Search
Close this search box.

Bætt geðheilbrigðisþjónusta við fanga

Deildu 

Í lögum um fullnustu refsinga er föngum tryggður réttur til heilbrigðisþjónustu og eiga þeir að njóta samskonar þjónustu og allir aðrir. Á því hefur verið misbrestur eins og Umboðsmaður Alþingis og pyntingavarnanefnd Evrópuráðsins hafa vakið athygli á. Það er óviðunandi að fangar njóti ekki eðlilegrar heilbrigðisþjónustu og þar með geðheilbrigðisþjónustu. Það segir mikið um samfélag hvernig það fer með sína viðkvæmustu hópa og löngu tímabært að gera nauðsynlegar úrbætur á geðheilbrigðisþjónustu við fanga. Við viljum gera betur og er nú unnið að því að samhæfa vinnu ráðuneyta og stofnana til að tryggja föngum viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Samningar eru í gildi á milli fangelsa og heilbrigðisstofnana um almenna heilbrigðisþjónustu við fanga. Unnið er að því að koma á samningum á milli sjúkrahúsa og fangelsa í hverju heilbrigðisumdæmi um geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum. Hugmyndin er að heilsugæslulæknir vísi föngum, eftir þörfum hvers og eins, til sérhæfðs teymis sem í eru geðlæknir, geðhjúkrunarfræðingur og sálfræðingur þar sem veitt er viðeigandi þjónusta. Auk þess er stefnt að því að eftirfylgd í samræmi við þarfir hvers og eins verði tryggð í geðteymum heilsugæslanna að lokinni afplánun. Með þessu er gert ráð fyrir því að ábendingum umboðsmanns hafi verið svarað að fullu og það sama gildi um ábendingar pyntingavarnanefndarinnar.  Ætlunin er að byrja á Hólmsheiðinni þar sem undirbúningsvinnan er lengst á veg komin og sama fyrirkomulag verði tekið upp innan árs í öðrum fangelsum. Verkefnið er fullfjármagnað en gert er ráð fyrir að verja 55 milljónum króna í þjónustuna í ár.

Sem heilbrigðisráðherra hef ég lagt áherslu á bætta geðheilbrigðisþjónustu. Unnið er að því að fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni og koma á fót geðheilsuteymum um land allt. Stórauknu fjármagni hefur verið veitt til málaflokksins en á þessu ári nemur aukningin 650 milljónum króna og á næstu 5 árum nema aukin framlög 100 milljónum króna ár hvert.  Þær umbætur sem eru að eiga sér stað í heilbrigðiskerfinu eiga að skila sér til allra sem þurfa á þjónustunni að halda þar með talið fanga.  Ég er þess fullviss að þær breytingar sem í farvatninu eru verði mikið framfaraskref í heilbrigðisþjónustu við fanga.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search