Search
Close this search box.

Ávarp forsætisráðherra

Deildu 

Kæru landsmenn

Í fornum annálum var til siðs þegar vetur voru harðir að gefa þeim nöfn á borð við Píningsvetur eða Lurkur. Þannig var þessi vetur sem lengi verður í minnum hafður. Hann minnti harkalega á sig með óveðrum, snjóflóðum og jarðhæringum – þannig að ýmsum fannst nóg um þegar fyrsta tilfellið af kórónuveirunni greindist hér á landi þann 28. febrúar síðastliðinn.

Sem betur fer vorum við ekki óundirbúin og síðan þá hafa stjórnvöld framfylgt markvissum sóttvarnaráðstöfunum til að ná tökum á veirunni, verja mannslíf og tryggja að heilbrigðiskerfið okkar réði við álagið. Tæplega 50 þúsund sýni hafa verið tekin, smitin voru rakin af sérstöku smitrakningarteymi, tæplega 20 þúsund hafa lent í sóttkví og tæplega átján hundruð manns greinst með veiruna og farið í einangrun. Meira en 60 upplýsingafundir hafa verið haldnir í beinni útsendingu. Ástandið var erfitt en glundroðinn var fjarri; við þessa raun var glímt af öryggi og fátt af því sem við Íslendingar höfum nýlega gert hefur vakið meiri jákvæða athygli.

Fjöldi þeirra sem hafa verið prófaðir hefur gert það að verkum að hið alþjóðlega vísindasamfélag hefur fylgst grannt með Íslandi og má það þakka öflugri samvinnu heilbrigðisyfirvalda og Íslenskrar erfðagreiningar. Vinna smitrakningarteymisins og smitrakningarappið hafa vakið athygli víða. Og ekki má gleyma því að þeir sem hafa greinst með veiruna hafa notið þjónustu og eftirfylgni sérstakrar göngudeildar fyrir þennan sjúkdóm. Vel hefur tekist að tryggja búnað og tæki til að tryggja þjónustu á sjúkrahúsum og gjörgæslu og er sérstök ástæða til að þakka þeim fjölmörgu einstaklingum og fyrirtækjum sem útveguðu og gáfu búnað til heilbrigðisstofnana til viðbótar þeim sem þegar var til staðar í landinu. 

Þessi tími hefur sannarlega reynst mörgum erfiður þó að reynt hafi verið að raska samfélaginu eins lítið og hægt var en erfiðastur þeim sem hafa veikst, sum hver mjög illa.

Tíu hafa nú látist úr kórónuveirunni.

Ég votta fjölskyldum þeirra og vinum samúð mína og stjórnvalda. Hugur okkar allra er hjá þeim.

Veiran er enn óþekktur andstæðingur þó að þekking á henni vaxi hratt, meðal annars vegna þess sem er gert hér á landi. Ekki hefur enn tekist að þróa lyf eða bóluefni en unnið er að slíkum rannsóknum víða um heim. Vonir og væntingar standa til þess að vel muni ganga, en við skulum varast óraunsæi og búa okkur undir að það taki tíma að ná árangri í þeim efnum.

Á þessum ótrúlegu óvissutímum neyðast allar þjóðir heims og einstaklingar til að gera áætlanir fram í tímann án þess að vita í raun hvernig sá tími verður.

Margt sem gerst hefur kom óþægilega á óvart. Við sem höfum alist upp við að landamæri væru í raun ekki til á milli vinaþjóða eins og Norðurlanda sáum skyndilega skellt í lás. Þjóðir heims hafa átt í hatrammri samkeppni um búnað og tæki fyrir heilbrigðisþjónustu þar sem hver hefur reynt að bjarga sér.

En þegar fyrsta fátinu lauk breyttist þetta og undanfarið höfum við meðal annars fundið fyrir sterkum tengslum á milli Norðurlanda og annarra Evrópuþjóða þar sem leiðtogar hafa átt samtöl, deilt upplýsingum og boðið fram aðstoð sína. Þjóðir heims standa frammi fyrir sameiginlegum óvini sem ekki verður sigraður nema í krafti samvinnu, vísinda og staðfestu. Í baráttu mannkyns við kórónuveiruna er alþjóðlegt samstarf forsenda þess að sigur vinnist. Nú er því ekki tíminn til að grafa undan samstarfi ríkja innan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunnarinnar eða með nokkrum öðrum hætti ala á sundrungu eða tortryggni ríkja á millum.

Við höfum verið áþreifanlega minnt á gildi vísinda og þekkingar og á gildi faglegra og fumlausra vinnubragða. Hér heima hafa stjórnvöld, vísindamenn og viðbragðsaðilar unnið sem einn maður og af því er ég stolt. Við höfum farið þá leið að beita hörðum sóttvarnaráðstöfunum að ráði okkar heilbrigðisvísindamanna sem hafa verið í takt við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunnarinnar og þær hafa reynst okkur vel.

