Reykjavíkurborg veitir eldri borgurum margvíslega þjónustu. Markmiðið með þjónustunni er að borgarbúar á öllum aldri geti blómstrað og fengið þá aðstoð sem þeir þurfa til að lifa innihaldsríku lífi. Til að samræma og gera þjónustu borgarinnar við eldri borgara markvissari var ákveðið móta heildstæða stefnu í málaflokknum. Ný stefnumótum, Aldursvæn og heilsueflandi borg, var samþykkt í borgarstjórn vorið 2018 og var sú vinna unnin undir forystu Vinstri grænna. Í stefnunni er lögð áhersla á aukin lífsgæði eldri borgara.
Í nýrri aðgerðaráætlun með stefnunni, sem nú hefur litið dagsins ljós, er lögð áhersla á á fimm meginaðgerðir, félagsauð, matarþjónustu, sérhæfða aðstoð vegna heilabilunar, sérhæfð teymi um heimaþjónustu og mannauð.
Í aðgerðaráætluninni er þjónusta samræmd og upplýsingagjöf aukin til eldri borgara í Reykjavík m.a með sérhæfðum þjónustufulltrúa, aukinni miðlun og útgáfu. Einnig er lögð áhersla á að hvetja þá sem eldri eru til þátttöku í félagsstarfi, útvist, menningu og heilsueflingu. Lögð er áhersla á betri næringu til eldri borgara og sú nýbreytni tekin upp að notast er við ráðgjöf næringarfræðings, og reglulegar skimanir gerðar til að kanna næringarástand eldra fólks í borginni. Auk þess verður sett á laggirnar sérstakt þverfaglegt teymi til að bæta þjónustu við heilabilaða í heimahúsum. Stefnt er að fjölgun dagdvalarrýma og auka félagslegan stuðning heima og meiri sérhæfð þjónusta verður veitt á heimilum eldra fólks.
Stefnan og aðgerðaráætlunin var unnin í góðu samráði við hagsmunasamtök eldra fólks, bæði Félags eldri borgara, Öldungaráðs Reykjavíkurborgar og fleiri aðila. Framkvæmd aðgerða verður áfram unnin í samvinnu við notendur þjónustunnar og aðstandendur þeirra. Aðgerðaáætlunin nær til þriggja ára og er metnaðarfull. Það er merki um gott samfélag að allir geti notið þátttöku í samfélaginu, óháð aldri og heilsufari, á sínum forsendum, eins lengi og kostur er. Að lokum er mikilvægt að gott og farsælt samstarf sé milli ríkis og Reykjavíkurborgar þegar kemur að þjónustu við aldraða og fjölmörg brýn verkefni eru í farvatninu, m.a fjölgun hjúkrunarrýma, dagdvalarrýma og efling heimahjúkrunar. Mikilvægt er að halda ótrauð áfram að bæta þjónustu við eldra fólk í Reykjavík.
Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.