PO
EN
Search
Close this search box.

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar á aðildarríkjaþingi Eyðumerkursamnings SÞ.

Deildu 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í gær aðildarríkjaþing Eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna (UNCCD) fyrir Íslands hönd. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að ríki heims reyndu að tryggja sjálfbæra landnýtingu og endurheimt vistkerfa til að sporna við hamfarahlýnun af mannavöldum.

Í ávarpi sínu sagði Guðmundur Ingi loftslagsaðgerðir Íslands miða að því að vinna samtímis gegn loftslagsbreytingum og eyðimerkurmyndun, auk þess að efla lífríkið og líffræðilega fjölbreytni. Íslensk stjórnvöld hefðu sett loftslagsmálin á oddinn og markmiðið væri að Ísland myndi ná kolefnishlutleysi í síðasta lagi árið 2040. Stóraukin áhersla væri nú lögð á kolefnisbindingu á Íslandi og markvissar aðgerðir þegar hafnar – landgræðsla og skógrækt myndu tvöfaldast á næstu árum og endurheimt votlendis tífaldast með auknum aðgerðum stjórnvalda.

Í ávarpi sínu rifjaði Guðmundur Ingi upp að hafa séð fjóra jökla frá sveitabænum þar sem hann ólst upp á vestur á Mýrum. „Í dag sé ég einungis þrjá. Einn er horfinn vegna loftslagsvárinnar og annar líklegur til að hverfa á næstu 40 árum,“ sagði hann. „Jöklar eru stórbrotin náttúrufyrirbrigði. Og á Íslandi hefur bráðnun þeirra orðið tákn fyrir loftslagsvána.“

Guðmundur Ingi benti á að Ísland hefði yfir 100 ára reynslu af landgræðslu og að endurheimta land. Þeirri reynslu vildi Ísland miðla til umheimsins, til að mynda í gegnum Landgræðsluskóla Háskóla SÞ á Íslandi. Þá hefði Guðmundur fyrir tveimur dögum undirritað fyrir hönd Íslands viljayfirlýsingu með Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) um landgræðslu í Afríku, í því skyni að takast á við loftslagsbreytingar og bæta lífsviðurværi fólks.

Ráðherra hefur síðan á sunnudag setið aðildarríkjaþing Samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun. Meðal annars buðu íslensk stjórnvöld, ásamt stjórnvöldum í Namibíu, svo kölluðum Vinahópi (Group of Friends) til morgunverðarfundar. Í hópnum eru 23 ríki sem vinna saman að vörnum gegn eyðimerkurmyndun, landhnignun og þurrkum, en Ísland og Namibía höfðu frumkvæði að stofnun hópsins árið 2013. Vinahópurinn hefur lagt áherslu á þær lausnir sem felast í landgræðslu og bættri landnýtingu og kom m.a. markvisst að mótun markmiðsins um líf á landi í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, ekki síst markmiðinu um að ná hlutleysi varðandi landhnignun (Land Degradation Neutrality).

Guðmundur Ingi stýrði morgunverðarfundinum ásamt Penomwenyo Pohamba Shifeta, umhverfis- og ferðamálaráðherra Namibíu. Meðal þeirra sem sátu fundinn voru Ibrahim Thiaw, framkvæmdastjóri Eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna (UNCCD) og Prakash Javedkar ráðherra umhverfis-, skóga- og loftslagsbreytinga á Indlandi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search