Við höfum líka verið minnt á hve dýrmætt það er að búa í samfélagi, þar sem við getum átt upplýst og gagnrýnin samtöl um stór og flókin mál. Fyrir nokkrum vikum vissu fáir mikið um vírusa, faraldra, ónæmi og kúfa en nú erum við öll orðin upplýst um alla þessa hluti. Slíkt samfélag er vel í stakk búið til að takast á við stórar áskoranir.

Og við höfum verið minnt á gildi þess að búa í lýðræðisríki. Því miður eru dæmi þess að við sjáum þjóðarleiðtoga grípa til róttækra aðgerða sem í orði kveðnu eru gegn veirunni sem virðast þó frekar snúast um að auka völd þeirra sjálfra. Okkar áhersla hefur verið að miðla upplýsingum til þjóðarinnar svo að við gætum unnið saman; við höfum treyst á samstöðu okkar fremur en útgöngubann. Við höfum saman risið undir þeirri ábyrgð og getum öll verið stolt af því að tilheyra slíku samfélagi.

Kæru landsmenn

Við virðumst vera komin með yfirhöndina í baráttunni gegn veirunni, kúfurinn er að baki. Undanfarna daga hafa greinst örfá eða ekkert smit á dag. Á morgun verða stigin fyrstu skrefin í að aflétta samkomubanni sem hvílt hefur þungt á landsmönnum öllum undanfarnar vikur þó að það hafi verið meðal þeirra vægustu í Evrópu.

En björninn er ekki unninn. Við þurfum að fara hægt í sakirnar því að ekki má glutra niður þeim árangri sem náðst hefur. Áfram þurfum við að halda ró okkar og stillingu og feta okkur hægum skrefum eftir því einstígi sem er framundan. Ef við förum of geyst, þá eru allar líkur á því að bakslag verði og við þurfum að byrja baráttuna upp á nýtt. Slíkt hefði skelfilegar afleiðingar fyrir efnahaglíf okkar og þjóðlífið allt og það er undir okkur sjálfum komið að gæta þess að slíkt gerist ekki

Kæru landsmenn.

Efnahagsleg áhrif veirunnar eru djúp og ófyrirséð hve langvarandi þau verða. Hér heima er höggið þyngst hjá ferðaþjónustunni sem skilaði hátt í 40 prósentum allra útflutningstekna í fyrra. Nú liggja flugsamgöngur niðri, landamæri eru víða lokuð og ferðavilji fólks er lítill. Landamæri okkar eru lokuð til 15. maí og fyrir þann tíma mun liggja fyrir áætlun um næstu skref okkar í þeim málum. Þar er þó enn töluverð óvissa vegna þess að faraldurinn hefur þróast með ólíkum hætti milli ólíkra landa. En góðum árangri okkar í sóttvarnamálum verður ekki stefnt í hættu.

Við erum stödd í þoku og hún er myrk en við vitum samt að þoku léttir að lokum. Ekki er ósennilegt að ferðaþjónustan muni taka breytingum en hitt mun ekki breytast að hingað vill fólk koma til að upplifa okkar stórbrotnu náttúru. Við teljum að jákvæð umfjöllun um Ísland á heimsvísu hafi sín áhrif. Við vitum að í íslenskri ferðaþjónustu hefur orðið til mikil þekking seinustu árin og hún mun áfram nýtast.

En faraldurinn mun líka hafa áhrif á aðrar útflutningsgreinar. Atvinnuleysi hefur ekki verið meira á lýðveldistímanum. Í liðinni viku urðu þúsundir landsmanna fyrir því gríðarlega áfalli að missa vinnuna og áður höfðu margir orðið fyrir atvinnumissi. Það veit sá einn sem reynt hefur að vera atvinnulaus hvað það er erfitt og lamandi. Það er ekki eingöngu efnahagslegt áfall, heldur getur það verið sálrænt og líkamlegt. Ábyrgð okkar stjórnvalda er að styðja enn betur við fólk í erfiðum aðstæðum. Nú verðum við að hugsa vel hvert um annað.

Kæru landsmenn

Leiðarljós okkar allra verður að halda uppi atvinnustigi og tryggja afkomu og réttindi launafólks. Leiðarljós okkar verður að skapa ný störf og auka verðmætasköpun til að bæta upp fyrir það sem tapast hefur. Við þurfum að tryggja ný tækifæri með framboði á menntun og þjálfun. Annað leiðarljós verður að verja hinar samfélagslegu grunnstoðir sem tryggja velsæld okkar allra, þessa mikilvægu innviði sem mér hefur orðið tíðrætt um seinustu ár. Og enn eitt leiðarljós verður að horfa til framtíðar, til þeirra afreka sem við getum unnið með nýrri þekkingu, rannsóknum og þróun.

Þó að útlitið sé svart til skamms tíma er það bjart til lengri tíma og allt sem við gerum núna þarf að styðja við framtíðina. Þess vegna þarf  að fjölga stoðunum undir íslenskt efnahagslíf og nýta tímann til að byggja upp ýmsar atvinnugreinar en þar á meðal undir ferðaþjónustu framtíðar, því hingað mun fólk áfram vilja koma.

