Search
Close this search box.

Bólusett með tengsl við Ísland í sýnatöku á landamærum

Deildu 

Sóttvarnarreglur á landamærum hafa tekið breytingum í takt við þróun heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Frá og með 1. júlí síðastliðnum var sýnatökum hætt hjá þeim sem framvísuðu gildum vottorðum um bólusetningu með bóluefnum sem Lyfjastofnun Evrópu og/eða WHO hafa viðurkennt, og hjá börnum fæddum 2005 eða síðar. Þessi sami hópur þurfti ekki heldur að framvísa neikvæðu PCR-prófi við komuna til landsins. Þetta var ákveðið í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Áfram þurftu þau sem ekki gátu framvísað gildum vottorðum um bólusetningu gegn Covid-19 eða fyrri sýkingu að framvísa neikvæðu PCR-vottorði við byrðingu og á landamærum, undirgangast skimun með PCR-prófi við komu til landsins og dvelja í sóttkví í 5 daga og undirgangast seinni skimun.Frá og með 27. júlí var sóttvarnareglum á landamærum breytt, þar sem fjöldi smita hafði borist hingað til lands yfir landamærin, einkum með fullbólusettum einstaklingum. Þessi smit urðu þess valdandi að ný bylgja faraldurs Covid-19 hófst innanlands. Til þess að bregðast við þessari stöðu var ákveðið í samræmi við ráðgjöf sóttvarnalæknis að allir bólusettir einstaklingar eða þau sem höfðu staðfesta fyrri sýkingu og kæmu til Íslands þyrftu að framvísa ekki eldra en 72 klst. gömlu neikvæðu Covid-prófi við byrðingu erlendis. Eins og áður þurftu óbólusettir einstaklingar að framvísa PCR-vottorðum sem væru ekki eldri en 72 klst. gömul, auk þessað fara í tvær PCR-skimanir með 5 daga sóttkví á milli skimana.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í gær, 7. ágúst, var svo ákveðið að gera þær breytingar, að tillögu sóttvarnalæknis, að bólusettir farþegar með tengsl við Ísland munu þurfa, frá og með 16. ágúst, að fara í sýnatöku innan 48 klukkustunda frá komu til landsins. Þau sem teljast með tengsl við Ísland eru íslenskir ríkisborgarar, fólk með búsetu á Íslandi, fólk með atvinnuleyfi á Íslandi og umsækjendur um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi. Áfram verður gerð krafa um framvísun neikvæðs COVID-prófs á landamærum en tvöföld sýnataka með nokkurra daga millibili hefur reynst vel í faraldrinum. Þessi sýnataka verður gjaldfrjáls.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis hafa um 90% þeirra einstaklinga sem greinst hafa með Covid-19 frá 1. júlí íslenska kennitölu. Mikilvægt er að tryggja varnir gegn nýjum afbrigðum veirunnar og því er þessi ákvörðun tekin. Áfram verður gerð krafa um framvísun neikvæðs Covid-prófs á landamærum en tvöföld sýnataka með nokkurra daga millibili hefur reynst vel í faraldrinum.

Eftir sem áður tökum við í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir ákvarðanir um viðbrögð við Covid-19-faraldrinum í samræmi við bestu mögulegu þekkingu og rannsóknir. Þannig hefur okkur gengið best og þannig munum við vinna áfram.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search