Vatn er ein dýrmætasta auðlind jarðar og án vatns er ekkert líf. Ísland er auðugt af vatni og kemur sérstaða landsins glöggt fram í því hversu ríkt landið er af yfirborðs- og grunnvatni. En það er ekki nóg að halda því fram að við eigum besta vatn í heimi, við þurfum einnig sem þjóð að geta sýnt fram á að svo sé og verndað síðan vatnið okkar til framtíðar.
Fyrsta vatnaáætlun Íslands komin í kynningu
Rannsóknir, greiningar og vöktun á vatnsauðlindinni gefa okkur upplýsingar um gæði vatns en slíkt er nauðsynlegt fyrir öll þau sem byggja lífsviðurværi sitt á hreinleika vatns og sjávar – það er að segja, okkur öll. Mikilvægt er að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og náttúrulegu ástandi vatns fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Um árabil hefur verið unnið að fyrstu vatnaáætlun Íslands og nú eru drög að henni komin í kynningu á vefsíðunni vatn.is.
Samvinna lykilatriði til að tryggja gæði vatns
Hreint vatn er mikilvægur þáttur í grænu hagkerfi og styrkir ímynd Íslands út á við. Afar brýnt er að nýta auðlindina á skynsamlegan hátt þannig að ekki sé gengið um of á hana. Til að tryggja sjálfbæra nýtingu og langtímavernd vatnsauðlindarinnar þurfum við heildstætt kerfi, samræmda stjórnun og aukna þekkingu þegar kemur að vatnamálum.
Með vatnaáætlun er sett fram fyrsta stefna Íslands um að halda öllu vatni á Íslandi í góðu ástandi og lýsir áætlunin samvinnu stjórnvalda, stofnana, eftirlitsaðila, sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings alls til að ná því markmiði.
Umhverfisstofnun hefur nú lagt fram tillögu að vatnaáætlun, en ætlunin er að hún taki gildi árið 2022. Vatnaáætlun fylgir einnig aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun þar sem farið er yfir þær aðgerðir sem vinna þarf á næstu árum og lögð fram áætlun um vöktun. Hún gegnir mikilvægu hlutverki í því að afla upplýsinga um gæði vatns og fylgjast með að ástandi hraki ekki.
Fráveitumál umfangsmestu aðgerðirnar
Umfangsmestu aðgerðirnar sem ráðast þarf í snúa að fráveitumálum sveitarfélaganna en brýnt er að bæta hreinsun fráveituvatns. Ríkið hefur frá og með árinu 2020 tekið aftur upp stuðning við sveitarfélög sem ráðast í úrbætur í fráveitumálum og munu 3 milljarðar fara í slíkan stuðning á næstu fimm árum. Ég hef lagt ríka áherslu á þetta mikilvæga samstarf ríkis og sveitarfélaga.
Verndun vatns er grundvallarforsenda góðra lífsgæða
Það getur verið erfitt fyrir okkur á Íslandi að gera okkur í hugarlund hvernig lífið væri án aðgangs að heilnæmu vatni. Það lýsir kannski best gæfu okkar sem þjóðar en hreint vatn eru grundvallarmannréttindi sem mikilvægt er að vernda hvar sem er í heiminum, líka hérlendis. Verndun vatns er samvinnuverkefni sem gengur þvert á stofnanir og stjórnvöld en einnig er mikilvægt að vinna með hagsmunaaðilum og almenningi öllum til að við náum markmiðum okkar um gott ástand vatns á Íslandi. Ég vil því hvetja ykkur öll til að kynna ykkur fyrstu vatnaáætlun Íslands á heimasíðu Umhverfisstofnunar, vatn.is, og senda inn athugasemdir og ábendingar fyrir 15. júní næstkomandi.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.