Search
Close this search box.

Borubrattir Braggar og stjórnlausir Borgfirðingar

Deildu 

Fulltrúi framsóknarflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar fór mikinn á dögunum í grein sem hann kallaði „Braggamál í Borgarbyggð“ þar gagnrýnir hann háan kostnað við hönnun á tveimur skólalóðum sem sveitarfélagið stendur fyrir nýbyggingu og endurbótum á. Gekk hann svo langt að tala um óstjórn og verið væri að slá ryki í augu íbúa. Ein leið til þess að slá ryki í augu íbúa er að setja fram í grein sem þessari samanburð og fullyrðingar sem ekki standast skoðun. Hann birti svo aðra grein í kjölfarið „Stjórnleysi í framkvæmdum“ þar sem farið var í álíka villandi umræðu um framkvæmdir við Grunnskóla Borgarnes og velur þar að skauta fram hjá mörgum staðreyndum á þeirri vegferð. Hann byrjar reyndar á því að leiðrétta hluta af þeim staðreyndarvillum sem hann hélt fram í fyrri grein sinni en telur undirrituð rétt að leiðrétta nokkur atriði til viðbótar en ekki verður listinn þó tæmandi í einni grein.

Berum saman epli og appelsínur

Viðbygging og endurbætur á Grunnskólanum í Borgarnesi er gríðarlega metnaðarfullt og mikilvægt verkefni sem hefur heppnast einstaklega vel.

Vissulega er rétt að hönnun og þarfagreining hefði þurft að vera ítarlegri í upphafi og þess vegna var fenginn eftirlitsaðili að verkefninu sem kostaði að sjálfsögðu sitt en mun betri yfirsýn náðist að sama skapi. Þess ber þó að geta að þegar það verk fór af stað á síðasta kjörtímabili voru einmitt framsóknarmenn í meirihluta, þó greinahöfundur sjálfur hafi ekki verið í sveitastjórn á þeim tima. Í upphafi var ákveðið að fara í nauðsynlegt viðhaldi á hluta skólans og nýbyggingu á matsal og samkomusal. Upphafleg áætlun gerði þó engan vegin ráð fyrir því mikla viðhaldi sem kom í ljós við framkvæmdir að þurfti að bregðast við. Verkið í raun stökkbreyttist frá upphaflegum áætlunum en það er trú mín þá og nú að réttar ákvarðanir hafi verið teknar þegar ákveðið var að ráðast á myglu, ónýtt þak, ólöglega einangrun og loftræstingu sem hafði sungið sitt síðasta. Það hafði gleymst að gera ráð fyrir tækjum í eldhúsið og húsbúnaði í matsalinn og varðar framanrakið allt ákvarðanir sem teknar voru eftir að upphaflega áætlunin var sett fram. Það sem eftir situr er að hönnun og eftirlit var stór þáttur sem kostaði sitt og á eftir að yfirfara með eftirlitsaðila og hönnuði. Þetta veit greinarhöfundur vel en velur að greina ekki frá því.

Þá að lóðinni…

Hönnun á lóð Grunnskólans í Borgarnesi var einnig metnaðarfull og var að miklu leyti unnin í samráði við nemendur og starfsfólk skólans. Nemendur voru fengnir til að kortleggja núverandi notkun sína á skólalóðinni og tjá hugmyndir sínar um hvers kyns skólalóð samræmdist helst þeirra áhugamálum og þörfum. Ljóst var að endanleg niðurstaða úr þeirri vinnu var ívið of metnaðarfullt og þurfti byggingarnefnd að fara í að skala verkefnið niður og áfangaskipta því til að minnka kostnað við lóðina. Hugmyndin var samt sem áður eiga teikningar af heildarhönnun, sem væri svo hægt að framkvæma samkvæmt á næstu árum og smá betrumbæta þá lóðina. Þó að öll lóðin hafi verið hönnuð, hafi einungis verið ákveðið að framkvæma fyrsta og annan hluta hennar og því hafi framkvæmdin verið mun ódýrari en teikningar gerðu ráð fyrir. Því er ekki samanburðarhæft að nota kostnað við hönnun á heildarlóðinni sem einhverskonar hlutafall af kostnaði við raunverulegar framkvæmdir. Það gefi einfaldlega ranga mynd.

Gera þurfti ákveðnar breytingar vegna þessa. Höfundur greinarinnar talar um framúrkeyrslu á framúrkeyrslu ofan og tekur þetta sem dæmi en ekki er um framúrkeyrslu að ræða þó breytingar á hönnun og áfangaskipting hafi gert hönnun kostnaðarsamari.

