Nýlega birtist í samráðsgátt stjórnvalda áform um breytingar á veiðistjórnun grásleppu. Málið hefur verið til skoðunar í mínu ráðuneyti síðustu mánuði. Síðastliðið vor beindi atvinnuveganefnd því til ráðuneytisins að leita leiða til að gera stjórnun grásleppuveiða markvissari. Niðurstaðan mín er að leggja fram mál á Alþingi sem hlutdeildarsetur grásleppu með takmörkunum á framsali milli svæða, sérstökum nýliðunarstuðningi og lágu þaki á hámarksaflahlutdeild.
Núverandi kerfi hefur verið gagnrýnt
Ástæður þess að atvinnuveganefnd hefur talið að gera þurfi umbætur á veiðistjórnun grásleppu geta verið margvíslegar. Undanfarin ár hefur veiðistjórnun grásleppu verið gagnrýnd fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg fyrir sjómennina sem veiðarnar stunda. Þannig hefur verið bent á að veður, bilanir og veikindi geta ónýtt tækifæri sjómanna til að stunda veiðarnar. Til dæmis má nefna að um leið og grásleppusjómaður leggur netin byrja dagarnir að telja niður sem hann hefur til að veiða skv. leyfi sínu. Ef að svo gerir vont veður þannig að nauðsynlegt er að taka upp netin tapar hann því þeim dögum alfarið.
Þá hefur einnig verið gagnrýnt að meðafli við þessar veiðar hefur í sumum tilfellum verið mikill og leita þurfi leiða til að takmarka hann. Meðaflinn getur verið sjávarspendýr, fuglar og aðrir nytjafiskar, s.s. þorskur. Þó að ekki sé hægt að fullyrða um að hlutdeildarsetning hafi áhrif má þó leiða að því líkur að sveigjanleiki um það hvenær veiðarnar eru stundaðar geri sjómönnum kleift að bregðast við aðstæðum á hverjum stað. Til dæmis ef mikið kemur af meðafla við upphaf veiða, þá væri hægt að taka upp netin og bíða færis án þess að það drægi úr tekjumöguleikum hvers og eins.
Mikilvægt að róa fyrir víkur
Til þess að hlutdeildarsetning þessa nytjastofns sé forsvaranleg tel ég grundvallaratriði að framsal aflahlutdeildar milli svæða sé takmörkuð. Þannig sé komið í veg fyrir að heimildir til veiða fari brott frá svæðum þar sem veiðarnar eru stundaðar í dag. Þetta er mikilvægt byggðasjónarmið, í ljósi þess að grásleppuveiðar eru stundaðar að mestu leyti í smáum sjávarbyggðum. Þá tel ég einnig mikilvægt að gert sé ráð fyrir nýliðunarstuðningi þar sem nýliðum verður gert auðveldara en nú er að hefja veiðar. Lítil nýliðun hefur verið í greininni síðustu ár og mikilvægt að næsta kynslóð grásleppusjómanna hafi tækifæri á að spreyta sig. Að sama skapi tel ég mikilvægt að samþjöppun sé takmörkuð með því að hafa lágt þak á heildaraflahlutdeild í tegundinni.
Eftir að samráði við almenning lýkur um áformin er næsta skref að fara í samráð um frumvarpið sjálft. Gert er ráð fyrir að málið verði lagt fyrir Alþingi í vetur.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra