Þegar við stöndum frammi fyrir vandamálum sem flækja líf okkar reynum við auðvitað fyrst og fremst að leysa þau. Við sem höfum eytt dýrmætum tíma norpandi á stoppistöðvum, föst í umferðinni og á þeytingi á háannatímum, vitum að við þetta ástand verður ekki unað til framtíðar. Umferðarhnútinn verður að leysa!
Sem betur fer er Borgarlínan komin á fleygiferð með þéttari byggð og betra skipulagi. Sífellt fleiri sjá að kerfi sem byggir á öflugum, tíðum og hraðvirkum hágæða almenningssamgöngum í sérrými er sú lausn sem við eigum að reiða okkur á frekar en fleiri mislæg gatnamót og akvegir.
Það var því sérlega ánægjulegt að þverpólitísk samstaða sex sveitarfélaga og ríkisins hafi náðst um þetta mikla hagsmunamál íbúa höfuðborgarsvæðisins og að fyrsti áfangi Borgarlínunnar færist af teikniborðinu og til framkvæmdar eftir áramót.En hvert ætti næsta stóra verkefni ríkisins og höfuðborgarinnar að vera?
Í ljósi loftslagsbreytinga og þeirra brýnu verkefna sem sveitarfélögin fá í fangið af þeim sökum tel ég að frekari samvinna skili okkur besta árangrinum. Því ætti næsta stóra samvinnuverkefni okkar að vera róttækar breytingar á fyrirkomulagi samgöngumála á Íslandi öllu.
Sú hugmynd hefur áður verið viðruð en svo að hún megi ná fram að ganga þurfum við víðtæka sátt um að virkir ferðamátar og vistvænar samgöngur séu rétta leiðin og ryðja í burtu hindrunum sem standa í veginum.
Fyrst af öllu þurfum við því að stokka upp núverandi fyrirkomulag og stofna Samgöngustofu höfuðborgarsvæðisins, sem væri í umsjón sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, og Samgöngustofu Íslands sem væri sameinuð Vegagerð og Samgöngustofa. Þótt báðum einingum væri ætlað að þjónusta alla ferðamáta yrðu hlutverk þeirra og áherslur ólíkar.
Samgöngustofa höfuðborgarsvæðisins hefði til dæmis það að markmiði að fækka eknum kílómetrum, draga úr umferð, stórauka hlutdeild virkra ferðamáta og byggja upp samkeppnishæft samgöngukerfi.
Það er nefnilega komið að tímamótum í þróun samgangna á Íslandi og allar stórhuga umbætur skila okkur ómetanlegum lífs- og umhverfisgæðum, betri heilsu og heilnæmu umhverfi.
Það er staðreynd að með þéttingu byggðar, skilvirku samgöngukerfi og þjónustu í göngufæri lækka útgjöld heimila og sveitarfélaga og það er hagsmunamál allra landsmanna.
Höfundur: Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG