Ekkert mun hafa jafnmikil áhrif á velferð barna á komandi áratugum og loftslagsbreytingar. Framtíðarkynslóðir þurfa að lifa við afleiðingar þeirra ákvarðana sem teknar voru löngu fyrir þeirra tíð. Teknar, nú eða ekki teknar. Ákvarðanir sem ungt fólk hafði lítil sem engin áhrif á. Þetta þarf auðvitað ekki að vera svona. Ein leið til að breyta þessu er að bjóða ungu fólki stól við borðið. Við þurfum að hlusta á áhyggjur þeirra og bregðast við af meiri festu en við höfum gert hingað til.
Áhrif ungs fólks
Ég vil vera meðvituð um þetta í mínum störfum og reyni alltaf að grípa tækifærið til að ræða við ungt fólk um framtíð þess. Þau samtöl skila oftast miklum árangri og ég fæ nýtt sjónarhorn á þau mál sem ég fæst við dagsdaglega í störfum mínum. Slíkt tækifæri gafst í gær þegar mér bauðst að taka þátt í panel á ráðstefnu um loftslagsréttlæti út frá réttindum barna hjá umboðsmönnum barna í Evrópu ásamt því að flytja ræðu. Við undirbúning ræðunnar rifjaðist það upp fyrir mér að þegar ég mælti fyrir fyrsta frumvarpi til laga um loftslag, fyrir 10 árum síðan, tók enginn þingmaður þátt í umræðum á þinginu. Enginn. Fyrir aðeins 10 árum síðan hafði enginn áhuga á málaflokknum og það áhugaleysi hefur reynst okkur dýrkeypt í kapphlaupi tímans við loftslagsvána.
Sem betur fer eru langflestir stjórnmálamenn í dag búnir að kveikja á perunni og það eigum við ekki síst ungu fólki að þakka. Það hefur haldið umræðunni á lofti með elju og úthaldi og fyrir það ber að þakka. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og nú er svo komið að málaflokkurinn teygir anga sína inn í öll ráðuneyti. Þannig þarf það að vera til að við náum árangri. Markmið Íslands fela í sér samdrátt í losun um 55% eða meira til ársins 2030. Þessu markmiði þurfum við að ná ef við ætlum að ná markmiði okkar um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Þið sjáið; við megum engan tíma missa.
Hugrekki og djarfar ákvarðanir
Því miður sjáum við þegar mikil áhrif loftslagsbreytinga. Þjóðir heims hafa brugðist of seint við og þessi seinagangur mun bitna á börnum framtíðarinnar. Við megum hins vegar ekki leggja árar í bát og gefast upp fyrir verkefninu og þar með framtíðinni. Tækninni fleygir fram og við höfum séð slíkar tæknibyltingar á þessari öld og þeirri síðustu að við verðum að trúa því að við getum gripið í taumana. En þá þurfum við að sýna hugrekki í verki með því að taka djarfar ákvarðanir – og það hratt. Öll sem eitt, því það felst djúpstætt óréttlæti í því að skilja börnin okkar eftir með loftslagsreikninginn.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.