Search
Close this search box.

Bætum stöðu fatlaðs fólk

Deildu 

Staða fatlaðs fólks í samfélaginu hefur sem betur fer breyst til hins betra undanfarin ár og áratugi. Samt sem áður stendur fatlað fólk enn ekki á jafnfætis ófötluðum á mörgum sviðum. Er þar nóg að nefna aðgengi að samfélaginu, þ.m.t. að námi og atvinnu. Auk þess eru fordómar gagnvart því hvað fatlað fólk getur gert og ekki gert eru enn alltof miklir. Fatlað fólk er líklegra til að verða fyrir ofbeldi, ekki síst fatlaðar konur. Þess vegna heldur baráttan fyrir mannréttindum fatlaðs fólks áfram og ég vil leggja lóð mín á þær vogarskálar.

Á þessu ári hefur ráðuneyti mitt, í góðu samstarfi við fjölda aðila, staðið fyrir umfangsmikilli vinnu við gerð landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks. Landsáætlun er ætlað að koma samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til framkvæmdar hér á Íslandi, en unnið er að undirbúningi að lögfestingu hans í forsætisráðuneytinu. Mikilvæg forsenda lögfestingar er að koma á fót óháðri mannréttindastofnun, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um stofnunina á Alþingi í október síðastliðnum.

Landsáætlunin er fyrsta heilstæða stefnumótunin í málefnum fatlaðs fólks á Íslandi og er afrakstur af víðtækri samvinnu ráðuneyta, stofnana, fulltrúa sveitarfélaga og ekki síst hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Fatlað fólk hefur stýrt þeim ellefu vinnuhópum sem unnið hafa aðgerðir inn í áætlunina. Þá stóð ráðuneyti mitt fyrir opnum fundum á níu stöðum um allt land í vor og sumar og þar áttum við gott samtal um málaflokkinn. Ég hef nú sett drög að landsáætlun í samráðsgátt stjórnvalda til 23. nóvember og hyggst leggja hana fram sem þingsályktunartillögu á Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi.

Landsáætlunin verður afar mikilvæg til að koma réttindum fatlaðs fólks samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna til framkvæmdar. Markmið áætlunarinnar er samhljóma fyrstu grein samningsins, að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn fatlaðs fólks. Landsáætlun hefur að geyma tæpar 60 aðgerðir sem snerta vitundarvakningu og fræðslu, aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu, sjálfstætt líf, menntun og atvinnu, og þróun á þjónustu.

Ég hlakka til að leggja áætlunina fram á Alþingi til umræðu og vonandi verður hún samþykkt fyrir vorið. Ég hvet einnig sem flest til að senda inn athugasemdir meðan landsáætlun er í samráðsgátt stjórnvalda.

Með Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks stígum við mikilvæg skref í átt að frekari mannréttindum og betri þjónustu við fatlað fólk.

Grein birtist á Vísi 16.nóvember

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search