Frumhönnun og fullnaðarhönnun ekki sami hluturinn

Þegar kemur að framkvæmdinni á Kleppjárnsreykjum kom í ljós að greinarhöfundur virtist ekki hafa lesið önnur ákvæði samningsins um hönnun á skólalóð á Kleppjárnsreykjum en það sem snýr að upphæðinni. Í 4. gr. samningsins kemur fram að um var að ræða forhönnun bæði leik- og grunnskólalóðar ásamt frumkostnaðarmati. Einhver virðist þó hafa bent greinarhöfundi á þessa rangfærslu sem hann hafði þó fyrir að leiðrétta. Þá fjallar sá samningur sem greinarhöfundur lagði til grundvallar ályktunum sínum ekki einu sinni um heildarhönnunarkostnað leikskólalóðar heldur frumhönnun lóðarinnar.

Svo við rýnum aðeins nánar ofan í þá rangfærslu. Tímafjöldi í samningi um hönnun á leik- og grunnskólalóð Kleppjárnsreykja ætlaður í frumhönnun og kostnaðarmat: var 150 klst, en um er að ræða tvær lóðir- bæði leik og grunnskóla ásamt nærumhverfi stofnananna og spannar það yfir 2ha svæði. Það sér það hver maður að 2 milljónir króna myndu aldrei duga fyrir slíku verkefni þar sem mikil vinna liggur að baki fullnaðarhönnun á svo stóru verki, þrátt fyrir að greinarhöfundur reyni að gera lítið úr þessari vinnu með því að kalla hana bara teikningar á blaði. Mikið af fagteikningum þurfa að liggja til grundvallar svo slík verk uppfylli lögbundin skilyrði og að öryggi og velferð þeirra barna sem koma til með að nota lóðina séu höfð í fyrirúmi.

Notum réttar tölu til samanburðar

Svo er það samanburðurinn. Höfundur fer mikinn í því að bera saman kostnað við hönnun á skólalóðum og framkvæmd Reykjavíkurborgar við endurbætur á Bragganum í Nauthólsvík og talar um að hönnun á skólalóðum í Borgarbyggð hafi farið meira fram úr í prósentum talið en fyrrnefnd framkvæmd í Reykjavík. Hann kýs að taka ekki fram við hvaða kostnaðaráætlanir hann er að miða. Sennilega frumkostanaðaráætlanir og grunntímafjölda en eins og rakið var hér að ofan og eru eins og flestir vita, ekki eitthvað sem gert er ráð fyrir að endurspegli endanlegan kostnað við hönnun. Þetta er því með öllu fráleitur samanburður.

Að kasta grjóti úr glerhúsi

Síðasta og kannski alvarlegasta villan er svo sennilega sú að halda því fram að meirihluti sveitarstjórnar ætli sér ekki að taka alvarlega þá stöðu sem komin er upp í fjármálum sveitarfélagsins vegna heimsfaraldursins. Að ekki standi til að sýna aðhaldi í rekstri né skynsemi í framkvæmdum. Þetta birtir hann áður en lögð er fram fjárhags- og framkvæmdaráætlun og áður en vinnufundur sveitarstjórnar um sömu áætlanir var haldinn. Á þeim fundi kom einmitt fram að allra leiða verði leitað til að gæta aðhalds og fara skynsamlega með fjármuni. Að á næsta ári verði fyrst og fremst áherslan lögð á að lokið við þær framkvæmdir sem nú eru í gangi og að hefja undirbúning fyrir næstu framkvæmdir á skólahúsnæði og íþróttamannvirkjum. Þá leggur meirihluti sveitarstjórnar upp með að skila rekstri sveitarfélagsins nokkurn veginn í jafnvægi, sem er mjög jákvætt í ljósi þess að hafa verið að glíma við eitt mesta tekjufall fyrri og síðari tíma í kjölfar Covid 19 heimsfaraldurs.

Verkferlar og úttektir

Greinahöfundur miklar líka fyrir sér úttektir sem hafa verið í gangi og gerð verkferla. Við erum svo sannarlega búin að standa í heilmiklum úttektum til þess að styrkja stjórnsýsluna og erum stolt af því. Með þeim fáum við mikilvæga yfirsýn yfir verkefnin og þá verkferla sem til eru en ekki síður hverja vantar og hvar úrbóta er þörf. Með þessari gríðarmiklu vinnu er ætlunin að gera stjórnsýsluna skilvirkari, auka stafræna þjónustu, fagþekkingu og setja orkuna þar sem hennar er þörf. Við náum heildarsýn, verðum vandvirkari og allir róa bátnum í sömu átt. Þá er fullt tilefni til að benda á það að fulltrúar framsóknarflokks eiga fulltrúa í öllum fasta- og byggingarnefndum sveitarfélagsins og greinarhöfundur er fullmeðvitaður um öll þau atriði sem fram koma í þessum skrifum en kýs að segja aðeins hálfa söguna í ritverkum sínum.

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir

Höfundur er formaður byggðaráðs Borgarbyggðar

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search