Search
Close this search box.

Ávarp forsætisráðherra 2021

Deildu 

Það er óþægilegt að vakna við það þegar jörð skelfur enda sækjum við festu okkar í sjálfa jörðina. Íbúar á suðvesturhorni landsins hafa þetta ár vaknað ítrekað við jarðskjálfta. Grindvíkingar hafa þurft að þola mesta návígið og því var það ákveðinn léttir eftir langa slíka hrinu í upphafi árs þegar loks braust út eldgos í Fagradalsfjalli á vormánuðum og mestu skjálftunum linnti. Meira en 200 þúsund manns sóttu eldstöðina heim. Jafnvel fólkið sem aldrei tekur þátt í neinu og vill sig sem minnst hreyfa, lét tilleiðast að fara og horfa. Og enginn var ósnortinn, börn og fullorðnir.

Nú skelfur jörð aftur og enn er beðið eftir eldgosi. Það er ekki laust við að ástandið minni á frásagnir annála frá 13. öld þar sem segir frá miklum landskjálftum fyrir sunnan land og jarðeldum á Reykjanesi. Síðan varð langt hlé á jarðhræringum á þessu svæði – þannig að líklega er okkar kynslóð sú fyrsta sem sér eldgos á Reykjanesskaga frá tímum Snorra Sturlusonar sem ef til vill hefur séð bjarma af jarðeldum á Reykjanesskaga ofan úr Borgarfirði.

Allir tímar eru sögulegir, hver á sinn hátt. Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að líf okkar allra hefur undanfarin misseri verið á köflum aðeins of keimlíkt annálum fyrri alda þar sem gengur á með frostavetrum, skriðuföllum, landskjálftum, eldgosum og plágum. Slík óáran gekk á öldum áður ítrekað nærri íslensku þjóðinni. Matthias Jochumsson orti um íslenskt mál „sem hefur mátt þola meinin flest er skyn má greina: ís og hungur, eld og kulda, áþján, nauðir, svartadauða“. En um leið og tungan geymir í tímans straumi dauðastunur og dýpstu raunir þá ber hún einnig með sér trú og vonir landsins sona, svo áfram sé vitnað í þjóðskáldið. Og þær vonir rættust, langt umfram það sem bjartsýnasta fólk þeirrar tíðar gat látið sig dreyma um. Framfarir á öllum sviðum þjóðlífsins hafa gert okkur kleift að bregðast við áföllum þannig að samfélagið okkar stendur sterkt, þrátt fyrir ágjöfina. 

Eitt hefur þó ekki breyst, samhygð og samstaða þjóðarinnar þegar á móti blæs skiptir mestu þegar upp er staðið. Við höfum stutt hvert við annað og um það ríkir djúp samstaða um að við hjálpumst að þegar þörfin krefur. Í þessum faraldri höfum við staðiðhvert með öðru, við höfum staðið saman í sýnatökuröð víða um land, við höfum hvert og eitt stutt ættingja og vini sem hafa veikst og sameiginlega höfum við beitt ríkissjóði af afli til þess að bæta almenningi og atvinnulífi sem best tjónið sem veirufárið hefur valdið.

Fyrir einu ári voru bólusetningar rétt að hefjast og voru uppi töluverðar efasemdir á þeim tíma um hversu hratt þær myndu ganga fram. Væntingar okkar stóðust og síðan hefur bólusetning reynst langbesta vörn gegn smitum – og því sem skiptir enn meira máli – alvarlegum veikindum. Tala látinna á hvern smitaðan á Íslandi hefur líka lækkað og var á árinu sem er að líða einn tíundi af því sem hún var árið 2020. Það getum við meðal annars þakkað færni okkar öfluga heilbrigðisstarfsfólks. En munum að þó talan sé ekki há þegar til heildarinnar er litið er sársauki þeirra sem missa nána ættingja engu minni og hugur okkar allra er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa. Faraldurinn hefur þó ekki verið stöðvaður, margir eru undir miklu álagi vegna hans og huga þarf sérstaklega vel að andlegri heilsu og velferð landsmanna á komandi mánuðum. 