Kæru landsmenn

Enginn veit hvort eða hvernig heimurinn mun breytast eftir kórónaveiruna. En sumt mun ekki breytast. Við munum áfram vera manneskjur, við munum áfram þrá og elska, muna og sakna, gleðjast og hryggjast. Áföll eins og þetta eru stundum eins og spegill sem sýnir úr hvaða efni fólk er gert og hvað skiptir máli í lífinu.

Undanfarnar vikur hafa reynt á þolrifin. Framundan eru strembnir tímar en við höfum líka lært mikið á undanförnum vikum. Við höfum til dæmis lært að standa í biðröð með tveggja metra millibili og spjalla saman. Við getum ekki lengur heilsast með handabandi en heilsumst samt oftar en áður þegar við erum úti að ganga. Við þvoum okkur betur og oftar um hendur en áður og það er hægt að venjast lyktinni af spritti. Og við lærðum líka að það gefur manni mikið að hjálpa öðrum og við skulum halda því áfram.

Það er ástæða til að gleðjast yfir því að heilbrigðiskerfið stóðst þetta mikla álagspróf og heilbrigðisstarfsfólk sýndi gríðarlegan styrk, fagmennsku og sveigjanleika í að takast á við ótrúlega krefjandi aðstæður. Ég er líka stolt af því að tilheyra samfélagi þar sem hundruð manna stukku til og skráðu sig í bakvarðasveitir heilbrigðisstarfsfólks. Samfélagi þar sem kennarar og starfsfólk skólanna breyttu starfsháttum á undraskömmum tíma til að tryggja hag nemenda á öllum aldri. Samfélagi þar sem við eigum svo ótal margt gott fólk; fólk sem hélt verslunum og þjónustu gangandi, frumkvöðla sem fóru að senda heim ketilbjöllur og veitingar, fólk sem stóð vaktina og þreif sjúkrahúsin og skólana, listamenn sem fóru að halda tónleika heima í stofu. Glöð með  fólkið sem fór með mat til þeirra sem voru í sóttkví. Ánægð með fjölmiðlana sem komu öllu því sem við þurftum að vita til skila. Mesta gleðin er að tilheyra samfélagi þar sem fólk hjálpar hvert öðru og sýnir hvert öðru umhyggju. Svona álagspróf sýna úr hverju samfélög eru gerð og við höfum fundið okkar eigin styrk, samfélag sem bæði ræður yfir mýkt og seiglu.

Kæru landsmenn

Baráttuandinn í samfélaginu, fólk sem hélt tónleika fyrir nágranna sína, fólk saman úti að ganga með húfur og vettlingi og ríflega tvo metra á milli, bangsar í gluggum fyrir börnin, nágrannar sem spyrja hvort eitthvað vanti úr búðinni. Allt þetta hefur lyft okkur upp í aðstæðum sem voru þó sannarlega þungbærar og erfiðar. Þetta er að búa í samfélagi.

Frá og með morgundeginum hefjum við vegferð okkar, skref fyrir skref í átt að bjartari dögum. Við skulum njóta þess og muna að ástæðan fyrir því að hægt er að taka þetta skref í að slaka á samkomubanninu er sú að við höfum staðið okkur frábærlega og náð tökum á útbreiðslu veirunnar. En við skulum við samt muna að faraldurinn geisar enn um heiminn og nú tekur við erfitt uppbyggingarstarf sem mun reyna á þolinmæðina. Ef við fögnum of snemma og missum einbeitinguna þá getur farið illa. Verkefninu er langt í frá lokið, og við verðum að vanda okkur. Við verðum að vanda okkur fyrir börnin okkar, fyrir ömmur og afa, fyrir alla ástvini. Af því að markmiðið er að við gerum þetta saman og skiljum engan eftir þegar samfélagið opnast aftur. Við ætlum öll, ungir sem gamlir, veikir sem hraustir að geta notið sólarinnar, samvista og alls þess sem landið okkar góða hefur upp á að bjóða. Við fórum saman í þessar aðgerðir og við ætlum að koma út úr þeim saman. 

Ef okkur tekst vel upp eru allar forsendur til þess að batinn verði hraður. Ísland verður áfram land tækifæranna, land með öflugar grunnstoðir, stórbrotna náttúru og einstaka menningu en fyrst og fremst kærleiksríkt fólk sem getur allt sem það vill.

Píningsveturinn er að baki, sumarið heilsar okkur, lóan er komin og það á að hlýna í vikunni. Við erum hér öll saman á eyjunni okkar og finnum hvað lífið er dýrmætt og finnum að við eigum öflugt, frjálst og opið umhyggjusamfélag.  Það er ekki sjálfgefið og það er þess virði að berjast fyrir. Það höfum við sýnt og megum vita að það getum við saman.

Góðar stundir.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search