna aðgerðir til að íslenskt samfélag verði betur í stakk búið til að takast á við fjórðu iðnbyltinguna. Þar þarf að horfa til menntakerfis, rannsókna, nýsköpunar, þróunar á vinnumarkaði en líka til mannréttinda og lýðræðis. Við þurfum að vera vakandi fyrir þeim samfélagslegu breytingum sem munu spretta af tækninni. Við sem hér búum erum einungis um 360 þúsund og megum ekki við því að hér myndist ólíkir samfélagskimar sem missa að lokum grundvöll allra samskipta. Við þurfum að taka höndum saman og tryggja að tæknin verði hluti af þeim grundvelli til framtíðar, að hún sameini frekar en sundri.

Kæru landsmenn

Ein af þeim verðmætum sem við verðum sérstaklega að hlúa að í þeim breytingum sem tæknin leiðir yfir okkur er íslensk tunga. Hraði þeirra breytinga og áhrif þeirra á málumhverfi okkar hefur komið mörgum í opna skjöldu. En þessari þróun er hægt að snúa við. Tæknin hefur ekki til þessa talað íslensku en stjórnvöld hafa nú forgangsraðað tungumálinu með stóraukinni fjárfestingu í tungutækni og stórauknum stuðningi við bókaútgáfu á íslensku. Að hugsa á íslensku og að eiga sameiginlega tungu eru óháð öllum tæknibreytingum einhver mestu verðmæti sem við sem þjóð eigum saman.

En það eru önnur verðmæti sem ekki eru heldur sjálfgefin. Landið okkar sjálft, ósnortin náttúra og jarðir um land allt; allt þetta krefst skýrrar framtíðarsýnar. Um leið og við þurfum að tryggja rafmagn og fjarskipti um land allt þurfum við að hafa skýra sýn á þá ósnortnu náttúru sem við ætlum okkur að eiga og vernda til framtíðar. Alþingi þarf að taka skýra afstöðu til laga og reglna sem gilda um jarðaviðskipti og eignarhald á landi sem fyrir okkur mörg er ein undirstaða fullveldis Íslands.

Þá er löngu orðið tímabært að sett verði auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem festir í sessi með formlegum hætti þann rétt sem þjóðin hefur á auðlindum sínum. Hvað varðar þau fyrirtæki sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar þá munu stjórnvöld gera skýrari kröfur um gagnsæi og upplýsingagjöf þessara fyrirtækja og sú krafa er ófrávíkjanleg að farið sé að reglum í hvívetna, bæði hér heima og erlendis. Heiðarlegir viðskiptahættir munu þegar upp er staðið skila atvinnulífinu og samfélaginu bestum lífskjörum til langs tíma og eiga að vera sameiginlegt markmið okkar allra.

Góðir landsmenn

Verkefni líðandi árs hafa verið krefjandi en saman hefur okkur tekist að leysa úr þeim og ná sameiginlegri niðurstöðu í ýmsum flóknum úrlausnarefnum. Það er því full ástæða til bjartsýni þegar við horfum til nýs árs. Á komandi ári verða verkefnin ærin, eins og þau eru reyndar alltaf. Með bjartsýni og hugrekki munum við takast á við þau saman og halda áfram að gera íslenskt samfélag enn betra fyrir okkur öll. Góðir landsmenn, ég óska ykkur gleðilegs árs.

FyrriNæsta

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search