Faraldurinn er orðinn langvarandi ástand og eðlilega vakna réttmætar spurningar um það hvort aðferðir okkar gegn faraldrinum séu endilega hinar réttu. Hvernig sem ég set það reikningsdæmi upp, hvort sem miðað er við fjölda andláta, hlutfall bólusettra eða stöðu efnahags og samfélags, þá kemur Ísland vel út í öllum samanburði við önnur lönd. Það breytir því ekki að í þessum verkefnum eins og öllum öðrum eigum við jafnan að horfa gagnrýnið á okkar eigin ákvarðanir og leita jafnan bestu leiða út frá nýjustu rannsóknum og þekkingu. Ég leyfi mér að vona að örlögin verði heimsbyggðinni hliðholl og núverandi smitbylgja verði upphafið að endalokunum – að þessi vágestur veiklist smám saman og sleppi því hreðjataki sem hann hefur haft á okkur undanfarin tvö ár. Að á nýju ári getum við endurheimt eðlilegt líf.

Kæru landsmenn

Þegar vá steðjar að er ágætt að rifja upp hvað ræður för í viðbrögðum okkar við heimsfaraldri, eldgosi eða öðrum áskorunum. Jú það er og á ávallt að vera almannahagur. Ef það leiðarljós er á hreinu auðveldar það allt annað. Því auðvitað munu alls konar hagsmunir alltaf vera undir í öllu því sem við gerum og ekki dugar að hlusta aðeins á þá sem hæst hafa hverju sinni. Almannahagur á  að vera leiðarljósið í baráttu okkar við allar þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Við sem búum á Íslandi sjáum afleiðingar loftslagsbreytinga, horfum á jöklana hopa, sjáum skriður falla og verðum vör við breytingar í hafinu umhverfis landið. Við sjáum órækan vitnisburð vísindanna um magn koldíoxíðs í lofti og fylgni við hækkandi hitastig í heiminum. Við vitum líka að þessari þróun er hægt að breyta og við vitum að það er skylda okkar að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að breyta henni – ekki síst í þágu komandi kynslóða, barna dagsins í dag. Ísland á að skipa sér í forystusveit þeirra þjóða sem nýta vísindin og hugvitið til að takast á við loftslagsvána og eru reiðubúnar að gera þær breytingar sem þarf til að draga úr losun og verða óháð jarðefnaeldsneyti.

Við erum stödd í miðri tæknibyltingu þar sem allt umhverfi okkar hefur tekið stakkaskiptum á skömmum tíma. Á níunda áratug 20. aldar – þegar ég var barn – urðu hraðbankar algeng sjón hér á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim tíma var töluvert rætt um hvað þessi tækninýjung ætti að heita. Handraði var eitt, tölvubanki annað, en orðið hraðbanki festist við gripinn – sem heitir raunar sjálvtöka á færysku. Á tíunda áratugnum var kynnt til sögunnar önnur nýjung, svokallaður netbanki. Stutt er um liðið síðan þessar og aðrar nýjungar komu fram sem hafa gjörbreytt bankaviðskiptum þannig að fæst okkar eiga nú reglulegt erindi í bankaútibú. Börn dagsins í dag myndu líklega ekki þekkja bankabækur níunda áratugarins og seðlar verða æ sjaldséðari. Tæknin hefur gert líf okkar léttara á marga lund en um leið skapar hún nýjar áskoranir þar sem við öll erum á vakt nánast allan sólarhringinn. Mikilvægt er að við nýtum tæknina til að tryggja velsæld og jöfnuð. Styðja við rannsóknir og nýsköpun sem gera okkur kleift að nýta tæknina til góðs og koma þannig í veg fyrir að samfélagið þróist í átt til aukinnar misskiptingar og sundrungar. 

