Search
Close this search box.

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra á sjómannadaginn,12. júní 2022.

Deildu 

Ágætu sjómenn og fjölskyldur, aðrir tilheyrendur

Í dag er dagur ykkar sjómanna. Þegar ég settist niður til þess að skrifa þessi orð fór ég að velta fyrir mér; hver er sjómaður? Hvað einkennir góða sjómenn? Sjómennskan hvílir á gömlum merg í íslensku þjóðlífi og byggir á ríkum hefðum.

En sem hlutfall af vinnandi fer sjómönnum fækkandi, bæði vegna aukinna afkasta og fjölgunar annarra starfa. Samhliða því eru tengsl almennings við sjómenn orðin minni en áður var, þegar stór hluti þjóðarinnar starfaði í þessum áður höfuðatvinnuvegi okkar. En þrátt fyrir að dregið hafi úr þessum þáttum þá aflið þið, sjómenn, um þriðjungs útflutningstekna landsins. Því ber að lyfta og halda til haga.

Sjómannadagurinn veitir kjörið tækifæri til þess þegar fólkinu í landinu gefst kostur á því að kynna sér sjávarútveg eins og hann er stundaður í dag.

Sjómannadagurinn gefur líka tilefni til að minnast þeirra sem farist hafa á sjó og eru þeir því miður allmargir, á tuttugustu öld fórust 3600 sjómenn. Vinnuaðstæður sjómanna hafa sem betur fer farið batnandi með hverju árinu og slysum og þar með banaslysum hefur fækkað mjög. Við megum þó ekki sofna á verðinum, það má lengi gera betur.

Sjávarútvegur á Íslandi skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þjóðarbúið og Ísland hefur skipað sér meðal fremstu fiskveiðiþjóða. Þar kemur margt til; samkeppnishæfni, sjálfbærar veiðar, fullvinnsla og nýsköpun og áfram mætti telja. Þessari stöðu viljum við halda. 21. öldin þeysist áfram og öll eigum við fullt í fangi með að fylgjast með framþróun á sviði tækni og nýsköpunar. Samhliða því breytast líka kröfur og gildi fólks og stórar áskoranir á borð við loftslagsmál, heimsfaraldur og stríð í Evrópu halda okkur  við efnið.

Ef við ætlum áfram að vera leiðandi fiskveiðiþjóð þurfum við líka að aðlaga okkur að félagslegum breytingum og kröfuharðari neytendum, hratt og örugglega. Stóra sameiginlega verkefni okkar allra er að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Hafið er auðlind sem okkur ber að vernda. Hafið er ein af stærstu forsendum lífs á jörðinni og það er í hættu – bæði vegna mengunar og ofveiði. Sú staðreynd knýr okkur til að endurmeta kúrsinn og sigla framhjá skerjunum.

Í þessu stóra verkefni er mikilvægt að við tökum höndum saman, stjórnvöld og sjávarútvegurinn, vinnum að orkuskiptum í sjávarútvegi og aukum hafrannsóknir. Það er svo gríðarlega mikið í húfi.

Kæru áheyrendur, á síðustu áratugum hefur vinnumarkaðurinn á Íslandi tekið miklum breytingum í átt til réttlætis, atvinnuþáttaka kvenna er með hæsta móti í heiminum. Það er stór þáttur í því hversu ríkt þjóðfélag okkar er, að öll kyn hafa samkvæmt lögum jafnan rétt, þó svo að ennþá sé nokkur vegur í land í reynd. Yfirgnæfandi meirihluti sjómanna eru karlmenn en þarf það að vera svo? Væri hægt að gera sjómennskuna meira aðlaðandi fyrir konur? Með aukinni sjálfvirknivæðingu og síbatnandi starfskilyrðum er fátt sem rökstyður það að konur eigi ekki erindi á sjó.

Ef við svo lítum yfir atvinnugreinina í heild þá er alveg ljóst að ráðast þarf í viðhorfsbreytingu og laða fleiri konur að til starfa í sjávarútvegi. Það verður ekki gert öðruvísi en með markvissum aðgerðum og þar skipta stjórnendur lykilhlutverki. Konur þurfa líka að stjórna. Það er óásættanlegt að ein kona skuli sitja í nýskipaðri stjórn SFS. Eftir höfðinu dansa limirnir.

Og talandi um réttlæti, oft er um það rætt á opinberum vettvangi að setja þurfi viðmið um launabil á vinnustöðum. Því eðlilega spyr fólk sig hvers vegna forstjórinn sé á tuttuguföldum lágmarkslaunum. Er ábyrgðin tuttuguföld eða afköstin? Í sjómennsku er þetta skýrt. Skipstjórinn er yfirleitt á tvöföldum hlut á við hásetann. Í þessu er fólgin jöfnuður og gott væri að sjá þetta fyrirkomulag víðar. Vinnutími sjómanna hefur líka breyst til mikils batnaðar og dregið hefur úr upphefð og þeirri hugsun um að sá sem vinnur mest og lengst sé mesti spaðinn. Eitruð viðhorf til vinnuálags og puðs mega heyra fortíðinni til.

Ég vil líka nýta tækifærið og vekja máls á því að sjómenn hafa verið kjarasamningslausir í þrjú ár. Úr þessu þarf að bæta hið fyrsta.

Kæru áheyrendur

Síðan ég hóf störf í ráðuneyti matvæla hef ég lagt mikla áherslu á að fram fari vönduð vinna við stefnumótun í sjávarútvegi. Sú vinna var kynnt á dögunum. Flestir forverar mínir í starfi hafa gert tilhlaup að slíkri vinnu án mikils árangurs. Ég ákvað því að nálgast verkefnið með nýjum hætti. Í stað þess að fela einum litlum hópi mörg ólík verkefni legg ég áherslu á að draga sem flest sjónarmið að borðinu, að vinnan verði afmörkuð og markviss og ekki síst unnin fyrir opnum tjöldum. Markmiðin eru meðal annars þau að setja ný heildarlög um stjórn fiskveiða, takast á við spurningar um gagnsæi og eignatengsl, um umhverfismál og auðlindanýtingu. Með setningu nýrra heildarlaga er ekki þar með sagt að það standi til að bylta þeim kerfum sem við höfum komið okkur upp síðustu áratugina, enda er þar margt afar gott að finna. Íslenskur sjávarútvegur er kraftmikil atvinnugrein sem skilar miklu til samfélagsins.

Þetta er krefjandi verkefni sem ég hlakka til að takast á við. Eitt af markmiðum þessarar vinnu er ekki síst að auka samfélagslega sátt um sjávarútveg. Það skiptir þjóðina máli og það skiptir greinina máli. Við vitum vel í hverju áskoranirnar felast, of mikil auðsöfnun of fárra, samþjöppun og of lítið gagnsæi. Samfélagsleg sátt verður ekki aukin um sjávarútveg nema að það sé réttlæti í kerfinu og að almenningur upplifi kerfið líka réttlátt. Hugmyndin um réttlæti kjarnar mína pólitísku sýn á sjávarútveg. Þetta er jú auðlindin okkar allra.

Áskoranir í sjávarútvegi á 21. öldinni eru fjölmargar en tækifærin enn fleiri. Það eru sóknarfæri í aukinni verðmætasköpun, fullvinnslu, markaðsmálum, nýsköpun og náttúruvernd- og loftslagsmálum. Það er mikilvægt fyrir þjóðarsálina en ekki síður fyrir sjómenn og þau sem vinna í greininni. Sjómenn eru og eiga að vera stoltir af framlagi sínu til þjóðarbúskaparins. Til þess er fullt tilefni.

Til hamingju með daginn!

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search