Search
Close this search box.

Betri þjónusta við eldra fólk

Deildu 

Ein stærsta breyt­ing­in á sam­setn­ingu sam­fé­lags­ins næstu árin er fólg­in í því að ís­lenska þjóðin er að eld­ast. Gangi mann­fjölda­spá Hag­stofu Íslands eft­ir, verður 20% mann­fjöld­ans eldri en 65 ára fyr­ir árið 2040 og 25% fyr­ir 2060.

Það fer sem bet­ur fer sam­an að á sama tíma og við verðum eldri, þá erum við al­mennt líka spræk­ari leng­ur fram á efri ár en áður. Það er auðvitað ekki al­gilt og við meg­um ekki gleyma þeim sem hafa unnið erfiðis- og álags­störf á langri starfsævi, sem meðal ann­ars á við um stór­ar kvenna­stétt­ir. En við þurf­um breytt­ar áhersl­ur í þjón­ustu við eldra fólk, þar sem horft er til heilsu­efl­andi og styðjandi sam­fé­lags. Stjórn­völd vilja marka skýra framtíðar­sýn og heild­ar­stefnu, þar sem meðal ann­ars er lögð áhersla á að skipu­leggja þjón­ust­una þannig að eitt þjón­ustu­stig taki hnökra­laust við af öðru. Skýrt sé hver ber ábyrgð á ákveðnum þjón­ustuþátt­um og veitt sé mark­viss þjón­usta sem bygg­ist á fag­legu mati á þörf­um hvers og eins.

Í þess­ari viku skrifuðu stjórn­völd, Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga og Lands­sam­band eldri borg­ara und­ir vilja­yf­ir­lýs­ingu, þess efn­is að ráðast í heild­ar­end­ur­skoðun á þjón­ustu við eldra fólk. Þá höf­um við heil­brigðisráðherra skipað verk­efna­stjórn með full­trú­um þess­ara aðila sem ætlað er að vinna aðgerðaáætl­un til fjög­urra ára sem lögð verði fram á Alþingi vorið 2023. Í fram­haldi af því skal verk­efna­stjórn­in vinna skipu­lega að inn­leiðingu og fram­kvæmd áætl­un­ar­inn­ar, m.a. með til­lög­um um þær breyt­ing­ar á lög­um og reglu­gerðum sem þarf að ráðast í til að ná fram þeim mark­miðum sem sett eru fram.

Meira sjálf­stæði og lengri tími heima

Í starfi verk­efn­is­stjórn­ar verður lögð áhersla á heild­stæða og samþætta stuðnings- og heil­brigðisþjón­ustu í heima­hús­um, þátt­töku og virkni aldraðra og að efla lýðheilsu og for­varn­ir. Leggja þarf áherslu á heilsu­efl­ingu eldra fólks, virkniþjálf­un, fé­lags­leg­an stuðning og skimun til að vinna gegn ein­mana­leika, fé­lags­legri ein­angr­un, kvíða og þung­lyndi. Þörf er á heild­stæðri og samþættri end­ur­hæf­ingu og viðhald­send­ur­hæf­ingu, sem og aukn­um sveigj­an­leika í þjón­ustu á borð við dagþjálf­un. Þá fel­ast mik­il tæki­færi í betri nýt­ingu á fjöl­breyttri vel­ferðar­tækni sem og sam­hæf­ingu inn­an og á milli þjón­ustu­kerfa til að bæta þjón­ustu við not­end­ur vel­ferðarþjón­ust­unn­ar. Ávinn­ing­ur­inn felst í aukn­um lífs­gæðum og sjálf­stæði not­end­anna, hag­kvæmni, end­ur­skoðun á lausn­um og fram­kvæmd, og minni sóun á tíma og mannafla.

Ráðuneyt­in, sveit­ar­fé­lög­in og hags­munaaðilar leiða nú sam­an hesta sína og horfa sam­an heild­stætt á verk­efnið, að samþætta þjón­ustu þvert á vel­ferðar- og heil­brigðis­kerfi. Ánægju­legt er að fara í þess­ar breyt­ing­ar, því það er til svo mik­ils að vinna fyr­ir stór­an hóp Íslend­inga í dag og fyr­ir okk­ur öll á lífs­leiðinni. Eldra fólk er fjöl­breytt­ur hóp­ur sem gef­ur mikið til sam­fé­lags­ins og hef­ur mis­mun­andi þjón­ustuþarf­ir. Við eig­um að mæta fólki þar sem það er, á þess eig­in for­send­um. Þannig bæt­um við þjón­ust­una um leið og við ger­um fólki kleift að taka leng­ur virk­an þátt í sam­fé­lag­inu. Það er mér ákaf­lega dýr­mætt að geta stuðlað að þessu og bind ég mikl­ar von­ir við þetta verk­efni.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search