PO
EN
Search
Close this search box.

Ávarp Svandísar í Þjóðleikhúsinu. „Áhrifamáttur listarinnar og geðheilsa á tímamótum“

Deildu 

Góðir gestir! Eftirvænting í hverju skrefi. Að ganga upp tröppurnar og vita af stóra þunga tjaldinu, salnum, stuðlaberginu, sögunni og töfrunum og einu sinni enn að vera hluti af sköpun, augnabliki, bara hér og nú og aldrei áður og aldrei aftur. Leikhús. – Sitja í salnum og finna textann dynja á, myndirnar dragast upp og hljóðheiminn, tónlistina og áhrifin, finna verkið ná tökum og breyta öllu. Andardrátturinn og áhrifin magnast, þung saga og stór, saga af lífi, saga af manni, saga af samfélagi, sagan um okkur öll.Svo að finna hvernig brimaldan skellur á og tilfinningin verður sú að ekkert verði aftur eins og að leikhúsið við Hverfisgötuna, töfrahöllin okkar allra brjótist undan oki, veggirnir hverfa, loftið opnast upp í himinninn og það rignir og vindarnir blása og lífshættan verður áþreifanleg.

Sagan af úlfinum er sagan um einsemd og sársauka og samfélag sem er til staðar og samfélag sem bregst. Kerfi sem skilur allt og skilur ekkert, fjölskyldur sem styðja og eru nærri en fjarlægjast svo og hverfa. Um einsemdina í því að vera manneskja. Þess vegna er verkið um einn mann og eina manneskju en samt um hvert og eitt okkar og samfélagið allt.Stundum er sagt að listin sé spegill og hjálpi til við að skilja okkur sjálf betur. Bækur sem breyta okkar sýn á tilveruna, bíómyndir sem sitja í okkur alla ævi, myndlist sem brennir sig inn í hugann og er þar alltaf. Listin sem tengir okkur saman og gerir okkur að samfélagi og manneskjum.Svo eru stórvirki. Stórir viðburðir sem dýpka varanlega skilninginn með því að draga fram sársaukann og þjáninguna. Vertu úlfur er þannig verk. Verk sem hefur áhrif sem eru varanleg. Fara ekki. Breyta okkur hverju og einu en líka samfélaginu.–Geðheilsa er lífið allt. Í angist tilverunnar, ást og ástarsorg, missi og söknuði er alltaf verkefni að halda geðheilsunni, gæta að því að anda og sofa og tengjast öðrum. Við erum manneskjur en ekki greiningar. Fólk í samfélagi við fólk.–Nokkrar svipmyndir úr mínu lífi og lífi okkar allra. Hún – vinkona – ég heimsæki hana á geðdeildina á Hringbraut, hún er falleg, stolt, öflug og klár. Styðjandi við mig í dagsins önn. Örlát og hvetjandi með tárin í augunum. Þjáningin næstum áþreifanleg. Þunglyndið svo djúpt og eyðandi. Hún gat ekki meir.Hann – langveikur vinur – heimsæki hann á geðdeildina á Hringbraut, jólaskemmtun á Kleppi, gleðin yfir teyminu og meira sjálfstæði – „já, ég er svolítið ör núna“ – Svo kemur þunginn og vonleysið aftur. „Ég held ég geti þetta ekki einu sinni enn,“ segir hann. Hún – kornung að vinna úr áfalli – „mér finnst eins og allt sé svo dauft og litlaust, eins og mig langi ekki sérstaklega í neitt eða til neins – allt svo dauft“.

Sálfræðingur, heimilislæknir, viðtöl, þekking og yfirsýn. Vinkonur, fjölskylda, tengsl, bati, þátttaka og gleðin kemur aftur. Brothætt en komin aftur.Ég sjálf – muna að anda, muna að sofa, muna að þjáningin er partur af lífinu, leyfa listinni að hafa áhrif og dýpka mig sem manneskju. Finna að þannig er allt hægt og dagarnir raðast upp í stóra, litríka og fjölbreytta mósaikmynd um ævi, gleði og sorgir. Muna að geðheilsa er lífið allt.–Listin er partur af því að gera samfélagið okkar ríkara og … Nei, listin er lífsnauðsynleg. Listin bjargar mannslífum með því að dýpka skilning og bæta við mennskuna og muna að horfa í augun á okkur sjálfum og horfa í augun hvert á öðru og muna þannig að við erum á sama báti. –Ég er sannfærð um að Vertu úlfur er þannig listaverk og dregur fram geðheilsu á tímamótum í allri sinni vídd og breidd. Héðinn af sínu örlæti segir sögu sína af krafti og dýpt og orðkynngi sem síðan verður að verki á sviði þar sem Björn og Unnur Ösp fanga stærð sögunnar á undraverðan hátt. Sýningin snertir hvert og eitt okkar sem hingað komum en líka samfélagið allt. Hvert eitt og einasta okkar sem nýtur sýningarinnar segir söguna af henni. „Þú verður að fara“, „stórkostleg sýning“, „það er ekki hægt að lýsa þessu, þú bara verður að fara“

.Stundum hefur list bara áhrif á okkur hvert og eitt en stundum breytir listin tíðaranda og umræðu í samfélaginu. Hér er þakkað fyrir endalaust mikilvæga og ágenga sýningu sem á þátt í því að breyta umræðu um geðheilsu, opna nýjan kafla þar sem geðheilsa er lífið allt og þar sem skilningur og tengsl skipta öllu máli og vitundin um einsemdina og þjáninguna gerir okkur öll betri hvert við annað en líka að betra samfélagi. Takk öll fyrir að vera hluti af hjartslætti samfélagsins og fyrir að minna okkur öll á mikilvægi þess að notendur geðheilbrigðisþjónustu taki þátt í að skilgreina hana, móta og þróa. Þar þurfum við meiri auðmýkt. Auðmýkt sem Vertu úlfur gerir kröfu um.Takk Þjóðleikhús fyrir Vertu úlfur, takk Magnús Geir! Takk Unnur Ösp og Björn fyrir listina og takk Héðinn fyrir örlætið og hugrekkið. Takk fyrir mig. Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að þakka fyrir mig. Takk.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search