Search
Close this search box.

Dýrkeypt áhugaleysi

Deildu 

Ekk­ert mun hafa jafn­mik­il áhrif á vel­ferð barna á kom­andi ára­tug­um og lofts­lags­breyt­ing­ar. Framtíðarkyn­slóðir þurfa að lifa við af­leiðing­ar þeirra ákv­arðana sem tekn­ar voru löngu fyr­ir þeirra tíð. Tekn­ar, nú eða ekki tekn­ar. Ákvarðanir sem ungt fólk hafði lít­il sem eng­in áhrif á. Þetta þarf auðvitað ekki að vera svona. Ein leið til að breyta þessu er að bjóða ungu fólki stól við borðið. Við þurf­um að hlusta á áhyggj­ur þeirra og bregðast við af meiri festu en við höf­um gert hingað til.

Áhrif ungs fólks

Ég vil vera meðvituð um þetta í mín­um störf­um og reyni alltaf að grípa tæki­færið til að ræða við ungt fólk um framtíð þess. Þau sam­töl skila oft­ast mikl­um ár­angri og ég fæ nýtt sjón­ar­horn á þau mál sem ég fæst við dags­dag­lega í störf­um mín­um. Slíkt tæki­færi gafst í gær þegar mér bauðst að taka þátt í panel á ráðstefnu um lofts­lags­rétt­læti út frá rétt­ind­um barna hjá umboðsmönn­um barna í Evr­ópu ásamt því að flytja ræðu. Við und­ir­bún­ing ræðunn­ar rifjaðist það upp fyr­ir mér að þegar ég mælti fyr­ir fyrsta frum­varpi til laga um lofts­lag, fyr­ir 10 árum síðan, tók eng­inn þingmaður þátt í umræðum á þing­inu. Eng­inn. Fyr­ir aðeins 10 árum síðan hafði eng­inn áhuga á mála­flokkn­um og það áhuga­leysi hef­ur reynst okk­ur dýr­keypt í kapp­hlaupi tím­ans við lofts­lags­vána.

Sem bet­ur fer eru lang­flest­ir stjórn­mála­menn í dag bún­ir að kveikja á per­unni og það eig­um við ekki síst ungu fólki að þakka. Það hef­ur haldið umræðunni á lofti með elju og út­haldi og fyr­ir það ber að þakka. Rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur hef­ur sett sér metnaðarfull mark­mið í lofts­lags­mál­um og nú er svo komið að mála­flokk­ur­inn teyg­ir anga sína inn í öll ráðuneyti. Þannig þarf það að vera til að við náum ár­angri. Mark­mið Íslands fela í sér sam­drátt í los­un um 55% eða meira til árs­ins 2030. Þessu mark­miði þurf­um við að ná ef við ætl­um að ná mark­miði okk­ar um kol­efn­is­hlut­leysi fyr­ir árið 2040. Þið sjáið; við meg­um eng­an tíma missa.

Hug­rekki og djarf­ar ákv­arðanir

Því miður sjá­um við þegar mik­il áhrif lofts­lags­breyt­inga. Þjóðir heims hafa brugðist of seint við og þessi seina­gang­ur mun bitna á börn­um framtíðar­inn­ar. Við meg­um hins veg­ar ekki leggja árar í bát og gef­ast upp fyr­ir verk­efn­inu og þar með framtíðinni. Tækn­inni fleyg­ir fram og við höf­um séð slík­ar tækni­bylt­ing­ar á þess­ari öld og þeirri síðustu að við verðum að trúa því að við get­um gripið í taum­ana. En þá þurf­um við að sýna hug­rekki í verki með því að taka djarf­ar ákv­arðanir – og það hratt. Öll sem eitt, því það felst djúp­stætt órétt­læti í því að skilja börn­in okk­ar eft­ir með lofts­lags­reikn­ing­inn.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search