PO
EN
Search
Close this search box.

Blómleg menning um allt land

Deildu 

Það er á tímum eins og þeim sem við lifum núna sem við finnum sérstaklega fyrir því hvað menning og listir eru okkur mikilvægar. Við höfum svo sannarlega notið þess að okkar frábæra listafólk hefur lagt sitt af mörkum til að hjálpa okkur að þrauka og glatt okkur á ótal vegu.

Bækur, tónlist, sjónvarpsþættir og kvikmyndir veittu mörgum okkar félagsskap í samkomutakmörkunum og undirritaðar voru hluti þeirra fjölmörgu sem söknuðu safna og því að geta komið saman og notið ýmiskonar menningarviðburða; enda eru listir mikilvægar og algengasta aðferðin við að næra andann og skapa um leið verðmæti sem ekki verða metin til fjár.

Því var afar mikilvægt að framlög voru aukin í sjóði á sviði lista og skapandi greina í fjárfestingarátaki stjórnvalda og tryggt að þau sem starfa í skapandi greinum geti nýtt sér tekjufallsstyrki. Hlutverk stjórnvalda er einmitt að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði ásamt því að vernda íslenska tungu og sjá til þess að rannsóknum og miðlun menningararfs sé viðhaldið; enda menning samofin mannfólkinu og í henni endurspeglast gjarnan áherslur, áhugamál og styrkleikar samfélaganna. Fjölbreytt menningarstarfsemi er einnig gríðarlega mikilvæg þegar kemur að menntun, þjónustu og atvinnulífi og getur haft víðtæk efnahagsleg áhrif, til dæmis hvað varðar ferðaþjónustu og verslun.

Eflum sérkenni byggða

Árið 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu Katrínar Jakobsdóttur, þá mennta- og menningarmálaráðherra, um menningarstefnu á sviði lista og menningararfs. Stefnan grundvallast á fjórum þáttum; sköpun og þátttöku í menningarlífi, áherslu á gott aðgengi að listum og menningararfi, mikilvægi samvinnu stjórnvalda við aðila sem starfa á sviði menningar og mikilvægi þátttöku barna og ungmenna í menningarlífi.

Sóknaráætlanir landshlutanna eru eitt tæki sem hinar dreifðu byggðir hafa til fjármögnunar og að treysta stoðir menningar í anda stefnunnar. Það er í mörg horn að líta og mikilvægt að fjárstuðningur komi til enda margar byggðir strjálar en um leið mikilvægar þegar kemur að menningararfi og sögu þjóðar. Með slíkum stuðningi skapast tækifæri til að efla upplifanir, afþreyingu, þjónustu og verslun í heimabyggð fyrir íbúa á öllum aldri.

Menningarlífið er víða blómlegt, söfn og jafnvel veitingastaðir draga fram sérkenni samfélaga og stuðla að menningarviðburðum og listasýningum. Margt af þessu er að frumkvæði einstaklinga eða hópa sem vilja lyfta sínu byggðarlagi, stuðla að samveru og sýna stuðning við listafólk. Þá eru minni og stærri tónleikahús nýtt í fjölbreyttum tilgangi og mörg sveitarfélög reka byggða-, bóka- og listasöfn svo dæmi séu tekin.

Svigrúm til að hafa áhrif

Með vaxandi tækniþróun má sjá fyrir sér öra og breytta þróun á sviði lista og menningar, enn frekari uppbyggingu á því sviði og frekari möguleika þegar kemur að því fyrir öll að upplifa og njóta óháð stað og stund. Því verður seint ofsagt að styðja þurfi enn frekar við menningarlíf um allt land, efla það sem fyrir er og gefa nýsköpun í menningu og miðlun og nýju fólki svigrúm til að setja sitt mark á samfélagið.

Verkefnið næstu misserin er að finna út hvernig hinar sterku listastofnanir og öll þau sem styðja við listir og menningu geta best hjálpað til við að skapa tækifæri fyrir listafólk. Það er verkefni sem kallar á samvinnu margra aðila.

Það allra mikilvægasta er að hlusta á grasrót lista og tryggja að hún fái súrefni til þess að dafna – því án grasrótarinnar visnar það sem ofan á hana er byggt.

Við erum menningarþjóð sem er ótal margt til lista lagt. Við eigum að vera stolt af því og halda ótrauð áfram við að efla menningu byggða um allt land.

Höfundar eru oddvitar Vinstri grænna í Suður- og Norðausturkjördæmi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search