PO
EN
Search
Close this search box.

Degi íslenskrar náttúru fagnað

Deildu 

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson veitti í dag á Degi íslenskrar náttúru Sagafilm fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Jóni Stefánssyni Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.

Dómnefnd skipuð fagfólki úr fjölmiðlum valdi handhafa Fjölmiðlaverðlaunanna en í henni sátu Ragna Sara Jónsdóttir formaður, Kjartan Hreinn Njálsson og Valgerður Anna Jóhannsdóttir.

Var það niðurstaða dómnefndar að veita Sagafilm Fjölmiðlaverðlaunin fyrir sjónvarpsþáttaröðina „Hvað höfum við gert?“ sem sýnd var í RÚV Sjónvarpi. Segir í rökstuðningi nefndarinnar að með þáttaröðinni hafi Sagafilm tekist að setja loftslagsmálin rækilega á dagskrá í íslensku samfélagi. „Í þáttaröðinni, sem er einstök í íslenskri fjölmiðlasögu, er fjallað með grípandi hætti um loftslagsbreytingar af manna völdum; hvernig þessar breytingar munu að líkindum hafa áhrif á samfélag mannanna hér á landi og víðar, en um leið var sjónum beint að því hvað þarf að gera til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem og til að milda áhrif þeirra breytinga sem yfirvofandi eru á veðrakerfum og náttúru Jarðarinnar,“ segir í rökstuðningnum. Þannig hafi þáttunum tekist að virkja umhverfisvitund almennings með áberandi hætti.

Verðlaunagripur Fjölmiðlaverðlaunanna nefnist Jarðarberið og er eftir Finn Arnar Arnarson. Er hann í formi krækibers en á því er örlítið Ísland, rétt eins og krækiberið sé hnötturinn eða jörðin.

Í umsögn ráðherra vegna Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti kemur m.a. fram að Jón Stefánsson hafi skarað fram úr sem kennari „með sínum óþrjótandi áhuga á að nýta nærumhverfi barnanna – náttúruna á heimaslóðum þeirra – til kennslu, rannsókna og upplifunar.“ Þannig hafi nemendur í Hvolsskóla verið virkir þátttakendur í fjölda náttúrutengdra verkefna og fundið á eigin skinni hvernig náttúran breytist og bregst við athöfnum mannanna. Má þar nefna vistheimtarverkefni sem Hvolsskóli hefur tekið þátt í frá 2013 þar sem nemendurnir beita viðurkenndum rannsóknaraðferðum við að kanna áhrif og árangur ólíkra aðferða við landgræðslu; gróðursetningu trjáplantna við rætur Heklu og; mælingar sjöundubekkinga á hopi Sólheimajökuls sem staðið hafa yfir frá 2010 og vakið hafa hemsathygli. „Með elju sinni, ástríðu og hugmyndaauðgi hefur Jón haft ómetanleg áhrif á hundruð barna sem hafa verið svo lánsöm að hafa haft hann sem kennara,“ segir í umsögninni.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search