Mikil þörf er á því að endurnýja og bæta tækjakost til bráðaþjónustu á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni. Öllu getur skipt að þær séu betur tækjum búnar til greiningar bráðavanda og slysa. Þá verður að vera til staðar vel þjálfað starfsfólk til að sinna fyrstu viðbrögðum.
Undanfarin ár hef ég beitt mér mjög fyrir öruggu aðgengi að læknisþjónustu víðsvegar um landið og að það búsetuöryggi sem í því felst sé tryggt. Nýlega vakti ég sérstaka athygli á þörfinni á að bæta tækjakost heilsugæslustöðva með skriflegri fyrirspurn til heilbrigðisráðherra þar um og hvað hann hygðist gera til að tæknivæða betur heilsugæslu á landsbyggðinni þannig að hún geti betur sinnt þessu hlutverki sínu og einnig um þjálfun fólks að nota þau til greininga og veita fyrstu aðstoð. Þá vakti ég athygli á því að framhaldsnám í bráðatækni væri mikilvægt skref í þessa veru, en ekki er slíkt nám í boði á Íslandi.
Nú hefur í framhaldi af fyrirspurn minni verið kunngjört að bráðaþjónusta verði efld um allt land með bættum tækjabúnaði og 113,5 milljóna framlagi til heilbrigðisstofnanna utan höfuðborgarsvæðisins til þess að endurnýja og bæta tækjakost vegna bráðavanda. Þó meira þurfi til er þetta mikilvægt skref.
Ég get ekki annað en þakkað ráðherra skjót viðbrögð þó fyrirspurninni sjálfi hafi ekki enn verið svarað með beinum hætti, en niðurstaðan er almenningi til heilla og það er aðal atriðið. Það er nefnilegi lykilatriði ef við viljum tryggja byggðajafnrétti og góð skilyrði fyrir dreifðri búsetu að standa vel að öryggi landsmanna í hvívetna.
Of víða hafa íbúar ekki öruggt aðgengi að læknisþjónustu og þurfa að fara um langan veg eftir henni. Því skiptir sköpum að heilsugæslustöðvar séu vel tækjum búnar og nærþjónusta við íbúa sé með bestu móti. Ég skora því á ráðherra að halda uppteknum hætti og bregðast við öðrum aðkallandi þáttum til að tryggja öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.
Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi