Search
Close this search box.

Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá friðlýst – boðið til göngu í tilefni friðlýsingar

Deildu 

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, mun undirrita friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár ofan Garðabæjar á morgun. Undirritunin fer fram í gönguferð sem Ferðafélag Íslands stendur fyrir í Búrfellsgjá og á Búrfell í tilefni af friðlýsingunni. Gangan hefst kl. 17 og tekur tvær klukkustundir.

Búrfellsgjá varð til í miklu eldgosi fyrir um átta þúsund árum í litlum eldgíg, sem nefnist Búrfell. Í eldgosinu flæddi hraun úr gígnum niður á láglendið og út í sjó. Hraunin í miðbæ Hafnarfjarðar, í Garðabæ og Gálgahraun úti á Álftanesi eiga þannig öll uppruna sinn í Búrfelli og Búrfellsgjá.

Gönguferð í Búrfellsgjá er skemmtileg og þægileg ganga sem hentar vel fyrir alla fjölskylduna. Á göngu um Búrfellsgjá sjást margskonar hraunmyndanir, litlir hellisskútar, stórar sprungur og svokölluð misgengi, og svo auðvitað sjálf eldstöðin sem fæddi hraunið af sér. Má segja að á svæðinu komist fólk í beint samband við innri öflin í jörðinni undir fótum okkar, sjálfa uppsprettu landsins sem eldvirknin á Íslandi er.

Allir eru velkomnir í gönguna og er þátttaka ókeypis. Fararstjóri verður Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur en lagt verður af stað frá nýju bílastæði við Heiðmerkurveg í Garðabæ, sjá kort. Ekið er upp í Heiðmörk frá Garðabæ (Vífilsstöðum) eða Hafnarfirði og er nýja bílastæðið áberandi á hægri hönd um 2 km eftir að beygt er inn afleggjara í Heiðmörk.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search