Search
Close this search box.

Baráttan fyrir mannréttindum í 75 ár

Deildu 

„Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum.“ Svo hljóðar fyrsta grein í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var á allsherjarþingi aðildarríkjanna í París hinn 10. desember 1948. Við fögnum því 75 ára afmæli þessarar einstöku yfirlýsingar sem var samin í kjölfar tveggja heimsstyrjalda með óbærilegum hörmungum og langtíma afleiðingum.

Fyrsta greinin í yfirlýsingunni er fagur vitnisburður um sameiginlegan skilning á réttindum hverrar manneskju en líka tregafull og áhrifarík áminning til okkar allra.

Mannréttindayfirlýsingin er tímamótaplagg í sögu mannréttinda, einstakt skjal sem var samið af fulltrúum ríkja með mismunandi bakgrunn í lögum og menningu frá ólíkum landsvæðum heims. Yfirlýsingin var samin með það í huga að í fyrsta sinn yrði til sameiginlegur staðall eða mælikvarði fyrir allar manneskjur og ríki til að fylgja eftir. Þetta var í fyrsta sinn sem grundvallarmannréttindi voru ákvörðuð og skráð niður og vernduð. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna hefur verið þýdd yfir á um 500 tungumál og er grunnurinn að eða fyrirmynd um 70 mannréttindasáttmála sem eru í gildi og hafa skipt gríðarlega miklu máli í baráttunni fyrir mannréttindum um allan heim.

Konur sem unnu að Mannréttindayfirlýsingunni

Konur léku lykilhlutverk við gerð Mannréttindayfirlýsingarinnar. Þá má nefna Eleanor Roosevelt sem vann ötullega að því sem fulltrúi Bandaríkjanna í Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og formaður nefndarinnar að ná samkomulagi milli ólíkra aðila og ríkja og hina konuna í nefndinni; Hansa Metha, fulltrúa Indlands, sem á heiðurinn af lokaútgáfu fyrstu greinarinnar. Aðrar konur sem unnu vasklega að því að tryggja réttindi kvenna í lokatexta yfirlýsingarinnar voru til að mynda Minerva Bernardino, Begum Shaista Ikrahmullah, Bodil Begtrup, Marie-Hélene Lefaucheux, Evdokia Uralova, Lakshmi Menon og fleiri konur. Þeim ber að þakka fyrir að tryggja réttindi kvenna í lokaútgáfunni því án þeirra hefðu þau ekki ratað á blað. Það sýnir okkur hversu gríðarlega mikilvægt er að hafa konur og kvár þar sem ákvarðanir eru teknar sem og fulltrúa fjölbreyttra samfélagshópa. Mannréttindi eru nefnilega ekki gefin eða sjálfsögð, heldur eru þau afrakstur þrotlausrar réttindabaráttu  fólks úr fjölbreyttum áttum.

Ísland og Mannréttindayfirlýsingin

Þó að sleitulaus vinna liggi að baki framförum í mannréttindum þá verðum við stöðugt að vera á varðbergi til að verja þann ávinning sem náðst hefur. Sérstaklega þegar kemur að jafnrétti kynjanna, réttinum til kynheilbrigðis, rétti fólks til kyntjáningar, réttinum til lýðræðislegrar þátttöku og skoðana – og tjáningarfrelsi. Við höfum séð bakslag á þessum sviðum undanfarin ár. Við verðum líka að bregðast við stærstu áskorun okkar kynslóðar sem eru loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á mannréttindi á heimsvísu. Það verðum við að gera með áþreifanlegum aðgerðum en ríkisstjórn Íslands hefur gert baráttuna gegn loftslagsbreytingum að forgangsverkefni sínu.

Ísland skuldbindur sig á 75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna til að efla mannréttindi. Í því augnamiði ætlum við að koma á fót öflugri, óháðri og skilvirkri mannréttindastofnun í samræmi við Parísarviðmiðin. Í öðru lagi er markmið ríkisstjórnarinnar að útbúa öfluga og yfirgripsmikla aðgerðaáætlun um mannréttindi. Í þriðja lagi mun Ísland fullgilda valfrjálsu bókunina við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þriðju valfrjálsu bókunina við samninginn um réttindi barna. Í fjórða lagi mun Ísland rúmlega tvöfalda grunnframlag sitt til Skrifstofu Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2024 – 2028.

Við munum líka hafa áfram, nú sem fyrr, reisn og jafnrétti allra sem leiðarljós í okkar störfum.

Virði Mannréttindayfirlýsingarinnar á tímum stríðsátaka

Ástandið nú um mundir á alþjóðavettvangi fyllir marga vonleysi og vanmætti. Stríðsátökum hefur fjölgað að undanförnu og er talið að allt að 70 stríðsátök eigi sér stað í heiminum; allt frá innrás Rússa í Úkraínu með tilheyrandi fólksflutningum milljóna manna og hörmungum, til hryllilegra stríðsátaka á Gaza í Palestínu þar sem saklaus börn og óbreyttir borgarar eru helstu fórnarlömbin. Líka má nefna grimmilega borgarastyrjöld í Súdan sem nær varla athygli fólks á Vesturlöndum eða áframhald á hræðilegu ástandi í Myanmar. Öll þessi stríðsátök og önnur eiga það sameiginlegt að fórnarlömbin sem missa mest og bera mestan skaða er saklaust fólk; börn sem hafa ekkert unnið sér til saka, konur og karlar sem þrá einfaldlega að lifa sínu lífi í friði. Við svona dapurlegar aðstæður er auðvelt að missa móðinn og missa trúna á að mannkynið geti áorkað í sameiningu að tryggja frið og mannsæmandi líf fyrir allar manneskjur sem eiga rétt á því. Mörgum finnst orð til einskis nýt og samvinna þjóða ekki skila nógu áþreifanlegum aðgerðum, nógu hratt.  Þá reynir á samtakamáttinn og trúna á að samvinna ólíkra hópa fólks, af ólíkum uppruna með ólíkan bakgrunn geti áorkað einhverju sem stuðlar að betra lífi fjöldans. Nákvæmlega það gerðu höfundar Mannréttindayfirlýsingarinnar á sínum tíma eftir koldimma tíma í sögu mannkyns og náðu ótrúlegum árangri – samfélögum og venjulegu fólki til heilla um allan heim. Baráttan fyrir friði og mannréttindum hefur aldrei verið auðveld en hún hefur sjaldan verið mikilvægari og saman verðum við að vinna áfram og stöðugt að friði og mannréttindum allra, ekki fárra.

Þetta er kjarninn í því hvers vegna við höldum áfram að styðja heilshugar við alþjóðasamstarf, við fjölþjóðastofnanir og ekki síst við Sameinuðu þjóðirnar, þetta mikilvæga ríkjasamstarf sem skiptir okkur öll máli. Til hamingju með 75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search