Search
Close this search box.

Covid í bólusettu samfélagi

Deildu 

Covid-19-veiran hefur sett svip sinn á daglegt líf fólks um allan heim í tæplega eitt og hálft ár. Veiran hefur valdið veikindum tæplega 200 milljóna jarðarbúa, dregið rúmlega 4 milljónir til dauða og sóttvarnaraðgerðir hafa haft í för með sér mikla röskun á daglegu lífi, í þeim tilgangi að hindra útbreiðslu veirunnar og vernda viðkvæma hópa fyrir afleiðingum hennar.

Bylting varð í þróun bóluefna við veirunni en á innan við ári tókst að þróa og fá leyfi eftirlitsstofnana fyrir notkun bóluefna gegn Covid-19 í mönnum, ferli sem venjulega getur tekið hátt í 10 ár. 

Það var okkar gæfa að hafa tekið þátt í samstarfi Evrópusambandsins um öflun bóluefna. Fyrirætlanir okkar um markmið í bólusetningum náðust hér á landi í sumar, það er að þorri þjóðarinnar yrði bólusettur fyrir mitt árið 2021. Það markmið náðist raunar og gott betur en það, því 25. júní 2021 höfðu öll sem fyrirhugað var að bólusetja gegn veirunni í fyrstu atrennu, þ.e. einstaklingar 16 ára og eldri, fengið boð í fyrri skammt bólusetningar. 

Nú hafa rúmlega 90% 16 ára og eldri fengið a.m.k. fyrri skammt bóluefnis gegn Covid-19, og þar af eru um 85% fullbólusett. Það er árangur á heimsmælikvarða og Ísland er meðal þeirra þjóða sem gefið hafa flesta bóluefnaskammta, samkvæmt upplýsingum af Our World in Data. Þennan góða árangur Íslands má skýra á ýmsan hátt, en ég tel að tveir þættir skipti miklu. Í fyrsta lagi er ljóst að landsmenn hafa sýnt mikinn vilja til þess að mæta í bólusetningu. Það er ekki sjálfsagt að svo sé og í sumum löndum í kringum okkur er staðan því miður ekki jafn góð hvað þetta varðar. Í öðru lagi langar mig að nefna skipulagið við framkvæmd bólusetninga, sem er ótrúlega gott og framkvæmdaaðilar sem koma að því eiga stórt hrós skilið. Okkur hefur því sem betur fer tekist að nýta bóluefni sem við höfum fengið mjög vel.

Það er líka sérstaklega mikilvægt að lönd heimsins leggist á eitt til að tryggja aðgengi allra jarðarbúa að bóluefni gegn Covid-19 og það erum við að gera og munum sannarlega gera áfram líka, bæði í gegnum COVAX-verkefnið og með því að gefa umframskammta sem við nýtum ekki hér.

Í lok júní réðumst við í afléttingar á samkomutakmörkunum að tillögu sóttvarnalæknis. Nú hefur staðan breyst og nauðsynlegt var að herða aðgerðir á ný 25. júlí sl. Því miður er veiran óútreiknanleg og engin forskrift er til að því hvernig bregðast eigi við covid-smitum í bólusettu þjóðfélagi. Því þurfum við, eins og við höfum gert hingað til, að fylgja ráðleggingum okkar færustu vísindamanna á sviði sóttvarna og grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að hindra útbreiðslu veirunnar. Við kunnum það og getum það, saman. 

Svandís Svavarsdóttir, greinin birtist fyrst

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search