Þegar umræður um loftslagsmál hófust af alvöru fyrir um 20-30 árum voru áhrif þeirra bak við ystu sjónarrönd. Fólkið sem tækist á við afleiðingarnar væri ekki fætt. Þessi staða er breytt í dag. Afleiðingarnar eru ekki bak við ystu sjónarrönd lengur. Við höfum færst nær eftir beinum og breiðum vegi. Í sumar hafa borist stöðugar fréttir af hitabylgjum í Evrópu, af skógareldum og óvenjulega hlýjum sjó í Norður-Atlantshafi. Við erum farin að sjá betur hvað bíður okkar. Þjónusta þeirra vistkerfa sem mannkynið reiðir sig á verður skert á stórum svæðum. Áhrifin á efnahag milljarða jarðarbúa ómæld, vegna áhrifa á landbúnað, vatnsbúskap og fleira. Tilheyrandi áhrif á fjölda flóttafólks sem nú þegar hafa aldrei verið fleiri.
Áhrif verða ljós
Frá því um iðnbyltingu hefur mannkynið losað ókjör af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið. Tölurnar eru óskiljanlegar, þær liggja utan við það sem tungumál okkar og ímyndunarafl fær skilið. Níu hlutar af hverjum tíu af því kolefni sem mannkynið losar eru teknir upp í hafinu, þar sem áhrifin eru m.a. að höfin súrna. Áhrif þess á vistkerfi hafsins eru óþekkt en eins og annað bak við ystu sjónarrönd munu þau koma í ljós á næstu árum og áratugum.
Ísland getur haft áhrif umfram stærð með því að sýna að hægt sé að draga hratt úr losun og auka bindingu. Íslenskir atvinnuvegir eru margir hverjir með metnaðarfull markmið um loftslagshlutleysi og leita leiða til þess að draga úr losun. Enda er oft á tíðum beinn fjárhagslegur ávinningur af því að innleiða sparneytnari búnað eða skipta út jarðefnaeldsneyti þar sem það er fýsilegt. Bæði sjávarútvegur og landbúnaður hafa hér þýðingarmikið hlutverk. Losun úr þessum geirum er umtalsverð og í þeim báðum hefur náðst árangur til að draga úr losun. Frekari árangur er nauðsynlegur á næstu árum.
Auknar kröfur
Á síðasta þingi voru samþykkt frumvörp á Alþingi sem stíga græn skref í sjávarútvegi. Fleiri skrefa er þörf og hef ég fulla trú á því að íslenskur sjávarútvegur geti verið í fararbroddi í loftslagsmálum. Sömu trú hef ég á innlendum landbúnaði, en mörg verkefni eru á teikniborðinu sem geta þar aukið árangur. Á næstu árum verða enn auknar kröfur vegna alþjóðlegra skuldbindinga um að draga úr losun frá landi. Óvissa er hér á landi um hver sú losun er en sýnt þykir að hún sé veruleg, sérstaklega frá verst förnu svæðunum. Miklir hagsmunir eru að veði fyrir samfélagið að draga úr þessari losun þar sem að ljóst er að íslenska ríkið mun þurfa að greiða fyrir losun umfram markmið innan fárra ára. Mikilvægt er að þessir hagsmunir verði tryggðir. Bæði fyrir samfélagið, vistkerfin en ekki síst komandi kynslóðir.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra