Search
Close this search box.

Dómstólar og mannréttindi eru ekki leikföng fyrir ráðamenn

Deildu 

Á næsta ári fögnum við því að 70 ár eru liðin frá því að Ísland varð aðili að Evr­ópu­ráð­inu. Í gegnum Evr­ópu­ráðið er íslenska ríkið aðili að Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu sem er ein mesta rétt­ar­bót sem Ísland hefur und­ir­geng­ist. Sátt­mál­inn hefur haft mikil og góð áhrif á rétt­ar­ríkið hér á landi, til að mynda hefur hann haft rík túlk­un­ar­á­hrif á mann­rétt­inda­á­kvæði Stjórn­ar­skrár Íslands eins og sjá má í dómum Hæsta­rétt­ar. Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu tryggir síðan að aðild­ar­ríki Evr­ópu­ráðs­ins virði þau grund­vall­ar­rétt­indi borg­ar­anna sem kveðið er á um í sátt­mál­an­um.

Það sem er kannski mik­il­væg­ast varð­andi þau grund­vall­ar­rétt­indi er að borg­arar aðild­ar­ríkja Evr­ópu­ráðs­ins geta leitað til dóm­stóls­ins telji þeir að stjórn­völd hafi beitt þá órétti eða ef þeir telja að þeirra eigin dóms­mál hafi ekki hlotið rétt­láta með­ferð í þeirra eigin dóms­kerfi.

Um þetta snýst ein­fald­lega málið sem Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn dæmdi í gagn­vart íslenska rík­inu í síð­ustu viku. Og sem aðild­ar­ríki Evr­ópu­ráðs­ins og lýð­ræð­is­ríki sem ber virð­ingu fyrir mann­rétt­ind­um, ber okkur skylda til að fara eftir úrskurðum dóm­stóls­in

Nið­ur­staða dóms­ins er vönd­uð, ein­föld og rök­studd á skýran hátt enda var dæmt út frá Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu. Og það vill svo til, að dómar dóm­stóls­ins eru þjóð­rétt­ar­lega skuld­bind­andi sem íslenskir dóm­stólar hafa ávallt og und­an­tekn­ing­ar­laust beygt sig und­ir. Líka þegar íslenska ríkið hefur tapað máli.

Við­brögð íslenskra stjórn­valda skipta öllu máli

Dóm­stóll­inn komst að því að íslensk stjórn­völd hefðu brotið gegn sjöttu grein mann­rétt­inda­sátt­mál­ans með því hvernig dóms­mála­ráð­herra skip­aði dóm­ara í Lands­rétt. Við þessu var ítrekað var­að, emb­ætt­is­menn dóms­mála- og for­sæt­is­ráðu­neyt­anna vör­uðu ráð­herr­ann við því að velja til­tekna fjóra ein­stak­linga út úr umsækj­enda­hópnum og skipa þá sem dóm­ara án rök­stuðn­ings – og virða að vettugi nið­ur­stöðu hæfn­is­nefndar um aðra fjóra sem henni leist síður á.

Þetta gerði ráð­herr­ann án þess að upp­fylla rann­sókn­ar­skyldu og án þess að rök­styðja ákvörð­un­ina með full­nægj­andi hætti. Allt benti til þess að ráð­herr­ann hefði beitt geð­þótta við ákvörðun af þessu tagi – nokkuð sem gekk ekki upp að mati Hæsta­réttar Íslands og Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu.

Við þessu var ítrekað varað úr ræðu­stól alþing­is, meðal ann­ars af þeirri sem hér heldur á penna en um það var engu skeytt og haldið áfram í krafti póli­tísks valds.

En svo fór sem fór og við­brögðin þurfa að vera yfir­veguð og sann­gjörn. Að leið­rétta skjótt það sem þarf að leið­rétta. Til að rétt­ar­ríkið virki sem skyldi fyrir alla borg­ara lands­ins. Til að ráð­herrar ráði því ekki hverju sinni hvaða fólk er skipað í dóm­stóla. Af þeim dæmum hljótum við að hafa fengið alveg nóg.

Það var nauð­syn­legt að dóms­mála­ráð­herra skyldi víkja úr emb­ætti og taka þar með ábyrgð á emb­ætt­is­færslum sín­um. Emb­ætt­is­verkum sem ollu mik­illi óvissu í dóm­stig­inu og í rétt­ar­kerf­inu og var aug­ljóst að hún gæti ekki verið sú sem leysti úr flækj­unum sem hún skap­aði.

Það er líka gott hjá for­sæt­is­ráð­herra að skipa öfl­ugan sér­fræð­inga­hóp til að fara yfir stöð­una sem nú rík­ir, til að skila fljótt til­lögum til að Lands­réttur verði starf­hæfur aftur og að svara því hver verða afdrif dóma Lands­rétt­ar, hvort afplán­anir frest­ist eða ekki, hvort og þá hvernig beri að skipa á ný í Lands­rétt svo að sátt ríki og traust auk­ist.

En það er áhyggju­efni hve fljótt ráð­herrar rík­is­stjórn­ar­innar voru að lýsa því yfir að íslenska ríkið skyldi áfrýja dómn­um. Af hverju? Í hvaða til­gangi? Slíka ákvörðun má ekki taka á hlaup­um. Nið­ur­staðan í mál­inu er skýr og skila­boðin eru afdrátt­ar­laus. Ekki bara til íslenskra stjórn­valda, heldur líka til stjórn­valda þeirra aðild­ar­ríkja Evr­ópu­ráðs­ins sem hafa leit­ast við að grafa undan Mann­rétt­inda­dóm­stóln­um, mann­rétt­ind­um, rétt­indum borg­ar­anna og lýð­ræð­is­legu stjórn­ar­fari.

Áfrýja eða ekki? Bar­átta eða auð­mýkt?

Ég er alls ekki á þeirri skoðun að það sé sjálf­sagt að vísa mál­inu til yfir­deildar Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu. Við verðum að velta því ræki­lega fyrir okkur hver sé raun­veru­legur til­gangur þess að áfrýja máli sem snýst um rétt ein­stak­linga til að leita réttar síns og að þeir fái rétt­láta máls­með­ferð. Dóm­stóla­sýslan leggur ríka áherslu á að áhrif af áfrýjun verði metin áður en ákvörðun um slíkt verði tek­in. Á því eigum við að taka mark. Við þurfum að koma starf­semi hins mik­il­væga milli­dóm­stigs, Lands­rétt­ar, á réttan kjöl sem fyrst og getum ekki beðið eftir nið­ur­stöðu úr áfrýjun til þess.

Það eru hags­munir almenn­ings í land­inu að dóms­kerfið starfi með eðli­legum hætti og að Lands­rétt­ur, hangi ekki í lausu lofti. Áfrýjun til yfir­deildar fram­lengir óvissu í rétt­ar­kerf­inu. En íslensk stjórn­völd verða líka að sýna auð­mýkt í því að standa vörð um mann­rétt­indi og áfrýjun er ekki endi­lega merki um auð­mýkt­ina sem við þurfum að sýna. Berum áfram virð­ingu fyrir mann­rétt­indum og þeim skuld­bind­ingum sem við höfum und­ir­geng­ist og gröfum ekki undan Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evr­ópu eða okkar mik­il­vægu skyldum sem fel­ast í því að verja rétt­indi borg­ar­anna.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir.  Höf­undur er vara­for­seti Evr­ópu­ráðs­þings­ins og for­maður Íslands­deildar Evr­ópu­ráðs­þings­ins.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search