Nútíma byggingarsaga á Íslandi er lituð ýmsum vandamálum sem hafa loðað lengi við. Stór orsakaþáttur þeirra eru náttúrufarsaðstæður í landinu. Nefni úrkomuna, háa tíðni storma og enn harðari óveðra, ör skipti frosts og þíðu og svo jarðskjálfta sem eiga sér upptök á um það bil helmingi landsins og skammt undan SV-, N- og NA-landi. Meðal þess sem hefur bjátað á eru útbreidd lekavandamál, einkum í þökum, útveggjum og gluggum, alkalískemmdir í steinsteypu, húsamygla og steypuskemmdir vegna algengrar frostveðrunar. Á sumu hefur tekist að ráða mismikla bót en að mörgu er enn að hyggja. Þess vegna hafa byggingarrannsóknir farið fram, í ríkisstofnun og til dæmis hjá verkfræðistofum. Vísasti vegur að árangri finnst með aðferðum og fræðum vísindagreina, svo sem eðlisfræði, efnafræði og jafnvel líffræði.
Undanfarin ár hafa jafnt yfirvöld sem arkitektar, verkfræðingar og aðrir sem starfa við byggingariðnaðinn horft æ meir til vistvænna bygginga, orkusparnaðar, loftslagsmála og til almennrar vellíðunar íbúa í fjölbreyttu húsnæði um allt land. Það er ánægjuleg þróun en hún veldur um leið því að byggingarrannsóknir eru mikilvægar sem aldrei fyrr.
Nú er verið að endurskipuleggja stýringu, fjármögnun og umhverfi nýsköpunar og margvíslegra rannsókna þeim tengdum, í samræmi við breytta nýsköpunarstefnu. Eins og ávallt á eftir að koma í ljós hvernig til tekst en breytingarnar eiga að efla og útbreiða nýsköpun. Þá er brýnt að haga því þannig að byggingarrannsóknir, sem hafa verið vistaðar hjá Nýsköpunarmiðstöðinni, fylgi með í eflingunni og þeim fundnir staðir, að hluta til áfram á ríkisvegum og að hluta til hjá sjálfstæðum aðilum. Merkilegar rannsóknir á húsamyglu, framfarir í byggingareðlisfræði og alþjóðleg framfaraskref í steypufræðum, svo eitthvað sé nefnt, verða áfram að vera í deiglunni og þeim tryggt grunnfjármagn. Þar gæti ein lausn falist í að rannsóknarstofa bygginga verði vistuð innan Mannvirkjastofnunar. Stofan gæti líka séð um samhæfingu og samþættun byggingarrannsókna og nýsköpunar í greininni.
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG í Suðurkjördæmi.