Ein stærsta breytingin á samsetningu samfélagsins næstu árin er fólgin í því að íslenska þjóðin er að eldast. Gangi mannfjöldaspá Hagstofu Íslands eftir, verður 20% mannfjöldans eldri en 65 ára fyrir árið 2040 og 25% fyrir 2060.
Það fer sem betur fer saman að á sama tíma og við verðum eldri, þá erum við almennt líka sprækari lengur fram á efri ár en áður. Það er auðvitað ekki algilt og við megum ekki gleyma þeim sem hafa unnið erfiðis- og álagsstörf á langri starfsævi, sem meðal annars á við um stórar kvennastéttir. En við þurfum breyttar áherslur í þjónustu við eldra fólk, þar sem horft er til heilsueflandi og styðjandi samfélags. Stjórnvöld vilja marka skýra framtíðarsýn og heildarstefnu, þar sem meðal annars er lögð áhersla á að skipuleggja þjónustuna þannig að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru. Skýrt sé hver ber ábyrgð á ákveðnum þjónustuþáttum og veitt sé markviss þjónusta sem byggist á faglegu mati á þörfum hvers og eins.
Í þessari viku skrifuðu stjórnvöld, Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband eldri borgara undir viljayfirlýsingu, þess efnis að ráðast í heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Þá höfum við heilbrigðisráðherra skipað verkefnastjórn með fulltrúum þessara aðila sem ætlað er að vinna aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem lögð verði fram á Alþingi vorið 2023. Í framhaldi af því skal verkefnastjórnin vinna skipulega að innleiðingu og framkvæmd áætlunarinnar, m.a. með tillögum um þær breytingar á lögum og reglugerðum sem þarf að ráðast í til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram.
Meira sjálfstæði og lengri tími heima
Í starfi verkefnisstjórnar verður lögð áhersla á heildstæða og samþætta stuðnings- og heilbrigðisþjónustu í heimahúsum, þátttöku og virkni aldraðra og að efla lýðheilsu og forvarnir. Leggja þarf áherslu á heilsueflingu eldra fólks, virkniþjálfun, félagslegan stuðning og skimun til að vinna gegn einmanaleika, félagslegri einangrun, kvíða og þunglyndi. Þörf er á heildstæðri og samþættri endurhæfingu og viðhaldsendurhæfingu, sem og auknum sveigjanleika í þjónustu á borð við dagþjálfun. Þá felast mikil tækifæri í betri nýtingu á fjölbreyttri velferðartækni sem og samhæfingu innan og á milli þjónustukerfa til að bæta þjónustu við notendur velferðarþjónustunnar. Ávinningurinn felst í auknum lífsgæðum og sjálfstæði notendanna, hagkvæmni, endurskoðun á lausnum og framkvæmd, og minni sóun á tíma og mannafla.
Ráðuneytin, sveitarfélögin og hagsmunaaðilar leiða nú saman hesta sína og horfa saman heildstætt á verkefnið, að samþætta þjónustu þvert á velferðar- og heilbrigðiskerfi. Ánægjulegt er að fara í þessar breytingar, því það er til svo mikils að vinna fyrir stóran hóp Íslendinga í dag og fyrir okkur öll á lífsleiðinni. Eldra fólk er fjölbreyttur hópur sem gefur mikið til samfélagsins og hefur mismunandi þjónustuþarfir. Við eigum að mæta fólki þar sem það er, á þess eigin forsendum. Þannig bætum við þjónustuna um leið og við gerum fólki kleift að taka lengur virkan þátt í samfélaginu. Það er mér ákaflega dýrmætt að geta stuðlað að þessu og bind ég miklar vonir við þetta verkefni.