Search
Close this search box.

Dagur ís­lenskrar náttúru

Deildu 

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september á ári hverju og meðvitund Þjóðarinnar verður sífellt sterkari um dýrmæti náttúru landsins.

Á undanförnum árum hefur erlendu ferðafólki fjölgað svo um munar og níu af hverjum tíu sem sem sækja landið heim gera það vegna náttúrunnar. Ósnortin, hrein og stórbrotin Íslensk náttúra er það sem fólk vill sjá. Þetta er mikilvæg staðreynd, ekki síst efnahagslega, fyrir Ísland.

Með nýtingu landsins gæða, hvort heldur er í sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða orkuöflun, erum við vissulega að skapa verðmæti sem skila sér inn í fjármögnun innviða landsins en það má aldrei vera á kostnað náttúrunnar. Því með ágangi og röskun dýrmætra svæða erum við einnig á óafturkræfan hátt að gagna gegn auðlind sem skilar sér í gjaldeyristekjum.

Fólk er ekki að sækja hálendið heim til að aka á malbikuðum vegum, meðfram vindmyllum og fallvatnsvirkjunum né til að geta keypt sér pylsu í vegasjoppu. Sérstaðan fellst í hinu frumstæða og ósnortna.

Íslensk þjóð hefur lifað í gegnum aldirnar í þessu samspili manns og náttúru, stundum fer landið óblíðum höndum um börnin sín. Jörð skelfur, hraun rennur, snjó- og aurflóð hafa tekið mannslíf og menningarverðmæti á augabragði. En þjóðarsál Íslendinga er samofin hinni íslensku náttúru og af henni höfum við lifað um aldir.

Það er mikilvægt að við höfum náttúruvernd alltaf í forgrunni í umræðunni um loftslagsmálin. Vissulega er staðan alvarleg og Ísland hefur skuldbundið sig til að takast af festu á við hina skelfilegu stöðu sem loftslagsváin er, en það má aldrei fara af stað í orkuöflun án þess að ígrunda vel afleiðingarnar á náttúruna. Mikilvægt er að auðlindaákvæði verði tryggt í okkar góðu stjórnarskrá og arður af nýtingu okkar sameiginlegu auðlinda renni með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar.

Veljum alltaf að láta náttúruna njóta vafans.

Jódís Skúladóttir, þingmaður VG í Norðausturkjördæmi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search