Nýverið voru samþykktar breytingar á húsaleigulögum á Alþingi. Markmið breytinganna er að bæta réttarstöðu leigjenda og þannig auka húsnæðisöryggi. Í breytingunum felst skýrari rammi um ákvörðun leigufjárhæðar og aukinn fyrirsjáanleiki – en verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir breytingum í þessa veru um talsvert skeið. Frumvarpið sem lagt var fram er afrakstur margra starfshópa sem settir hafa verið á fót á undanförnum árum í samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
Þrátt fyrir þessar tímabæru breytingar er eftir sem áður afar mikilvægt að halda áfram að finna áhrifaríkar leiðir til þess að auka húsnæðisöryggi, enda er þörfin fyrir húsnæði svo mikil frumþörf að markaðsöflunum einum og sér má ekki eftirláta að uppfylla hana. Þar þurfum við einkum að horfa á framboðshliðina og fjölga samningum um uppbyggingu húsnæðis við sveitarfélög. Við þurfum jafnframt að rýna betur þær áætlanir sem við miðum við svo þær endurspegli sem best raunþróun. Húsnæðismarkaður er eins og aðrir markaðir háður væntingum almennings og fjárfesta um þróun og því afgerandi að áætlanir séu í takti við raunþróun.
Gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólum
Í haust verður svo sú breyting til batnaðar að máltíðir í grunnskólum landsins verða gjaldfrjálsar, en frumvarp sem heimilar Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að endurgreiða hluta kostnaðar við máltíðir var samþykkt á Alþingi nýverið. Þar með stígum við skref sem nágrannar okkar í Svíþjóð stigu fyrir mörgum áratugum og tryggjum öllum nemendum í grunnskólum sömu stöðu. Það er mikilvægt skref í þá átt að stuðla að jafnara og betra samfélagi. Samkvæmt langtímarannsóknum sem gerðar hafa verið í Svíþjóð eru áhrif þessara breytinga á börn fátæks og lágtekjufólks veruleg og um er að ræða afar mikilvæga aðgerð til þess að draga úr skaðlegum áhrifum fátæktar á börn. Ég hef talað fyrir mikilvægi þessara breytinga frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum á sveitarstjórnarstigi og er því einkar ánægjulegt að sjá þær raungerast.
Umbótaöflin vinna saman
Það sem þessar breytingar sýna er að þegar umbótaöfl í stjórnmálum og aðilar vinnumarkaðarins leggjast á eitt til þess að bæta samfélagið er hægt að ná miklum árangri. Sambærilegir sigrar í þágu réttlætis unnust einnig við gerð lífskjarasamninganna 2019 og færa heim og saman nauðsyn þess að umbótaöfl komi að stjórn landsmálanna og forystu alþýðu- og verkafólks. Baráttunni fyrir réttlæti lýkur aldrei og það er margt eftir ógert. Fyrir þeim málstað og fyrir samstöðu umbótaafla mun ég beita mér áfram.
Svandís Svavarsdóttir er innviðaráðherra.