EN
PO
Search
Close this search box.

Borgarnes – höfuðstaður Borgarbyggðar og Vesturlands

Deildu 

Vinstri græn í Borgarbyggð leggja áherslu á sterkari byggð í öllu sveitarfélaginu. Samhliða uppbyggingu í dreifbýlinu er lykilatriði að styrkja höfuðstaðinn okkar, Borgarnes. Borgarnes er nú þegar miðstöð þjónustu og verslunar fyrir stór svæði á Vesturlandi og víðar, en framundan eru stór verkefni sem miða að því að gera bæinn að aðlaðandi búsetukosti.

Blómleg byggð handan Borgarvogs

Nú þegar eru uppi áform um stóra íbúabyggð handan Borgarvogs. Vinstri græn telja þann kost skynsamlegan til uppbyggingar þó mikilvægt sé að hún fari fram í sátt við umhverfið og að haldið verði í náttúrulegt landslag eftir fremsta megni. Mikilvægt er að vanda til verka við skipulagningu svæðisins, ljúka verkinu í áföngum og sjá til þess að innviðir verði reistir meðfram byggingu íbúðarhúsnæðis. Innan byggðarinnar verði einnig atvinnu- og þjónustusvæði til að stuðla að vistvænni ferðamáta í anda hugmyndarinnar um 15 mínútna hverfið. Að því sögðu verður þetta nýja hverfi í fallegu umhverfi, umlukið náttúru með óteljandi útivistarmöguleika. Byggðin verður því að taka mið af því að henta bæði fjölskyldufólki og einstaklingum með húsnæði á viðráðanlegu verði. Þá viljum við að áfram verði haldið með uppbyggingu göngu- og hjólastíga víðsvegar um sveitarfélagið, og því er mikilvægt að gert verði ráð fyrir þeim samgöngukosti við hönnun hins nýja hverfis handan Borgarvogs. 

Nýtum tækifærin í Brákarey

Við viljum nýta tækifærin í Brákarey, enda er þar um að ræða mikla náttúruperlu og uppbygging þar gæti átt þátt í því að gera gamla bæinn mun skemmtilegri og að hentugri stað fyrir ferðaþjónustu. Nú þegar hefur verið ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um hvernig best sé að nýta svæðið en í umræðunni hefur verið tíðrætt að þar geti verið blönduð byggð með léttum iðnaði, verslunum og ferðaþjónustu. Hvernig útfærslan verður nákvæmlega, hvort íbúabyggð komi til greina eða hvort farið verði í annars konar uppbyggingu veltur á hugmyndasamkeppninni og samráði við íbúa, en í öllu falli er um að ræða gríðarlega spennandi tækifæri til uppbyggingar í Borgarnesi. Mikilvægt er að íbúar hafi aðkomu að ákvörðun um framtíð svæðisins og auk þess verður að nýta þekkingu heimamanna á eyjunni. Ef rétt er staðið að málum getur eyjan orðið eitt helsta aðdráttarafl Borgarbyggðar. 

Aukum umferðaröryggi og búum til alvöru miðbæ

Miðað við alla þessa uppbyggingu sem er í kortunum teljum við í Vinstri grænum mikilvægt að þjóðvegurinn verði færður á fyllingu út fyrir Borgarnes, en þó með aðrein sem mun tryggja að ferðalangar sem eiga leið hjá geti með auðveldum hætti stoppað og sótt þjónustu og verslun. Verði búið svo um hnútana að aðgengi af þjóðveginum inn í bæinn sé greitt ætti breytingin ekki að hafa áhrif á þann fjölda sem stoppar og birgir sig upp til ferðalaga í verslunum í bænum. Með færslu þjóðvegarins gefst einnig tækifæri til uppbyggingar miðbæjar í Borgarnesi sem bæði eykur lífsgæði heimamanna og er aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Fari þjóðvegurinn út fyrir bæinn gefst einnig tækifæri á aukinni þéttingu byggðar innan Borgarness. Þá mun umferðaröryggi aukast innanbæjar, sem er lykilatriði í því að byggja betra og mannvænna samfélag. 

Eflum Borgarbyggð á alla kanta

Til þess að búa til öflugri Borgarbyggð þarf öflugra Borgarnes, sem getur betur þjónað dreifbýlinu og staðið undir nafni sem þjónustumiðstöð Borgarbyggðar og Vesturlands alls. Samhliða þessu viljum við styrkja dreifbýlið í kringum Borgarnes með því að efla innviði,

fjölga tækifærum og byggja upp. Við bjóðum upp á skýra sýn fyrir Borgarbyggð alla, fólkið, náttúruna og samfélagið.

Thelma Harðardóttir, oddviti Vinstri grænna í Borgarbyggð

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search