Kæru landsmenn

Það eru fjölmörg jákvæð teikn á lofti í samfélagi og efnahagslífi, þar sem atvinnuleysi hefur farið hratt niður og nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi þjóðarinnar hefur eflst jafnt og þétt. Ein mikilvægasta pólitíska ákvörðun sem við höfum tekið er að standa vörð um almannaþjónustuna og þann árangur sem hefur náðst í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarkerfis. Við búum þar að lærdómnum frá hruni fjármálakerfisins og ætlum okkur nú að treysta forsendur til að vaxa til aukinnar velsældar og byggja þannig þessa mikilvægu innviði áfram upp. Þar er ætíð verk að vinna en það er líka mikilvægt að staldra við og fagna þeim árangri sem náðst hefur. 

Þannig hefur fæðingarorlof verið lengt og greiðslur hækkaðar. Það er gleðiefni að fæðingum hefur fjölgað – hvort sem það er nú orlofinu að þakka eða eirðarleysi í faraldrinum. Það er heilbrigðismerki á samfélaginu sem við getum verið ánægð með. Og lengra fæðingarorlof og betra afkomuöryggi skapar aukna möguleika á samveru fullorðinna og barna, styður við jafnvægi vinnu og einkalífs og styður við jafnrétti kynjanna. Allt eykur þetta velsæld almennings sem er þarft og mikilvægt viðfangsefni. 

Kæru landsmenn

Þegar á móti blæs skiptir máli að muna hið góða. Ég er þakklát fyrir íslenskt samfélag vegna þess að þó að margt megi bæta þá er þetta gott samfélag. Samfélag þar sem við sýnum hvert öðru samhygð þegar á móti blæs. Samfélag sem ítrekað mælist öruggasta og friðsamasta samfélag í heimi. Á pestartímum hafa margir sótt hingað einmitt í leit að friði og ró, í þessu landi sem þó leikur stundum á reiðiskjálfi. 

Í ár var öld liðin frá láti náttúruvísindamannsins Þorvaldar Thoroddsen en eftir hann liggur verkið Landskjálftar á Íslandi. Hann var fæddur á dögum barnaveikinnar þegar ekki var óalgengt að hjón ættu tíu til fimmtán börn en af þeim lifðu kannski aðeins þrjú eða fjögur. Hann hélt í háskólanám til útlanda í náttúrufræði sem þá þótti hið mesta óráð til þess að taka þátt í vísindabyltingu þeirri sem öðru fremur hefur umbylt lífi mannkynsins seinustu öldina. En það er ekki minna um vert að hann eyddi ævi sinni ekki síst í að semja alþýðleg fræðirit á íslensku handa Íslendingum til að þjóðin skildi náttúruna betur. Það hefur alltaf verið talið ein mesta list á Íslandi að kunna að orða hlutina. Að nýloknu jólabókaflóði – sem eru þær einu hamfarir á landinu sem gleðja fremur en skelfa – er gott að muna að það verður aldrei úrelt að ljá hugsun sinni góðan íslenskan búning.

„Sá sem á allt sitt undir baráttunni verður sjálfur að finna hvaða leið hann vill fara, leið sem tekur mið af þeim veruleika sem hann þekkir betur en aðrir – því það er hans eigin veruleiki,“ sagði Aðalheiður Hólm Spans aðspurð um þátttöku sína og forystu í verkalýðsbaráttu í viðtali í Alþýðublaðinu en Aðalheiður var meðal stofnenda starfsstúlknafélagsins Sóknar árið 1934, og varð fyrsti formaður þess aðeins 18 ára gömul. Þessi baráttukona vissi að krafturinn í baráttunni liggur hjá hverjum þeim sem sækir fram til betra lífs og bættra kjara. Þessi orð Aðalheiðar hafa iðulega komið mér í hug undanfarin misseri. Krafturinn í baráttunni hefur til dæmis birst hjá öllum þeim konum sem hafa stigið fram á árinu og sótt fram til betra lífs, sótt fram til að lifa lífi án kynbundins ofbeldis. Í samstöðunni felast mikil verðmæti og hún mun skila árangri, betra samfélagi fyrir okkur öll.

Við njótum margs í okkar góða samfélagi og sækjum okkur kraft í líf okkar og reynslu til að sækja fram, sækja fram til betra lífs og bættra kjara fyrir okkur öll og framtíðina. Með krafti og samstöðu eru okkur allir vegir færir.

Gleðilegt ár, kæru landsmenn. 

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search