Search
Close this search box.

Ávarp Svandísar á búgreinaþingi

Deildu 

Búgreinaþingsfulltrúar,

Til að byrja með langar mig til að óska ykkur til hamingju með sameiningu Bændasamtakanna á síðasta ári. Þetta þing, búgreinaþing er hið fyrsta eftir sameiningu með þessu nýja fyrirkomulagi. Hér verður lagt á ráðin fyrir búnaðarþing í lok mánaðarins. Hagsmunamál bænda er margvísleg og öflugt félagskerfi bænda er mikilvægt.

Samfélag bænda hefur í gegnum tíðina verið ógnarsterkt og er enn. Það vakti athygli mína þegar ég las fyrsta hefti Bændablaðsins á þessu ári frétt um að hundruðum rúlla hefði skolaði á sjó út í óveðri fyrir norðan. „Við munum leysa þetta mál“ sagði formaður búnaðarsambandsins og fjallaði um að söfnun á heyi væri hafin meðal nágranna. Þessi andi er sá sem þarf á næstu árum. Við þurfum að leysa mál

Rétt eins og bændasamtökin tóku til í sínu skipulagi þá gerði stjórnarráðið það líka. Til þess að mæta áherslum okkar tíma voru verkefni færð til milli ráðuneyta og ný ráðuneyti sett á fót.

Nú hefur matvælaráðuneytið verið starfrækt formlega í að verða mánuð. Markmiðið með stofnun matvælaráðuneytisins var að styrkja stjórnsýslu og skerpa sýn á málaflokkana sem undir það heyra. Mig langar til þess að nefna þrjú atriði í stefnumiðum matvælaráðuneytisins

  1. Við leggjum áherslu á ábyrga umgengni við náttúru, endurheimt landgæða, sjálfbæra nýtingu auðlinda, öfluga nýsköpun og vöruþróun í hæsta gæðaflokki.
  2. Keppt er að fullvinnslu afurða, hringrásarhagkerfi og lágmörkun kolefnisspors.
  3. Matvæla- og fæðuöryggi er eitt meginstefið í störfum okkar og hugmyndafræði einnar heilsu þar sem heilbrigt umhverfi, heilsa fólks og heilbrigði dýra mynda samfelldan vef.

Þessi stefnumið eru viðvarandi verkefni en ekki átaksverkefni. Ég hef þá trú að við getum náð miklum árangri í þeim á næstu árum og það er nauðsynlegt.

Innlendur landbúnaður á mikil sóknarfæri á næstu árum. En það er nauðsynlegt að sækja fram frekar en að horfa í baksýnisspegilinn. Staða hinna ýmsu greina landbúnaðarins er misjöfn og hefur þróast með misjöfnum hætti síðustu árin. Sú sjálfsagða krafa er meðal bænda að það sé hægt að lifa með reisn af störfum í landbúnaði. Því þarf að huga að því hvort stuðningskerfið, þeir 15 milljarðar sem settir eru í stuðning við landbúnað á ári hverju nýtist til þessa með fullnægjandi hætti.

Almennt má segja að óbreytt kerfi skili óbreyttri niðurstöðu. Þannig þarf að hafa þor til þess að gera þær breytingar sé á því þörf til þess að fá breytta niðurstöðu. Sérstaklega er þetta aðkallandi í sauðfjárrækt þar sem að allar opinberar hagtölur sem til eru sýna rautt. Það hrun sem varð á afurðaverði árin 2016 og 2017 hefur ekki gengið til baka nema að litlu leyti og í millitíðinni hafa laun á almennum markaði hækkað mikið og því ekki að undra að bændur og fjölskyldur þeirra séu orðin langeyg eftir því að geta haft þau laun af starfi sínu að þau geti lifað með reisn. Til viðbótar við þetta bætast svo kostnaðarhækkanir á aðföngum, svo sem áburði sem ég mun fjalla nánar um hér á eftir. Það er viðvarandi verkefni hvernig hægt sé að bæta árangur þannig að afkoma bænda vænkist. Í skýrslu um afkomu sauðfjárbænda sem kom út síðastliðið vor komu fram þrjú megin tækifæri til þess að bæta afkomu þeirra. En það voru áframhaldandi hagræðing í búrekstri, hagræðing í rekstri sláturhúsa og hagkvæmara fyrirkomulag útflutnings. Þessi atriði verða öll tekin til skoðunar en misjafnt er hversu mikla aðkomu hið opinbera hefur í þessum efnum.

