Frumvarpið er liður í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við athugasemdum sem umboðsmaður Alþingis gerði í kjölfar eftirlitsheimsóknar hans á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítala á Kleppi í október 2018. Eftirlitsheimsóknin fór fram á grundvelli svonefnds OPCAT-eftirlits sem felst í óháðum eftirlitsheimsóknum umboðsmanns á staði þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja. Í skýrslu umboðsmanns vegna heimsóknarinnar kemur fram að verulega skorti á fullnægjandi heimildir og umbúnað í núgildandi lögum vegna þeirra inngripa, þvingana og valdbeitingar sem stjórnendur lokaðra deilda á geðsviði Landspítalans telja nauðsynlegt að geta viðhaft gagnvart þeim sjúklingum sem þar dvelja.
Með frumvarpinu er ekki ætlunin að auka heimildir til þvingunar né inngripa á heilbrigðisstofnunum miðað við gildandi framkvæmd, heldur einungis að tryggja fullnægjandi lagaheimildir fyrir þeim inngripum sem talið er nauðsynlegt að beita í undantekningartilvikum ásamt því að tryggja réttindi sjúklinga, s.s. með rétti til endurskoðunar ákvarðana og eftirliti með beitingu þvingana.