Search
Close this search box.

Blikastaðir

Deildu 

Árið 2005 tók ég blaðaviðtal við Sigstein Pálsson sem var síðasti bóndinn á Blikastöðum, hann var þá tíræður en enn mjög ern. Í viðtalinu kemur fram að þess yrði ekki langt að bíða að íbúðabyggð risi á Blikastaðatúnum.
Síðan eru liðin 17 ár og Blikastaðaland hefur verið eins og óbyggð eyja milli Reykjavíkur og þéttbýlisins vestast í Mosfellsbæ. Á sama tíma hefur ríkt mikill lóða- og húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu. Það er þess vegna mikið fagnaðarefni að nú sjái til lands og uppbygging hefjist á þessum slóðum.

Stórfelld uppbygging
Á síðustu misserum hafa rýnihópar verið að störfum, meðal annars til að skilgreina þá miklu innviðauppbyggingu sem er nauðsynleg á Blikastöðum, samfara þéttri íbúðabyggð þar. Einnig hófust viðræður milli Mosfellsbæjar og Arion banka sem er eigandi landsins. Eftir langar og strangar viðræður var viðamikill samningur um stórfellda uppbyggingu á Blikastöðum samþykktur á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 4. maí síðastliðinn.
Blikastaðaland verður byggt upp í áföngum á næstu áratugum og fram undan er mikil skipulagsvinna hjá Mosfellsbæ vegna þessa viðamikla verkefnis. Gert er ráð fyrir fjölbreyttri og blandaðri íbúabyggð, íþróttamannvirkjum, skólabyggingum og öðru sem fjölmenn íbúabyggð kallar á.
Uppbygging á Blikastöðum mun draga úr lóðaskorti á höfuðborgarsvæðinu og flýta því að Borgarlínan verði lögð upp í Mosfellsbæ.
Samkvæmt samningnum mun Arion banki leggja fram verulega fjármuni til uppbyggingar á innviðum, þar er m.a. um að ræða gatnagerð og skóla- og íþróttamannvirki.
Að þessu leyti er samningurinn einsdæmi, það er einnig fátítt að svo stórt íbúasvæði sé skipulagt frá grunni, í því felast mörg spennandi tækifæri.

Kennileiti
Náttúruperlur og útivistarsvæði eru í seilingarfjarlægð frá Blikastaðalandi, til dæmis Úlfarsfell, Úlfarsá og Leiruvogur. Á síðustu öld var eitt stærsta kúabú landsins á Blikastöðum, þar voru allt að hundrað nautgripir þegar mest lét. Útihúsin standa enn, þau verða endurgerð, þeim fengið nýtt hlutverk og munu mynda „hjartað“ í þeirri íbúabyggð sem rís á Blikastaðalandi.
Í áðurnefndu blaðaviðtali við Sigstein Pálsson var hann spurður að því hvernig honum litist á að byggja á þessari gömlu bújörð, hann svaraði með þessu orðum: „Mér líst bara vel á það. Þetta er þróunin og mér hefur alltaf þótt gaman að fylgjast með framkvæmdum og framförum hér í sveitarfélaginu.
Það verður gott að byggja á Blikastaðatúnum. Þar fauk aldrei hey og fólki kemur til með að líða vel þarna.“

Bjarki Bjarnason, skipar 1. sæti V-listans í kosningunum 14. maí.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search