Á föstudaginn síðasta kynnti ég í ríkisstjórn verkáætlun um hvernig ég hyggst vinna að stefnumótun á sviði matvæla á næstu árum. Fyrir landbúnað, sjávarútveg og hið ört vaxandi fiskeldi. Það plagg fór í samráðsgátt stjórnvalda á mánudaginn. Þar er komið inn á málefni sem snerta ykkur bændur beint. Síðustu ár hefur verið unnin umfangsmikil stefnumótun á sviði matvæla sem mun renna stoðum undir vinnu þessa kjörtímabils. Þau stefnuplögg sem unnin hafa verið verða tekin saman í formi þingsályktunartillögu sem lögð verður fram á vorþingi 2023. Eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála verða drög að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland, sem unnin var á síðasta kjörtímabili í breiðu samráði með aðkomu ýmissa hópa. Sú stefna byggir á þremur lykilbreytum, landnýtingu, loftslagsmálum og umhverfisvernd ásamt nýsköpun og tækni. Með þessu móti hyggst ég fá skýra sýn til framtíðar fyrir íslenska matvælaframleiðslu og íslenskan landbúnað.

Í drögum að landbúnaðarstefnu er meðal annars lagt til að áherslum í styrkjakerfi landbúnaðarins verði breytt og dregið verði úr framleiðslutengingu stuðningsins. Annarsvegar verði horft til þess að styðja við búsetu í sveitum, óháð því hvaða framleiðslugrein er stunduð og hins vegar lögð aukin áhersla á jarðrækt og aðra landnýtingu, landvörslu og loftslagsmál. Í öllum greinum þurfa stuðningskerfin að launa árangur í loftslagsmálum. Þau sem drífa áfram árangur í loftslagsmálum þurfa að njóta þess. Sá tími er liðinn þar sem engu máli skiptir hvernig vörurnar eru framleiddar.

Stefnumótun stjórnvalda kemur ekki síður fram í búvörusamningum en með því að vita hvert við erum að fara verður það svo verkefni að samræma markmið búvörusamninga við langtímastefnu stjórnvalda. En við endurskoðun búvörusamninga verður lögð áhersla á það að tryggja fæðuöryggi á Íslandi með því að efla innlenda framleiðslu. Það verður gert með því að samhæfa stuðningskerfið þannig að stoðum innlends landbúnaðar fjölgi. Það verður gert á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun.

Sérstaklega er fjallað um það að við mótum heildstæða og tímasetta aðgerðaráætlun til að efla bæði lífræna framleiðslu og akuryrkju. Enda er það mikilvægur þáttur í því að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla. Í ljósi nýjustu vendinga í alþjóðamálum er augljóst hvert við eigum að stefna, við þurfum að tryggja fæðuöryggi og það verður best gert með því að við séum sjálfum okkur nóg um fleiri tegundir matvæla. Það verður tryggt með orkuskiptum í landbúnaði og með því að við getum verið sjálfum okkur nóg um áburð. Það gengur ekki til lengdar að þurfa að flytja inn áburð framleiddan með rússnesku jarðgasi til þess að framleiða fóður hér á landi. Atburðir síðustu daga og vikna sýna það.

Síðustu áratugi hefur umræða um fæðuöryggi verið með þeim hætti að það sé bara eitthvert hallærishugtak sem hagsmunasamtök bænda hafi fundið upp til þess að aðstoða við hagsmunabaráttu. En svo hefur komið á daginn bæði í heimsfaraldri kórónaveiru og núna þegar stríð er í Evrópu, að fæðuöryggi skiptir máli. Eftir nokkrar vikur þurfa bændur á sléttum Úkraínu að setja niður korn ef þeir eiga að ná uppskeru næsta sumar og haust. Úkraína er t.a.m. fjórði stærsti útflytjandi á byggi í heiminum svo að ljóst er að það mun hafa mikil áhrif hvernig þróun mála verður.

