Velkomin á heilbrigðisþing, sem líkt og fyrra heilbrigðisþing er haldið við óvenjulegar aðstæður. Covid-19 faraldurinn gerir okkur því miður ekki kleift að hittast með venjulegum hætti en við vonum að við höfum getað bætt úr því með því bjóða almenningi að fylgjast með þinginu í streymi þar sem möguleikar eru fyrir hendi að spyrja spurninga og taka þátt í umræðum.
Í heilbrigðistefnu til ársins 2030, sem samþykkt var á Alþingi 2019 stendur að heilbrigðisþing skuli haldið einu sinni á ári. Þetta er fjórða heilbrigðisþing sem haldið er í minni ráðherratíð. Á fyrsta þinginu haustið 2018 voru lögð drög að þeirri heilbrigðisstefnu sem síðar var samþykkt sem þingsályktunartillaga í júní 2019. Á næsta heilbrigðisþingi sem haldið var í nóvember 2019 voru lögð drög að þingsályktunartillögu um siðferðileg gildi við forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu sem einnig var samþykkt á Alþingi vorið 2020. Þriðja heilbrigðisþingið var svo haldið haustið 2020 og þá var mönnun heilbrigðiskerfisins á dagsskrá. Ein af niðurstöðum þess þings var að stofnað skyldi svokallað landsráð, sem hefði það hlutverk að meta stöðuna hvað varðar mönnun heilbrigðiskerfisins og koma með tillögur til ráðherra og ráðuneytis um hugsanlegar úrbætur. Landsráðið var skipað í upphafi sumars og hefur nú tekið til starfa og skilað sínum fyrstu tillögum til ráðherra.
Af hverju tel ég þetta upp hér á þessu fjórða heilbrigðisþingi? Jú, það geri ég til að það komi skýrt fram að heilbrigðisþing eru ekki bara venjuleg málþing, heldur samráðsvettvangur, þar sem stjórnvöld vilja freista þess að ná breiðri samstöðu um mikilvæg mál sem varða heilbrigðiskerfið. Afurðir fyrri heilbrigðisþinga bera þess vitni að þessu markmiði hafi verið náð hingað til. Væntingar mínar til þessa þings, þar sem heilbrigðisþjónusta fyrir aldraða er á dagskrá, eru því miklar.
En hver eru helstu viðfangsefni þessa þings?
Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er að finna eftirfarandi markmið:
1. Sjúkrarúm á sjúkrahúsum nýtast þeim sjúklingum sem þurfa á meðferð á því þjónustustigi að halda og unnt er að útskrifa þá án tafa að meðferð lokinni.
Allir hér inni hafa vafalaust heyrt talað um fráflæðisvanda Landspítala, þar sem gamalt fólk sem þegar hefur verið metið í þörf á hjúkrunarheimili, liggur langtímum saman á bráðadeildum spítalans eftir að nauðsynlegri meðferð er lokið. Það er mikilvægt að við höfum það hugfast að aldraðir eiga lögum samkvæmt rétt á heilbrigðisþjónustu eins og aðrir þegnar þessa lands, hvort sem um er að ræða fyrsta, annars eða þriðja stigs heilbrigðisþjónustu en okkur ber að sjá til þess að heilbrigðisþjónustan sé veitt á réttu stigi og að sjúklingar, ungir sem gamlir, dvelji ekki lengur á hærra stigi heilbrigðisþjónustu en nauðsyn krefur.
Við viljum ekki að gamalt fólk sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda sé skilgreint sem fráflæðisvandi. Í nokkurn tíma hefur aðaláherslan verið á uppbyggingu hjúkrunarrýma og heilbrigðisráðuneytið hefur unnið framkvæmdaáætlun um fjölgun hjúkrunarrýma fram til ársins 2025. Það hefur verið nauðsynlegt vegna þess að biðtími eftir hjúkrunarrými hefur verið of langur, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Í dag hefur hjúkrunarrýmum fjölgað um ríflega 140 rými á kjörtímabilinu, þrátt fyrir að ráðist hafi verið í nauðsynlegar umbætur á mörgum heimilum og fjölbýlum breytt í einbýli. En þegar horft er til framtíðar og tekið er tillit til fjölgunar í aldurshópnum sem er yfir 80 ára kemur í ljós að bygging hjúkrunarrýma getur ekki verið eina lausnin sem gripið er til, við þurfum að finna aðrar leiðir. Í skýrslu KPMG frá 2018 kemur fram að kostnaður hér á landi vegna innlagna á hjúkrunarheimili er með því hæsta sem gerist á Norðurlöndum, en við höfum verið eftirbátar þessara landa með fjármagn sem varið er til heimahjúkrunar. Ég hef því einnig lagt áherslu á uppbyggingu úrræða sem gera öldruðum kleift að búa eins lengi heima og kostur er. Á síðasta ári var gerður samningur um rekstur sérstaks öldrunarteymis, sem gengur undir nafninu SELMA (Samþætt samvinna, Endurmat, Læknisþjónusta, Meðferð og Aðhlynning).
