Search
Close this search box.

Baráttan eilífa

Deildu 

Fyrir rúmum 90 árum skrifaði Katrín Thoroddsen læknir um rétt kvenna til að ráða sínum eigin líkama og ræddi þar um kynheilbrigði og frjósemisréttindi kvenna: „Vitanlega er það eðlilegast og réttmætast, að konan hafi ákvörðunarréttinn. Hún á mest á hættunni. Það er hún, sem setur heilsu sína og jafnvel líf í hættu um meðgöngutímann og við fæðinguna, og það er hún, sem er bundin yfir barninu á eftir“ – en þetta er einmitt það sem hatrammir andstæðingar sjálfsákvörðunarréttarins vilja ekki viðurkenna. Yfirráðin yfir konum eru þeim efst í huga.

Seinustu misserin höfum við séð afturför í kynheilbrigðis- og frjósemisréttindum kvenna víða um heim. Þrengt er að þungunarrofsrétti kvenna og sjálfsákvörðunarrétti yfir eigin líkama. Þetta bakslag minnir okkur á að baráttan fyrir félagslegu réttlæti er endalaust frelsisstríð. Krafan um kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna er hluti af þeirri baráttu og þó að okkur Íslendingum hafi gengið vel í þeirri baráttu þá er henni hvergi nærri lokið.

Alþingi Íslendinga samþykkti fyrir fáum árum ný og framsækin lög um þungunarrof sem voru einn mesti kvenfrelsisáfangi sem  við höfum séð á síðari árum og viðurkenning á rétti kvenna til að ráða eigin líkama. Í samfélagi sem tekur slíkar ákvarðanir er betra að vera kona en víðast hvar annars staðar. Samt stöndum við enn frammi fyrir áskorunum. Meðal þess sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á í þeim efnum er að takast á við kynbundið ofbeldi og launamun kynjanna. 

Öryggi er forsenda jafnréttis

Stundum er sagt að kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni séu í senn orsök og afleiðing kynjamisréttis í samfélaginu. Það er ekki og getur ekki verið eðlilegt ástand að konur á öllum aldri séu ekki öruggar – ekki heima hjá sér eða á vinnustað eða í almannarými. Við vitum öll að öryggi er forsenda þess að geta gert svo margt annað.

Það er sláandi staðreynd að heimilisofbeldisbrot voru 1058 á Íslandi árið 2021. Á árunum 2020 og 2021 var helmingur allra ofbeldisbrota sem kom til kasta lögreglu heimilisofbeldisbrot. Það er önnur sláandi staðreynd að tilkynntum nauðgunum fækkaði um rúm 40% á meðan harðar sóttvarnaráðstafanir voru í gildi og afgreiðslutími skemmtistaða var takmarkaður.

Þessar tölur segja sína sögu. Við verðum að geta tryggt öryggi kvenna og barna heima hjá sér og við verðum að geta tryggt það að konur geti farið út að skemmta sér og verið öruggar á sama tíma. Stjórnvöld hafa aukið fjármagn til lögreglunnar til að takast á við þessi brot, fyrir utan að styðja betur við þjónustuúrræði við þolendur ofbeldis. Ráðist hefur verið í vitundarvakningu um ofbeldi og áreitni á djamminu. Forvarnaáætlun um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni fór af stað í grunnskólum landsins í fyrra. Markmiðið er skýrt: að útrýma þeirri samfélagslegu meinsemd sem kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni er.

Baráttan við kynbundinn launamun

Dregið hefur hægt og bítandi úr kynbundnum launamun á undanförnum árum og ekki er óvarlegt að draga þá ályktun að aðgerðir stjórnvalda hafi skilað þeim árangri. Árið 2020 var leiðréttur launamunur kynjanna 4,1% og talið að kynskiptur vinnumarkaður skýri að stóru leyti þann launamun sem enn er til staðar. Starfshópur um endurmat kvennastarfa sem ég skipaði skilaði af sér skýrslu í fyrra og í kjölfarið skipaði ég aðgerðahóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Hlutverk hans er að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum. Það er mín von að þær tillögur færi okkur nær því að leiðrétta þessa skekkju.

Þessu tengt er það fagnaðarefni að eftir að lög um jafnlaunavottun tóku gildi árið 2017 hafa 385 fyrirtæki, stofnanir og aðrir opinberir aðilar innleitt jafnlaunastaðalinn og fengið jafnlaunavottun. Hjá þeim launagreiðendum sem lög um jafnlaunavottun ná til starfa um eitt hundrað þúsund starfsmenn.

Meginmarkmiðið er skýrt: Við ætlum að útrýma kynbundnum launamun. Vinna kvenna er engu síður verðmæt en vinna karla. Slíkt kerfislægt misrétti á sér enga réttlætingu á 21. öldinni.

Jafnrétti er fjölþætt

Stjórnvöld hafa lagt æ meiri áherslu á jafnrétti í víðari samhengi. Stór skref voru stigin árið 2018 þegar Alþingi samþykkti hina svokölluðu mismununarlöggjöf: lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna sem á við utan vinnumarkaðar. Frumvarp mitt um breytingar á þeim lögum sem bætir við fleiri þáttum, meðal annars fötlun og kynhneigð, var samþykkt á Alþingi nú í júní. Þetta er stór áfangi í því að útvíkka jafnréttisbaráttuna og taka tillit til fleiri þátta en kyns þegar við tökumst á við misréttið í samfélaginu.

Ekki er hægt að telja upp allt það sem hefur verið gert í þágu jafnréttis í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég hlýt þó að nefna stóra áfanga eins og nýja jafnréttislöggjöf og lengingu fæðingarorlofs þar sem tryggt var að báðir foreldrar nýti sinn hluta orlofsins sem hefur verið ein mikilvægasta jafnréttisaðgerð síðari tíma á Íslandi.

Í dag fögnum við og minnumst þess dags þegar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt árið 1915 og fimm árum síðar allar konur á Íslandi. Sá áfangi náðist vegna kvenna sem aldrei gáfust upp í baráttunni. Við fögnum góðum árangri og mikilvægum sigrum í jafnréttisbaráttunni. Um leið missum við ekki sjónar á þeim áföngum sem eftir eru til að fullt jafnrétti náist. Við tökumst á við þær áskoranir saman, samfélaginu öllu til heilla.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search