En eitt er held ég alveg ljóst, það er það að líkur standa til þess að verð á ýmsum korntegundum mun hækka. Bæði vegna þeirra miklu hækkana sem orðið hafa á áburðarverði og ég mun víkja betur að síðar í þessari ræðu. En ekki síður vegna þess ófriðar sem nú geisar í Úkraínu. Það er því tilefni til að hvetja íslenska bændur til dáða að sá korni í vor og stuðla þannig að auknu fæðuöryggi hér á landi. Það bygg sem uppskorið verður í haust þarf ekki að kaupa á alþjóðamörkuðum til að fæða íslenskt búfé. Eins og fram kom í skýrslu um fæðuöryggi sem birt var í upphafi síðasta árs og unnin af Landbúnaðarháskólanum þá eru stríðsátök sú tegund hamfara sem geti á skjótan hátt stöðvað innflutning á fóðri. Það kann að hafa virst óraunverulegt fyrir rúmu ári. En nú hefur staðan breyst.

Bændur hafa á það bent árum saman að gerðar séu meiri og meiri kröfur til þeirra á sama tíma og þeim er gert að keppa við afurðir erlendis frá sem þurfa ekki að standast sömu kröfur. Þetta er rétt og við berum ábyrgð á því sem samfélag að flytja ekki út vandamál til annarra ríkja. Hvort sem er í formi aðbúnaðar verkafólks, dýra eða með því að flytja út losun vegna neyslu Íslendinga annað. Orðstír innlends landbúnaðar er því ein verðmætasti þáttur greinarinnar. Hann er fjöreggið því án hans munu aðferðir við aðgreiningu frá innfluttum vörum ekki duga langt. Hann geta stjórnvöld ekki tryggt heldur einungis þið sjálf. Stjórnvöld setja viðmið, lágmarkskröfur og eftirlit. Þau þurfa að vera þannig úr garði gerð að þau tryggi að markmið náist. Þannig þarf að huga að því að fullyrðingar standist skoðun. Ég hef þá trú að íslenskir neytendur muni velja innlenda framleiðslu sé þess gætt að orðstír framleiðslunnar sé góður.

Góðir búgreinaþingsfulltrúar

Áburðarmál hafa verið mikið til umræðu síðustu mánuði og ekki að ósekju. Eitt af mínum fyrstu verkum sem ráðherra landbúnaðarmála var að berjast fyrir því að fá 700 milljóna fjárheimild á þessu ári til þess að styðja bændur vegna þessar miklu hækkunar áburðarverðs. Þegar fulltrúar ykkar komu á minn fund fyrir jól sagðist ég skyldu berjast með ykkur en jafnframt minnti ég á að til lengri tíma þyrfti að draga úr notkun á áburði til þess að vinna að árangri í loftslagsmálum. Af þeim sökum var fénu ráðstafað þannig að 50 milljónir færu í lengri tíma verkefni, til ráðgjafafyrirtækis bænda og 650 milljónum yrði úthlutað í samræmi við fyrirmæli Alþingis, í gegnum búvörusamninga. Sú aðferðarfræði sem beitt er gerir það eins fljótlegt og kostur er að koma þessum peningunum í vinnu og gefur bændum um leið þá möguleika að nýta þá eins og best á við í hverju tilviki. Greiðsla mun berast á næstu dögum. En jafnframt er gætt að því að aðgerðir í tengslum við landbúnað sé í samræmi við markmið okkar í loftslagsmálum. Að því verður hugað í fleiri skrefum.

Það er margt að starfa fyrir ykkur búgreinaþingsfulltrúa á næstu dögum og ég óska ykkur velfarnaðar í þingstörfunum og hlakka til að vinna áfram með ykkur  – því ég hef mikla trú á framtíð íslensks landbúnaðar. Sóknarfærin eru ótalmörg og saman getum við leyst úr þeim áskorunum sem innlendur landbúnaður horfist í augu við.

Gangi ykkur öllum sem best nú á þinginu en ekki síður í ykkar mikilvægu störfum í þágu samfélagsins.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search