Markmið þjónustunnar er að auka heilbrigðisþjónustu við skjólstæðinga heimahjúkrunar sem ekki komast til mats og meðferðar á heilsugæslu eða göngudeild og draga úr komum á bráðamóttöku Landspítala og hugsanlegri þörf á innlögn á spítalann. Þessi starfsemi hefur sannað gildi sitt og nú hefur starfsemin verið styrkt enn meira með fjárframlögum svo þjónustan geti farið fram alla daga vikunnar og á öllu stórreykjavíkursvæðinu. Þar að auki hef ég nýlega undirritað samning við Reykjavíkurborg þar sem ríkið kemur til móts við borgina um umtalsverða styrkingu á heimaþjónustu sem á að gera öldruðum kleift að búa lengur í heimahúsum. Ég vil einnig í þessu sambandi nefna eitt atriði enn, sem ber að sama brunni, nefnilega aðgerðaráætlun um heilsueflingu aldraðra sem unnin hefur verið í ráðuneytinu. Við munum heyra meira um heilsueflingu aldraðra í erindum þeirra Ásthildar Knútsdóttur, Janusar Guðlaugssonar, og Ölmu Möller hér á eftir.
En þetta er ekki bara spurning um hvaða þjónusta á að vera í boði, heldur líka, og ekki síður, spurning um hver á að veita þjónustuna. Í heilbrigðisstefnu má einnig finna eftirfarandi markmið:
- Hlutverk og fjárhagsleg ábyrgð ríkis og sveitarfélaga um veitingu heilbrigðisþjónustu eru vel skilgreind.
- Góð samvinna ríkir á milli heilbrigðis- og félagsþjónustu, þar sem hlutverk og ábyrgð þessara aðila hafa verið vel skilgreind.
Orðið „hjúkrunarheimili“ er samsett úr tveimur orðum, hjúkrun og heimili. Orðið „hjúkrun“ er notað yfir þann sem er veikur og þarf þess vegna á heilbrigðisþjónustu að halda á meðan orðið „heimili“ er eins og allir vita notað yfir bústað viðkomandi. Langflest eldra fólk vill búa á sínu heimili eins lengi og kostur er og þá dvöl er hægt að lengja með því að bjóða upp á tækifæri til heilsueflingar ásamt með viðeigandi stuðningi og aðstoð á heimilinu. En jafnvel eftir að hinn aldraði sökum hrumleika getur ekki lengur búið heima hjá sér og flutningur inn á hjúkrunarheimili verður óumflýjanlegur vilja flestir halda áfram að búa í sínu gamla sveitarfélagi. Elli er ekki sjúkdómur, elli er eðlilegt ferli og farsæl afleiðing af löngu lífi. En eins og ég hef sagt áður eiga aldraðir rétt á heilbrigðisþjónustu ef þörf krefur, óháð því hvort þeir búa í heimahúsum eða á hjúkrunarheimili
Ég stend ekki hér til þess að finna lausn á þessum erfiðu vandamálum. Ég bendi á þetta vegna þess að viss mál henta vel á borði ríkis og ríkisstjórnar, t.d. heilbrigðismál, á meðan önnur mál sem fjalla um einstaklingsmiðaða þjónustu við aldraða, eru betur fallin til þess að lausnir á þeim séu fundnar í nærumhverfi hins aldraða. Til þess að fá betra undirlag fyrir þetta heilbrigðisþing fól ég í vor Halldóri S. Guðmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Öldrunarheimila Akureyrar og dósent við Félagsráðgjafadeild HÍ, að skila skýrslu um stöðu öldrunarmála á Íslandi og leggja drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.
Halldór skilaði sinni skýrslu í júní síðastliðinn og hann mun gera grein fyrir innihaldi skýrslunnar hér á eftir. Nú standa mínar væntingar til þess að við getum í sameiningu fundið lausn á þessum málum, hvað, hver og hvernig, þegar við höfum heyrt það sem fram verður fært hér á heilbrigðisþingi og átt um það umræður.
Sem betur fer þurfum við ekki að finna upp hjólið sjálf því við getum horft til þeirra lausna sem gripið hefur verið til í nágrannalöndunum og á þessu heilbrigðisþingi erum við þeirrar gæfu aðnjótandi að fá hingað aufúsugest, Dr. Samir K Sinha frá Kanada, sem mun segja okkur frá reynslu sinni við uppbyggingu öldrunarþjónustu í Ontariofylki í Kanada. Við það vil ég bæta að í gær héldum við vinnustofu með dr. Samir og okkar færasta fólki og haghöfum, þar sem þessi mál voru krufin til mergjar. Að loknu þessu heilbrigðisþingi munum við því hafa nægan efnivið til að vinna úr þegar við mörkum stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða. Framkvæmd þeirrar stefnu er í okkar höndum.
Málefni aldraðra hefur verið eitt af forgangsmálum í minni ráðherratíð. Við höfum flest átt aldraða foreldra eða ættingja sem á einhvern hátt eru í eða hafa farið í gegnum þetta ferli, eða erum sjálf að ganga í gegnum það og við vitum þess vegna nokkuð vel, hvernig við mundum vilja haga þessari þjónustu. Áherslurnar geta verið breytilegar en rauði þráðurinn er sá sami, sama hver á í hlut.
Við viljum geta séð um okkur sjálf eins lengi og mögulegt er og þegar það er ekki lengur mögulegt viljum við fá aðstoð sem er eins aðlöguð að persónulegum þörfum og kostur er.
Takk fyrir áheyrnina í dag, og ég óska okkur öllum góðs heilbrigðisþings.
Fylgist með heilbrigðisþingi í dag:
https://www.stjornarradid.is/raduneyti/heilbrigdisraduneytid/heilbrigdisthing-2021/