Search
Close this search box.

Baráttan sem breytir heiminum

Deildu 

Í dag fögnum við alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Við erum á leið út úr heimsfaraldri þar sem við sáum kvennastéttir lyfta grettistaki innan heilbrigðiskerfisins, víða jókst heimilisofbeldi vegna innilokunar og takmarkana og vinnumarkaðurinn breyttist með aukinni fjarvinnu og ólíkum áhrifum á karla og konur.

Hér á Íslandi sáum við líka þá breytingu að tilkynntum nauðgunum fækkaði vegna samkomutakmarkana – árið 2020 fækkaði þeim um 43%. Hvernig við skemmtum okkur hefur gríðarleg áhrif á öryggi kvenna – og þess vegna hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að ráðast í sérstakt átaksverkefni til að koma í veg fyrir að þessum glæpum fjölgi aftur þegar djammið hefst á ný.

Á sama tíma er um helmingur tilkynntra ofbeldisbrota heimilisofbeldi. Frá því að verklagi í heimilisofbeldisbrotamálum var breytt 2014 hefur hlutfallið farið úr 20% í tæpan helming af öllum ofbeldisbrotum sem rata til lögreglu. Það tengist breyttum skilgreiningum, breyttri skráningu, breyttu verklagi þar sem málin eru rannsökuð strax og félagsþjónustan aðstoðar þolendur strax á vettvangi. Þessi mál eru í mikilli deiglu. Hins vegar er það ein af þeim þversögnum sem við þurfum að takast á við að Ísland sé best í heimi þegar kemur að jafnrétti kynjanna – og um leið sé heimilisofbeldi jafn útbreitt vandamál og raun ber vitni. En um leið er ljóst að breytt verklag hefur skilað vandanum upp á yfirborðið og þá getum við miklu betur tekist á við hann.

Árangur í jafnréttismálum á Íslandi, hvort sem er í leikskólamálum, fæðingarorlofi, kynbundnum launamun eða kynbundu ofbeldi má fyrst og fremst rekja til samstöðu kvenna og kvennahreyfingar sem hefur barist fyrir og náð fram mikilvægum kerfislægum umbótum í samfélagi okkar. Sú barátta hefur skilað fleiri konum til forystu og breyttum áherslum við mótun samfélagsins. Við baráttukonur dagsins í dag vil ég segja: Takk fyrir að berjast, takk fyrir að stíga fram, takk fyrir að standa saman og styðja hver aðra, takk fyrir að breyta samfélaginu til hins betra fyrir okkur öll. Gleðilegan alþjóðlegan baráttudag kvenna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search