EN
PO
Search
Close this search box.

Dauði staðreyndanna

Deildu 

Fá hugtök hafa líklega náð meiri fótfestu á síðustu árum en falsfréttir. Það eru ekki síst stjórnmálamenn sem nota hugtakið og þá yfir fregnir sem draga eitthvað fram sem þeim sjálfum ekki hugnast. Við Íslendingar höldum oft að við séum öðruvísi en annað fólk, en svo er ekki. Sú þróun í umræðu og stjórnmálum sem við sjáum úti í heimi ratar hingað og hefur þegar gert það.

Á sama hátt hefur dregið úr gildi staðreynda og við hikum ekki við að tefla tilfinningu okkar fyrir því hvernig hlutirnir séu gegn vísindalegum staðreyndum.

Við sjáum þetta ekki síst í umhverfis- og loftslagsmálum, í það minnsta bar fyrst á þessu þar. Niðurstöður vísindamanna um hlýnun jarðar og hlutverk mannlegrar tilvistar í henni voru dregnar í efa. Það var líka auðveldara fyrir tíu, tuttugu árum, þegar afleiðingar loftslagsbreytinga voru ekki eins sýnilegar og nú er orðið. En enn er til fólk sem neitar því að maðurinn hafi nokkuð með þetta að gera, þrátt fyrir niðurstöður umfangsmikilla vísindarannsókna.

Þetta er einnig áberandi í óáþreifanlegri fyrirbærum eins og mannréttindum eða yfirráðum yfir auðlindum. Á dögunum átti ég í rökræðum við þingmann Miðflokksins sem taldi allar ásakanir um mannréttindabrot stjórnvalda á Filippseyjum vera falsfréttir. Ófáar ræður hafa verið haldnar á síðustu vikum um meint framsal á orkuauðlindum. Í þessum efnum skiptir álit sérfræðinga, niðurstaða rannsókna, sumt fólk engu ef það hefur annað á tilfinningunni. Þá trúir fjöldi fólks því ranglega að bólusetningar geti leitt til einhverfu svo til vandræða horfir með útbreiðslu sjúkdóma sem tekist hafði að vinna bug á.

Þetta hefur í för með sér að oft og tíðum er erfitt að eiga í umræðum, við eigum erfitt með að taka upplýstar ákvarðanir – sem er grundvöllur lýðræðisins. Almennt er gott að efast. En ef við erum tilbúin að stimpla óþægilegar staðreyndir sem falsfréttir, þá fyrst eigum við í vanda.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search